

Árásin var gerð í vesturhluta Úkraínu, ekki langt frá landamærum Póllands. Sögðu yfirvöld í Moskvu að um hafi verið að ræða hefnd fyrir meinta drónaárás Úkraínuhers á híbýli Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta undir lok síðasta árs – ásökun sem bæði Úkraínumenn og Bandaríkjamenn segja að sé röng.
Utanríkisráðherra Úkraínu segir að notkun Oreshnik-flaugarinnar svo nærri landamærum ESB og NATO feli í sér „alvarlega ógn“ við öryggi Evrópu og hvatti hann samstarfsríki til að auka þrýsting á rússnesk yfirvöld.
Ekki liggur fyrir hvert skotmark Rússa var en í frétt Guardian kemur fram að óstaðfestar færslur á samfélagsmiðlum hermi að árásin hafi beinst að stórri neðanjarðargeymslu fyrir gas.
Rússar hafa aðeins einu sinni notað Oreshnik-flugskeyti á vígvellinum, en það gerðist síðast í nóvember 2024.
Talið er að flugskeytið sem þá var notað hafi ekki verið búið sprengioddum og benda fyrstu upplýsingar til þess að flaugin sem notuð var í nótt hafi verið eins. Skotið hafi því í raun verið táknrænt og átt að sýna hernaðarmátt Rússa fremur en að valda miklu tjóni.
Pútín hefur ítrekað vísað til Oreshnik-flaugarinnar undanfarna mánuði og hefur hann varað við því að hún gæti verið notuð gegn ríkjum sem afhenda Úkraínumönnum langdrægar eldflaugar sem ná langt inn í Rússland.
Hefur Pútín sagt að ómögulegt sé að granda þessari meðaldrægu stýriflaug vegna hraða hennar og að líkja megi eyðileggingarmætti hennar við kjarnorkuvopn.
Rússneskar hersveitir gerðu einnig árásir í nótt á Kænugarð og lentu sprengjur meðal annars á íbúðabyggingum.