Þórður Helgi Þórðarson, útvarpsmaður, ákvað að spyrja á Twitter hvað netverjar telja vera versta „sparimatinn“ en tilefni spurningarinnar var það að Dodda var boðið upp á lambaskanka, sem eru að hans mati versti sparimaturinn.
„Hver er að ykkar mati versti „sparimaturinn? Þá er ég ekki að tala um íslenskan ónýtan „mat“ eins og Þorra og svoleiðis. Ég gæti sagt mest allt lambakjöt en lambaskankar toppa viðbjóðinn þar, gæti virkað í hádegi á mánudegi en spari? Fokk nei! Já það voru lambaskankar í dag.“
Þó nokkur svör hafa borist við fyrirspurn Dodda og leggja netverjar til hrygg, hangikjöt, kalkún, hamborgarhrygg, allt lambakjöt, brúnaðar kartöflur og allt bleikt svínakjöt, svo dæmi séu tekin.
Hryggur. Kjöt sem bragðast eins og blautur lopi.
— Hrund Heiðrúnardóttir (@HrundSnorradot1) October 6, 2022
„Verst þegar fólk býður upp á svona rjóma-ávaxta-nammi-marengs-kókosbolluklessu í desert,“ skrifar ein og ræðst þar að föstum lið í fjölskylduboðum margra.
„Kalkúnn. Bragðast eins og pínu of gamall kjúklingur og fyllingin er eins og drulla. Myndi ekki borða í hádeginu á mánudegi,“ skrifar önnur sem segir það sem margir hafa hugsað í gegnum tíðina um kalkún.
Enn ein ræðast að hrísgrjóna eftirréttinum vinsæla: „Risalamande. Kaldur grjónagrautur með sultu. Ofboðslega þungt í magann og maður finnur bjúginn safnast undir húðinni,“ svo gengur hún lengra og ræðst á sjálfan brauðréttinn. „Brauðréttur. Afgangaréttur sem einhvern veginn slysaðist til að verða veislumatur.“
Doddi bætir við í athugasemd að rif séu ofmetið „drasl“ og hundleiðinlegt að borða.
„Wellington. Hvaða óþarfa hæp er það? Viðbjóður,“ skrifar enn ein.
Jón Gnarr villtist svo inn í umræðuna og lagði til gellur. Doddi benti á að það gæti seint talist veislumatur. „Þú mætir ekki í sunnudags steikina til mömmu og færð gellur er það“
Jón benti Dodda þá á að hann á enga mömmu.
Ég biðst afsökunar, ég var búinn að gleyma að þú værir munaðarlaus. Þetta var samt meira almenn spurning. Ertu að bjóða börnunum gellur þegar þau koma í mat á sunnudögum?
— Þórður Helgi Þórðar (@Doddilitli) October 6, 2022
Sættist náðust þó með þeim Dodda og Jóni. Sérstaklega eftir að Jón rifjaði upp að hafa fengið soðinn mjólkurkóp. „sem ku vera kópur sem er enn á spena (en auðvitað ekki eftir að búið er að sjóða hann“. Bauð Jón svo Dodda að kíkja í mat til hans. „Ég skal sjóða kóp og baka fyrir þig júgurglás með nýjum rófum og púðursykri“
Én af umræðunni við þennan þráð sem Doddi litli birti á Twitter má ráða að flestur veislumatur hér á landi eigi sér einhverja andstæðinga. Jafnvel villibráð var nefnd á nafn og sjálf íslenska kjötsúpan. Eftirréttirnir creme bruleé og tíramísú voru líka nefndir á nafn sem og rækjukokkteilar.
Einn skrifar líka sár: „Ég held að það sé búið að nefna allan uppáhaldsmatinn minn á þessum þræði og flesta uppáhalds eftirréttina og meðlætið.“
Af smá yfirferð yfir öll svörin má ráða að svínakjöt sé minnst vinsælast, bæði reykt og óreykt og ofeldað lambakjöt eigi sér fáa aðdáendur – sérstaklega þá skankarnir, já og svo kalkúnninn auðvitað.