fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Neytendur

Svona áttu að fylla út framtalið – Átt þú rétt á afslætti?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 1. mars 2020 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um mánaðamótin er runninn upp sá tími ársins þegar við þurfum að standa skil á skattframtali okkar. Frestur til að skila inn framtali er til 10. mars, en að vanda er hægt að sækja um viðbótarfrest. Með rafrænum skilum er oft leikur einn að skila framtalinu, en þó er mögulega ástæða til að staldra aðeins við og fara yfir framtalið. Kannski áttu rétt á ívilnun, kannski er vert að haka við eina ódýrustu tryggingu landsins og hvað er málið með húsaleiguna, þarf að gera grein fyrir henni á framtali eða ekki? Hér eru nokkur hagnýt atriði til að hafa í huga við framtalsskil. Þessi listi er þó engan veginn tæmandi og DV hvetur skattgreiðendur til að nýta sér ítarlegar framtalsleiðbeiningar sem skatturinn hefur útbúið og finna má á slóðinni: leidbeiningar.rsk.is

Afsláttur (skattaívilnanir) 

Eyðublað RSK 3.05

Vissar aðstæður eða áfall í lífinu getur valdið auknum útgjöldum. Skatturinn tekur tillit til þess með svonefndum ívilnunum, eða lækkun á þeirri upphæð sem verður grundvöllur útreiknings á tekjuskatti og útsvari. Allar eiga þessar ívilnanir sameiginlegt að grundvallast á sérstökum aðstæðum eða áföllum sem geta haft mikil áhrif á gjaldþol fólks. Til að sækja um eftirfarandi ívilnanir þarf að fylla út umsókn RSK 3.05 á framtali.

1 Framfærsla annarra 

Ertu með foreldri, afkvæmi eða annan venslamann á framfæri því þeir geta ekki séð fyrir sér sjálfir? Þá gætir þú átt rétt á afslætti. Þetta á til að mynda við ef þú ert með barn á framfæri á aldrinum 16–21 árs sem er tekjulaust eða afar tekjulágt. Einnig getur þetta átt við ef þú ert með venslamann eða til dæmis foreldri á framfæri því viðkomandi stendur ekki undir eigin framfærslu. Hámarkslækkun vegna framangreinds fyrir árið 2020 er 390.000 krónur, ef ungmenni hefur engar tekjur haft. Tekjur ungmenna skerða lækkunina að því sem nemur þriðjungi tekna þeirra og fellur þessi réttur niður ef tekjur ungmennis voru yfir 1.170.000 á árinu 2019.

2 Eignatjón 

Ef þú hefur orðið fyrir því óláni á síðasta ári að lenda í verulegu eignatjóni sem þú hefur hvergi getað fengið bætt, þá gæti það orðið grundvöllur skattafsláttar. Skilyrðið er að eignatjónið hafi átt sér stað á framtalsárinu, það hafi ekki fengist bætt frá tryggingum eða öðrum aðilum og að um verulegt eignatjón sé að ræða.

3 Veikindi og slys

Ef veikindi, slys, andlát eða ellihrörleiki hafa valdið miklum útgjöldum eða með öðrum hætti valdið verulega skertu gjaldþoli þá gæti ívilnun komið til álita. Þá er verið að horfa til þess kostnaðar sem þú hefur sjálfur greitt og er umfram það sem getur talist til venjulegs kostnaðar vegna til dæmis lyfja og læknisheimsókna. Eins geta þeir sem eiga langveik börn eða börn með fötlun sem veldur verulegum útgjöldum átt rétt á afslættinum.

4 Tapaðar kröfur

Ef framteljandi tapaði útistandandi kröfum, ótengdum atvinnurekstri, á árinu þá gæti það orðið grundvöllur lækkunar. Til dæmis ef framteljandi lánaði kunningja peninga en tapaði kröfunni vegna gjaldþrots lántaka. Eða ef framteljandi var ábyrgðarmaður á láni og á ekki endurkröfu á lántaka.

Ungmenni í námi

Liður 1.3 á framtali

Ef þú ert með ungmenni á framfæri, sem er í námi, þá getur það gefið þér tilefni til að sækja um ívilnun. Hér er aðeins átt við lán sem ekki er lánshæft. Þetta úrræði skerðist svo eftir tekjum ungmennis og fellur niður að fullu ef tekjur ungmennis voru yfir 1,17 milljónir á síðasta ári. Tilgreina þarf nafn skóla á framtali og tilgreina tekjur ungmennis í dálk 528. Til að sækja um þetta úrræði er grundvallaratriði að framtali ungmennis hafi þegar verið skilað. Það nægir að annað foreldri sæki um, en ívilnunin skiptist á milli framfærenda.

Ódýr slysatrygging

Hakar við reit á framtali eða breytir í stillingum á þjónustusíðum RSK.

Á framtali er hægt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf. Það kostar aðeins 550 krónur. Með slíkri tryggingu getur framteljandi tryggt sér rétt til bóta almannatrygginga vegna slysa við heimilisstörf, eða sama rétt og vegna vinnuslysa. Slíkar bætur geta falist í slysadagpeningum, greiðslu sjúkrakostnaðar eftir ákveðnum reglum, örorkubætur ef slys leiðir til örorku og dánarbætur ef slysið veldur dauða innan tveggja ára frá slysdegi. Slysatryggingin gildir aðeins ef framtali er skilað tímalega.

Gjafir 

Liður 2.3.6 á framtali

Ótrúlegt en satt þá eru gjafir skattskyldar tekjur í augum skattsins. Að sjálfsögðu eltist skatturinn þó ekki við hefðbundnar afmælis- og jólagjafir, eða með öðrum orðum þá eru hefðbundnar tækifærisgjafir undanþegnar skattlagningu, ef verðmæti þeirra er ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir.

Vinningar í veðmáli eða keppni

Liður 2.3.6 á framtali.

Slíkir vinningar eru skattskyldir, nema þeir séu sérstaklega undanskildir skattskyldu með lögum en slíkt á til dæmis við um vinninga í Lottó.

Vinna við eigin íbúðarhúsnæði á vinnutíma

Liður 2.3.6. á framtali og Húsbyggingarskýrsla RSK 3.03

Ef þú varst að vinna við eigið húsnæði á hefðbundnum vinnutíma þá telst það til tekna og þarf að gera grein fyrir slíkri vinnu á framtali. Sama á við um skiptivinnu, gjafavinnu og eigin vinnu við aðrar fasteignir en íbúðarhúsnæði, til dæmis sumarbústað. Vinna við eigin íbúðarhúsnæði sem fer fram utan hefðbundins vinnutíma er hins vegar skattfrjáls.

Kaup og sala eigna

Fyllt út með eyðublaði RSK 3.02. 

Varstu að kaupa og/eða selja eignir árið 2019 án þess að það tengdist atvinnurekstri? Þá þarftu að fylla út eyðublað 3.02. Söluhagnaður af bæði lausafé og fasteignum er skattskyldur, nema í þeim tilvikum þar sem eignanna var ekki aflað gagngert í þeim tilgangi að hagnast. Ef þú ert að selja fasteign innan tveggja ára frá því að þú keyptir hana þá er hagnaður af sölu hennar skattskyldur. Hagnaður verður þá skattlagður eftir reiknireglum um fjármagnstekjuskatt.

Greidd leiga 

Fyllt út með greiðslumiða RSK 2.02

Í framtali er hægt að gera grein fyrir þeirri leigu sem þú hefur greitt til leigusala á árinu. Þetta er mikilvægt að gera ef þú ert á eða að fara að taka námslán þar sem greiðslumiðinn veitir sönnun fyrir því að þú sért á leigumarkaði. Með greiðslumiðanum er einnig hægt að samkeyra þær upplýsingar sem þú gefur upp við upplýsingar sem leigusali gefur upp á framtali, svo ekki sé um svartar óuppgefnar leigugreiðslur að ræða.

Leigutekjur 

Eyðublað RSK 3.25  og reitur 510 á framtali, nema um skammtímaútleigu á gistirými, s.s. Airbnb, sé að ræða, í þeim tilvikum skal færa tekjur í reit 511 á framtali eða á rekstrarblöð.

Ef þú leigðir út íbúðarhúsnæði, sem fellur undir húsaleigulög og leigjandi býr í, þá skaltu færa brúttótekjur í reit 510 á framtali. Af þeirri fjárhæð teljast þó aðeins 50 prósent til tekna en hin 50 prósentin eru skattfrjáls. Síðan þarf að gera grein fyrir tekjunum á eyðublaði RSK 3.25.

Ef um Airbnb er að ræða þá þarf að gera grein fyrir þeim tekjum í reit 511.

Ef þú ert leigusali en ert einnig sjálfur að leigja húsnæðið sem þú býrð í þá geturðu talið leigugjöld þín frá leigutekjunum. Þessi mismunur skráist í reit 510. Neikvæður mismunur færist ekki á framtal.

Ef þú leigir út þrjár íbúðir eða fleiri þá er um atvinnurekstur að ræða og þú þarft að færa starfsemina inn á rekstrarblað RSK.

Ný sambúð

Fyllt út með eyðublaði RSK 3.27 

Ef þú skráðir þig í sambúð á síðasta ári þá færðu stjörnumerkingu við fjölskyldumerkingu á forsíðu framtalsins. Ef þú færð slíka stjörnu þá þarftu að fylla út eyðublað RSK 3,27 og gera grein fyrir upphafsdegi sambúðar samkvæmt Þjóðskrá og hvort, ef skilyrði eru uppfyllt, óskað er eftir samsköttun. Ef þú varst áður einstætt foreldri og varst að hefja sambúð með öðrum en hinu foreldri barns þá heldur þú áfram réttinum til að fá barnabætur sem einstætt foreldri í ár.

Ef vinnuveitandi fór í þrot

Liður 1.4 á framtali

Ef vinnuveitandi þinn fór í þrot á árinu og þú átt inni launagreiðslur þá getur þú gert grein fyrir þeim undir lið 1.4 á framtali. Launin eru ekki færð til tekna. Hafir þú fengið greiðslur frá ábyrgðarsjóði launa þarf þó að gera grein fyrir þeim sem tekjum.

Eitthvað óskýrt ? 

Starfsfólk skattsins býður upp á þjónustu mánudaga til fimmtudaga frá 09.00–15.30 meðan á framtalsfresti stendur. Þú getur haft samband í síma 442-1414.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
Neytendur
26.01.2020

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali

Þetta áttu ekki að gera í atvinnuviðtali
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
20.06.2019

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína

Hefur þú tekið smálán? – Framkvæmdu þessi 3 skref til að vernda hagsmuni þína
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“
EyjanNeytendur
19.04.2019

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda

Umfelgunarkostnaður getur numið tugum þúsunda