fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Neytendur

Verðkönnun á fimm ómissandi vörum fyrir jólin

Jólatré, Nóa-konfekt, malt og appelsín, hangikjöt og Arnaldur

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 15. desember 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar eru í óða önn að birgja sig upp af ýmiskonar vörum fyrir jólahátíðina. DV ákvað að gera létta verðkönnun á nokkrum mikilvægum hlutum í íslensku jólahaldi. Á mjög óvísindalegum hugmyndafundi ritstjórnar blaðsins var komist að því fimm hlutir væru algjörlega ómissandi, jólatré, hangikjöt, Nóa-Siríus konfekt, malt og appelsín auk nýjustu bókar Arnalds Indriðasonar. Blaðamaður settist því næst yfir niðurstöðurnar og útfærði þær nánar.

Ákvað ykkar einlægur upp á sitt einsdæmi að skoða verðið á norðmannsþin sem og 1 kílógramma pakka af Nóa-Siríus súkkulaði. Þá ákvað blaðamaður að vera húðlatur og kaupa tilbúnar dósir af malti og appelsíni í stað þess að kaupa maltið og appelsínið hvort í sínu lagi. Margir möguleikar eru í boði varðandi hangikjötið en þar sem blaðamaður á það til að vera fullur af skít kann hann best að meta taðreykt kjöt. Varð niðurstaðan sú að freista þess að finna ódýrasta kjötið af þeirri tegund í hverri og einni verslun. Verðkönnunin fór síðan fram þann 13. desember síðastliðinn.

Jólatrén ódýrust í Iceland

Af hinum hefðbundnu matvöruverslunum eru aðeins tvær sem selja jólatré, Costco og Iceland. Costco bauð aðeins upp á tré sem voru 2,1–2,4 metrar að stærð og því freistaði blaðamaður þess að skoða verðið á þessari stærð hjá samkeppnisaðilum. Niðurstaðan varð sú að Iceland bauð upp á langhagstæðasta verðið, eða 3.999 krónur fyrir hvert tré. Þá býður verslunin einnig upp á þau kostakjör að viðskiptavinir fá ókeypis tré ef verslað er fyrir 20 þúsund krónur eða meira í versluninni. Garðheimar voru upphaflega dýrastir en höfðu slengt 20% afslætti á trén þegar DV gerði verðkönnun sína. Það kom því í hlut Blómavals að vera dýrastir en jólatrén þar kostuðu 8.999 krónur ef stærðin var yfir 2 metrar.

Þá ber að geta þess að fjölmargir eru ekki að hugsa um hagstæðasta verð þegar fjárfest er í jólatré. Margir upplifa sanna jólastemningu með því að velja sitt tré sjálfir úti í náttúrunni hjá skógræktarfélögum víða um landið og þá eru margir sem styrkja gott málefni með því að versla trén hjá hjálparsveitum.

Iceland – 3.999 krónur (aðeins upp að 2,3 metrum)
Costco – 4.999 krónur (aðeins 2,1–2,4 metrar)
Garðheimar – 7.960 krónur (2–2,5 metrar – verð með 20% afslætti)
Blómaval – 8.999 krónur (2–2,5 metrar)
IKEA – á eftir að fá verð

Iceland með ódýrasta maltið og appelsínið

Eins og áður segir ákvað blaðamaður að létta sér lífið með því að kanna verðið á tilbúnu malt og appelsín-blöndunni frá Ölgerðinni. Varan var langódýrust hjá Iceland en Hagkaup var dýrasta verslunin af þeim sem DV heimsótti. Þó ber að geta þess að ekki var hægt að kaupa drykkinn vinsæla hjá Costco. Verslunarrisinn alþjóðlegi hefur því ekki enn lært inn á íslenskar jólahefðir.

Iceland – 159 krónur
Bónus – 175 krónur
Krónan – 176 krónur
Nettó – 179 krónur
Hagkaup – 199 krónur
*Costco – Ekki í boði *

Nóa-Konfektið ódýrast hjá Nettó

Nóa-Konfektið vinsæla er til í fjölmörgum mismunandi söluumbúðum. Blaðamaður ákvað upp á sitt einsdæmi að kanna verðið á 1 kílógramma pökkunum hjá helstu söluaðilum. Nettó reyndist bjóða upp á ódýrasta verðið en þó munaði aðeins einni krónu á þeim og Krónunni. Dýrast var konfektið í Hagkaup.

Nettó – 2.698 krónur
Bónus – 2.959 krónur
Krónan – 2.960 krónur
Iceland – 3.269 krónur
Hagkaup – 3.299 krónur
Costco – Ekki í boði

Nettó hefur vinninginn í hangikjötinu

Það er kannski ekki hægt að fullyrða lengur að hangikjöt sé vinsælasta kjötmetið sem Íslendingar leggja sér til munns um jólin en það hlýtur að vera óumdeilt að það tengist íslenskum jólum hvað sterkustu böndunum. Eins og áður segir freistaði blaðamaður þess að skoða verðið á úrbeinuðu taðreyku hangikjötslæri en að sjálfsögðu verður hver og einn að meta gæðin fyrir sig. Ef margar tegundir voru í boði þá var sú ódýrasta valin. Niðurstaðan er sú að ódýrasta hangikjötið fæst í Nettó en dýrasta taðreykta hangikjötið fékkst í Krónunni.

Nettó – Taðreykt hangikjöt frá Kjarnafæði – 2.990 kr/kg
Iceland – Taðreykt hangikjöt frá Kjarnafæði – 2.999 kr/kg
Costco – Taðreykt hangikjöt frá Esju – 3.299 kr/kg
Hagkaup – Taðreykt hangikjöt frá Kjarnafæði – 3.299 kr/kg
Krónan – Taðreykt hangikjöt frá SS – 3.499 kr/kg
Bónus – Taðreykt hangikjöt er ekki í boði. Kofareykt hangikjöt er á 2.798 kr/kg

Arnaldur ódýrastur í Bónus

Bækur eru ein vinsælasta jólagjöfin hjá landsmönnum og vonandi breytist sú hefð aldrei. Eins og venja er þá trónir Arnaldur Indriðason á toppi metsölulistans og því ljóst að nýjasta verk hans, „Myrkrið veit“, verður í fjölmörgum pökkum. Eins og endranær eru margar matvöruverslanir sem taka þátt í jólabókaflóðinu með því að bjóða upp á bækur á hagstæðu verði. Verk Arnaldar er ódýrast í Bónus en Nettó er skammt á eftir. Athygli vekur að verðið í Costco er á svipuðum stað og tilboðsverð Pennans/Eymundsson. Þá er einnig athyglisvert að Krónan ákvað að bjóða ekki upp á jólabækur í ár.

Bónus – 4.469 krónur
Nettó – 4.473 krónur
Costco – 5.199 krónur
Penninn/Eymundsson – 5.299 krónur á tilboði
Iceland – Ekki í boði
Hagkaup – Ekki í boði
Krónan – Ekki í boði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Neytendur
26.01.2020

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali
FréttirNeytendur
14.12.2019

Ekki gefa glataðar jólagjafir – Svona kemst þú hjá því

Ekki gefa glataðar jólagjafir – Svona kemst þú hjá því
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
Neytendur
24.01.2018

Viktoría keypti engan mat í mánuð en borðaði sig samt sadda alla daga: Svona fór hún að því

Sparaði mikið í leiðinni

Viktoría keypti engan mat í mánuð en borðaði sig samt sadda alla daga: Svona fór hún að því