fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022

Skötuhjúin í Sacramento

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. ágúst 2018 22:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gerald Armond og Charlene Adelle Gallego voru illa innrætt par, svo vægt sé til orða tekið. Gerald fæddist 17. júlí, 1946, en varð þess aldrei aðnjótandi að kynnast föður sínum. Það kom reyndar ekki til af góðu því pápi, Gerald eldri, var í grjótinu, San Quentin nánar tiltekið, þegar sonurinn fæddist. Gerald eldri, sem var skaphundur mikill, hafði orðið tveimur lögregluþjónum að bana og beið örlaga sinna á dauðadeild. Níu árum eftir fæðingu sonar síns tók hann sín síðustu andvörp í gasklefa í Mississippi, fyrstur manna til að hljóta þau örlög.

Gerald eldri
Skaphundur sem endaði ævi sína í gasklefa.

Gerald yngri ólst upp í þeirri trú að faðir hans hefði látist af slysförum, enda var það sú útgáfa sem móðir hans hafði fóðrað hann á. Kemur Gerald eldri ekki meira við sögu hér.

Sifjaspell og nauðganir

Gerald virðist hafa erft skapsmuni föður síns því um níu ára aldur komst hann í kynni við verði laganna. Þrettán ára var honum stungið inn eftir að upp komst að hann hefði haft kynmök við sex ára nágrannastúlku. 

Þegar Gerald varð 32 ára hafði hann gengið sjö sinnum í hjónaband, tvisvar sinnum með sömu konu, og gerst sekur um tvíkvæni á þeirri vegferð.

Gerald Armond
Í bernsku varð ljóst að hann mundi ekki feta veg dyggðarinnar.

Gefnar höfðu verið út nokkrar handtökuskipanir á hendur honum, meðal annars fyrir sifjaspell, nauðganir og endaþarmsmök. Síðasta eiginkona Geralds, áðurnefnd Charlene, virtist vera fullkomin andstæða hans. Hún kom frá heimili sem einkennst hafði af stöðugleika og ástríki, og varð þetta líka ástfangin af Gerald, enda var ekki allt sem sýndist.

Sálufélagi Geralds

Charlene fæddist 10. október, 1956, í Kaliforníu. Um tólf ára aldur byrjaði hún að nota fíkniefni og þremur árum síðar var hún í sambandi með blökkumanni sem hét Tyrone. Hann kemur þessari sögu ekki við.

Charlene kynntist Gerald síðla árs 1977 og þau fóru að slá sér upp. 

Charlene Gallego
Kom frá fyrirmyndarheimili, en varð ekki til fyrirmyndar.

Hún gerði sér ekki aðeins far um að læra á og umbera kenjar Geralds heldur bætti um betur og samsamaði sig þeim og tók þátt í þeim. Þessar kenjar Geralds og einnig fantasíur leiddu síðar til þess að þau komu sér upp heimullegum stað þar sem „kynlífsþrælum“ var haldið föngnum til að vera til taks þegar Gerald þóknaðist.

Fyrstu fórnarlömbin

Skötuhjúin biðu ekki boðanna og að kvöldi 10. september, 1978, létu þau til skarar skríða. Fyrstu fórnarlömb þeirra voru vinkonurnar Rhonda Scheffler, 17 ára, og Kippi Vaught, 16 ára. Þær voru á leið í verslunarmiðstöð í Sacramento þegar Charlene varð á vegi þeirra. Einhverra hluta vegna samþykktu þær að setjast inn í bifreið hennar. Lík þeirra fundust tveimur dögum síðar í um 25 kílómetra fjarlægð frá Sacramento.

Síðar varð ljóst að Gerald hafði nauðgað vinkonunum alla nóttina og síðan fóru hann og Charlene með þær til Sloughhouse í Sacramento-sýslu. Þar neyddu þau stúlkurnar út í skurð þar sem Gerald lamdi þær báðar í höfuðið með felgujárni. Síðan skaut hann þær í höfuðið, einu skoti hvora. Þegar hann gekk á brott tók hann eftir að Kippi hreyfði sig og skaut hana þremur skotum til viðbótar.

Unglingsstúlkur hverfa

Næstu ódæði sín, sem vitað er um, unnu Gerald og Charlene þann 24. júní 1979. Aftur var um að ræða tvær vinkonur, en mun yngri en þær fyrri. 

Brenda Judd, 14 ára, og Sandra Colley, 13 ára, hurfu af skemmtisvæði í Reno í Nevada.

Allt til ársins 1982 voru þær skráðar sem strokustúlkur, en vitnisburður Charlene þá varpaði ljósi á afdrif þeirra.

Þann 24. apríl, 1980, rændu Gerald og Charlene tveimur stúlkum í Sunrise-verslunarmiðstöðinni í Citrus-hæðum í Reno. Um var að ræða Karen Chipman og Stacey Redigan. Líkamsleifar þeirra fundust 27. júlí og ljóst á verksummerkjum að þeim hafði báðum verið misþyrmt kynferðislega og þær síðan barðar til ólífis.

Barnshafandi kona kviksett

Því fór fjarri að hið miður geðslega par væri búið að fá nóg og 8. júní, 1980, hvarf 21 árs, barnshafandi kona, Linda Aguilar, frá Port Orford í Oregon.

Það var þó ekki fyrr en 20. júní sem ættingjar hennar tilkynntu að Lindu, sem var gengin fjóra mánuði, væri saknað. Tveimur dögum síðar fannst lík hennar í grunnri gröf suður af borginni Gold Beach í Oregon.

Ekki allt sem sýnist
Miskunnarleysi parsins var fullkomið.

Höfuðkúpa Lindu var brotin og hún bundin á höndum og fótum með nælonreipi. Talið var víst að hún hefði verið kviksett því sandur fannst í nefi, munni og hálsi hennar.

Nælonreipi um hálsinn

Virginia Mochel, 34 ára barþjónn, var numin á brott á bílastæði við krá í vesturhluta Sacramento þann 17. júlí 1980. Líkamsleifar Virginiu, sem hafði unnið á umræddri krá, fundust ekki fyrr en í lok október það ár og voru nánast beinin ein. Um hálsinn var nælonreipi og því ályktað að hún hefði verið kyrkt.

Það var kannski óumflýjanlegt að Gerald og Charlene yrðu á mistök, eins og oft verður raunin þegar varkárni víkur fyrir oftrú á eigið ágæti. Sú varð raunin aðfaranótt 2. nóvember 1980 í Sacramento.

Afdrifaríkur löðrungur

Kærustuparið Craig Miller, 22 ára, og Beth Sowers, 21 árs, yfirgaf skóladansleik klukkan hálf tvö um nóttina. Andartaki síðar sá vinur þeirra hvar þau sátu í aftursæti bíls sem lagt var fyrir framan dansstaðinn. Í farþegasætinu frammi í sat náungi, frekar óárennilegur á að líta.

Þessi vinur var við það að renna sér í bílstjórasætið til að spjalla við Craig og Beth þegar Charlene vatt sér að honum og rak honum vænan löðrung.

Settist hún síðan undir stýri og brenndi af stað.

Lögreglan kemst á sporið

Vinur Craigs hafði þó rænu á að leggja bílnúmerið á minnið. Þegar líkið af Craig fannst daginn eftir, skammt frá Bass Lake, hafði hann samband við lögregluna og sagði farir sínar ekki sléttar.

Í ljós kom að bíllinn var skráður á foreldra Charlene. Charlene sór og sárt við lagði að hún hefði enga vitneskju um atburði liðinnar nætur. Hún kynnti sig sem frú Styles, en Gerald hafði stolið skilríkjum af lögreglumanni að nafni Stephen Styles. Skilríkin hafði hann notað til að falsa fæðingarvottorð og ökuskírteini fyrir sjálfan sig.

Gripin glóðvolg

Foreldrar Charlene voru að sjálfsögðu ekki í vandræðum með að þekkja dóttur sína og Gerald út frá lýsingum lögreglunnar og sáu skötuhjúin sinn kost vænstan að leggja á flótta.

Þann 3. nóvember hringdi Charlene heim og fékk foreldra sína til að símsenda peninga. Næst höfðu Gerald og Charlene samband frá Omaha tveimur vikum síðar, og var erindið hið sama og fyrr. Þegar þau mættu á Western Union, 17. nóvember, til að sækja féð biðu þeirra fulltrúar alríkislögreglunnar, FBI, og leiknum var lokið.

Lík Beth fannst ekki fyrr en fimm dögum síðar; hún hafði verið skotin þremur skotum og fleygt í skurð í Placer-sýslu.

Charlene leysir frá skjóðunni

Í eitt og hálft ár þrjóskuðust Gerald og Charlene við og voru þögul sem gröfin. Loks játaði Charlene sig sigraða og um mitt ár 1982 samþykkti hún að bera vitni fyrir ákæruvaldið gegn því að sitja ekki lengur í fangelsi en 16 og hálft ár.

Fjögurra mánaða löngum réttarhöldum yfir Gerald, þar sem réttað var yfir honum vegna morðanna á Craig og Beth, lauk með dauðadómi í apríl 1983.

Síðar var réttað yfir honum vegna tveggja morða að auki og mannráns og fékk hann annan dauðadóm fyrir það.

Enginn gasklefi fyrir Gerald

Fyrir Gerald lá að bíða örlaga sinna á sama stað og faðir hans fyrrum – á dauðadeild San Quentin-fangelsisins.

Miskunnarlaus morðingi
Gerald fetaði í fótspor föður síns og gott betur.

Vegir almættisins eru órannsakanlegir og Gerald endaði ekki ævina í gasklefanum. Þann 18. júlí, 2002, skildi hann við á fangelsissjúkrahúsi eftir að hafa tapað baráttunni gegn ristilkrabba.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Drulluhlaupið sló í gegn – allir brosandi og drulluskítugir

Drulluhlaupið sló í gegn – allir brosandi og drulluskítugir
Matur
Fyrir 9 klukkutímum

Dýrðleg mat­ar­hátíð framundan í Vestmannaeyjum þar sem sjávarfangið verður í forgrunni

Dýrðleg mat­ar­hátíð framundan í Vestmannaeyjum þar sem sjávarfangið verður í forgrunni
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ndombele á leið til Ítalíu

Ndombele á leið til Ítalíu
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Mannsheilanum er ekki ætlað að vera vakandi eftir miðnætti

Mannsheilanum er ekki ætlað að vera vakandi eftir miðnætti
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin: Jesus setti tvö fyrir Arsenal – Haaland komst ekki á blað

Enska úrvalsdeildin: Jesus setti tvö fyrir Arsenal – Haaland komst ekki á blað
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Mál Katrínar var fellt niður þrátt fyrir játningu mannsins – „Ég bauð bara vini mínum að gista, gaur sem ég treysti“

Mál Katrínar var fellt niður þrátt fyrir játningu mannsins – „Ég bauð bara vini mínum að gista, gaur sem ég treysti“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Gat varla talað betur um Messi – ,,Þegar hann brosir þá brosa allir“

Gat varla talað betur um Messi – ,,Þegar hann brosir þá brosa allir“
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Segir Sólveigu hafa stutt Drífu en leiðir hafi skilið með svikabrigslum

Segir Sólveigu hafa stutt Drífu en leiðir hafi skilið með svikabrigslum