fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Íbúar í nágrenni Napólí óttast að gos sé yfirvofandi í ofureldfjalli

Ritstjórn Pressunnar
Þriðjudaginn 3. október 2023 15:30

Íbúum var mörgum hverjum brugðið eftir skjálftann í gær.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúar í grennd við Napólí, þriðju fjölmennustu borg Ítalíu, eru margir hverjir á varðbergi vegna óvenju mikillar jarðskjálftavirkni. Skjálftahrinan er bundin við fjallið Campi Flegrei sem er skammt vestur af Napólí.

Í síðustu viku varð skjálfti af stærðinni 4,2 á svæðinu og í gær varð annar nokkuð snarpur skjálfti, 4,0 af stærð. Íbúar Napólí fundu vel fyrir skjálftunum og urðu einhverjar skemmdir á mannvirkjum.

Jörð hefur skolfið á þessu svæði síðustu vikur og mánuði en nú virðist hrinan vera að sækja í sig veðrið.

Í sumar vöruðu vísindamenn við því að eldgos væri hugsanlega yfirvofandi. Eldgos á þessum slóðum eru sem betur fer fátíð en þegar þau verða geta þau verið stór og mikil. Síðast gaus í Campi Flegrei árið 1538 og eru vísindamenn margir þeirrar skoðunar að fjallið sé komið á tíma.

„Það eru engin merki um það að þessi virkni sé að minnka,“ segir Carlo Doglioni, forstöðumaður Jarð- og eldfjallastofnunar Ítalíu, INGV, við TGCom24 sem breska blaðið Guardian vitnar til.

Doglioni segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að hrinan hætti eins og gerðist á níunda áratug síðustu aldar en þá sýndi Campi Flegrei samskonar virkni og nú.

Annar möguleiki, og öllu verri, er sá að eldgos hefjist í fjallinu en það myndi bjóða hættunni heim fyrir fjölmarga íbúa á svæðinu. Talið er að 350-500 þúsund manns gætu þurft að yfirgefa heimili sín ef eldgos brýst út.

„Við fylgjumst vel með en vitum ekki hvernig þetta mun þróast. Ef það verður eldgos er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvar það verður. En jafnvel lítið gos mun hafa mikil áhrif,“ segir Doglioni.

Segja má að Napólí sé mitt á milli Campi Flegrei og hins keilulaga eldfjalls Vesúvíus sem er austan við borgina. Eins og mörgum er kunnugt lagði Vesúvíus rómversku borgina Pompei í rúst fyrir um tvö þúsund árum. Reuters segir frá því að Campi Flegri sé mun stærra eldfjall en Vesúvíus og milljónir mannslífa gætu verið í hættu ef stórt eldgos brýst þar út.

Hér að neðan má sjá svipmyndir frá Ítalíu eftir skjálftann í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad
Pressan
Fyrir 4 dögum

Skilur ekki gleðina yfir morðinu sem allir eru að tala um

Skilur ekki gleðina yfir morðinu sem allir eru að tala um