fbpx
Mánudagur 28.júlí 2025
Fréttir

Ósáttur MBA-nemi fór í stríð við HÍ – „Varstu vísvitandi að ljúga því að mér“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 28. júlí 2025 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einstaklingur sem stundaði svokallað MBA-nám við Háskóla Íslands hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til að greiða skólanum vangreidd skólagjöld. Hafði nemandinn haldið eftir hluta þeirrar upphæðar sem honum bar að greiða og vísaði til þess að námið hefði ekki staðið undir þeim væntingum sem gera hafi mátt til þess, í ljósi kynningar skólans á náminu. Var nemandinn einnig verulega ósáttur við framkomu stjórnenda námsins í sinn garð.

Skólinn stefndi nemandaum til greiðslu 805.000 króna auk vaxta en nemandinn stefndi skólanum á móti til greiðslu 493.000 króna auk dráttarvaxta.

Upphæðin sem skólinn krafði nemandann um greiðslu á var vegna tveggja vangoldinna reikninga fyrir skólagjöldum frá 2022.

Nemandinn stundaði námið á árunum 2020-2022. Hann átti að greiða alls 4.475.000 krónur í skólagjöld, með samtals 10 greiðslum yfir allt tímabilið.

Vegna Covid-heimsfaraldursins varð hins vegar verulega röskun á tilhögun námsins. Hætt var við fyrirhugaða námsferð til Yale-háskóla í Bandaríkjunum og námið var fyrst um sinn að mestu kennt í fjarnámi. Til að bæta gráu ofan á svart varð mikill vatnsleki, í upphafi árs 2021, í nokkrum byggingum Háskólans þar á meðal stofu 101 á Háskólatorgi sem hafði verið sérhönnuð fyrir MBA-námið. Kennslan var á endanum flutt í Háskólabíó. Vildi nemandinn meina að þetta hafi falið í sér verulega breyttar forsendur í náminu.

Barcelona

Nemandinn lýsti einnig óánægju með framkomu stjórnenda námsins í sinn garð sem ástæðu fyrir því að neita að greiða hluta skólagjaldanna. Snerist óánægjan ekki síst um ferðatilhögun vegna námsferðar til Barcelona á Spáni vorið 2022.

Tölvupóstsamskiptum vegna ferðarinnar er lýst all ítarlega í dómnum. Sendur var póstur til allra nemanda þar sem óskað var eftir ýmsum upplýsingum, meðal annars um vegabréfsnúmer. Nemandinn svaraði ekki þeim pósti og sendi forstöðumaður námsins honum þá annan póst þar sem því var lýst yfir að litið væri svo á að hann ætlaði sjálfur að skipuleggja ferð sína til Barcelona en minnt var á að skylda væri að fara í ferðina, annars væri ekki hægt að útskrifast.

Nemandinn svaraði seinni póstinum og veitti upplýsingar um vegabréfsnúmer. Var honum þá tjáð að ekki hefði verið bókað sæti fyrir hann í sama flug og hóp nemenda og kennara en hann gæti mögulega farið með öðru flugi sama dag. Það var nemandinn ósáttur við:

„Ég er ekki að fara að fljúga út með öðru flugi en hópurinn.“

Meintar lygar

Áttu frekari samskipti sér síðan stað vegna flugsins en nemandinn taldi sig hafa fengið rangar upplýsingar frá stjórnendum námsins um bókunarstöðu flugsins sem hópurinn ætlaði með og spurði einn þeirra meðal annars:

„Varstu vísvitandi að ljúga því að mér í SMS skilaboðum þann 15. febrúar síðastliðinn að það væri „uppselt“ í útflugið með hópnum til Barcelona.“

Fékk nemandinn þau svör að ekki hafi verið logið að honum, ekki hafi verið uppselt í flug frá Íslandi til Kaupmannahafnar sem hópurinn ætlaði með og fara svo þaðan með tengiflugi til Barcelona en það hafi ekki tekist að fá staðfest sæti í tengiflugið fyrir nemandann. Það hafi svo breyst eftir að annar nemandi hafi ákveðið að fara með öðru flugi til Barcelona.

Hinn ósátti nemandi sætti sig ekki við þessar skýringar. Hann hélt áfram að senda tölvupósta, lagði á endanum fram formlega kvörtun og hélt því staðfastlega fram að logið hafi verið að honum til að spara ferðakostnað fyrir viðskiptafræðideildina.

Taka ber þó fram að sæti var bókað fyrir nemandann með sama flugi til Barcelona og hópur nemenda og kennara fór með og nemandinn fór með í ferðina.

Rektor

Stjórnarformaður MBA-námsins fékk á endanum nóg af samskiptunum og tjáði nemandanum að fleiri spurningum um meintar lygar yrði ekki svarað. Sendi nemandinn þá öll samskiptin til rektors og sagði um óboðlega hegðun gagnvart nemanda að ræða. Tilkynnti nemandinn um leið að hann myndi ekki greiða það sem hann ætti eftir ógreitt af skólagjöldunum.

Samþykkt var á endanum að veita öllum nemendum sem hófu MBA-námið 2020 270.000 króna afslátt af skólagjöldum vegna áðurnefndrar röskunar á tilhögun námsins. Ekki var orðið við því að veita frekari afslátt en nemandinn sætti sig ekki við það og greiddi ekki síðustu tvo reikningana. Honum var hótað því að lokaritgerð hans yrði ekki yfirfarin og hann fengi því ekki að útskrifast með samnemendum sínum. Háskólinn stóð hins vegar ekki við þá hótun og nemandinn útskrifaðist með MBA-gráðu sumarið 2022 en skólinn stefndi í kjölfarið nemandanum vegna hinna ógreiddu skólagjalda.

Matið

Að beiðni nemandans var rekstrarhagfræðingur fenginn til að meta atriði málsins. Sá komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið á fullnægjandi hátt staðið við loforð eða fyrirheit um gæði tengd kennslu
og aðstöðumálum. Sömuleiðis hafi háttsemi stjórnenda í tengslum við deilurnar við nemandann um farmiðakaupin til Barcelona ekki verið í samræmi við góða stjórnunarhætti.

Taldi matsmaðurinn að nemandinn ætti með réttu að fá um 1 og hálfa milljón króna í afslátt. Höfðaði nemandinn í kjölfarið eigið mál á hendur Háskólanum og krafðist 493.000 króna til að bæta við þær 805.000 krónur sem hann neitaði að borga.

Óánægja

Í niðurstöðukafla dómsins er meðal annars greint frá því að fyrrum starfsmenn MBA-námsins hafi borið vitni í málinu. Þeir hafi greint frá því að þegar ný stjórn tók við náminu árið 2021 hafi samskipti stjórnar og starfsmanna gjörbreyst til hins verra. Starfsmennirnir tóku við kvörtunum nemenda vegna aðbúnaðarins í náminu.

Nemendur í náminu sem mættu fyrir dóm tóku undir að það hefði ekki staðið fyllilega undir væntingum og samskipti við stjórnendur, sem hafi tekið illa í fyrirpurnir þeirra, hafi verið slæm.

Héraðsdómur Reykjaness segir í sinni niðurstöðu að áðurnefnd skýrsla matsmannsins, þar sem að verulegu leyti var tekið undir sjónarmið nemandans, sé því marki brennd að þar sé slegið föstum fullyrðingum um matskennd atriði sem ekki heyri undir sérsvið dómkvadds matsmanns að meta. Matið á afslættinum sem hann hafi talið nemandann eiga rétt á séu byggður að hluta á huglægu mati sem geti ekki talist fullnægjandi grundvöllur niðurstöðu. Fullyrðingar matsmannins séu á köflum einhliða og því sé ekki hægt að horfa til matsgerðarinnar.

Frávik

Dómurinn tekur undir það með nemandanum að tilhögun námsins hafi ekki verið í samræmi við kynningu á því og í ljósi hárra skólagjalda hafi verið eðlilegt að búast við því að frávik frá kynningunni yrðu ekki veruleg.

Dómurinn segir þó að kvörtun nemandans yfir því að kennslustofan á Háskólatorgi og námið hafi að töluverðu leyti kennt í fjarnámi falli um sjálfa sig í ljósi framburðar vitna um að nemandinn hafi síður sótt staðnám en aðrir nemendur, þegar það var í boði. Til að mynda hafi sumir kennarar ekki séð hann augliti til auglitis fyrr en í ferðinni til Barcelona sem farin var á fjórðu og síðustu önninni.

Dómurinn segir einnig ljóst að vatnslekinn og Covid-heimsfaraldurinn hafi verið utanaðkomandi atvik sem hafi haft töluverð áhrif á tilhögun námsins og veita verði stjórnendum svigrúm til að bregðast við og breyta áður auglýstum kennsluháttum og staðsetningu. Nemandinn hafi einnig borið sína ábyrgð á erfiðum samskiptum við stjórnendur námsins.

Dómurinn fellst því ekki á að tilefni sé til að veita frekari afslátt af skólagjöldunum en hefði verið veittur öllum nemendum sem hófu MBA-nám 2020. Nemandanum beri því að greiða Háskóla Íslands 805.000 krónur í vangoldin skólagjöld auk dráttarvaxta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fólk eigi alls ekki að ganga á hrauninu – Erfitt að sækja fólk sem lendir í háska

Fólk eigi alls ekki að ganga á hrauninu – Erfitt að sækja fólk sem lendir í háska
Fréttir
Í gær

Ólafur segir áfengisfráhvörf geta verið lífshættuleg – „Hún er komin i deleríum þegar ofskynjanir eða rugl bættist við“

Ólafur segir áfengisfráhvörf geta verið lífshættuleg – „Hún er komin i deleríum þegar ofskynjanir eða rugl bættist við“
Fréttir
Í gær

Trump sagður sjaldan hafa lagst jafn lágt í hefnigirni – Fjandmaður sviptur aðgangi að hundi sem hann borgaði fyrir

Trump sagður sjaldan hafa lagst jafn lágt í hefnigirni – Fjandmaður sviptur aðgangi að hundi sem hann borgaði fyrir
Fréttir
Í gær

Rýnt í grein varaþingmanns um meintan feluleik – Hálfsannleikur, talnaleikir og fullyrðingar sem halda engu vatni

Rýnt í grein varaþingmanns um meintan feluleik – Hálfsannleikur, talnaleikir og fullyrðingar sem halda engu vatni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bíræfnir þjófar stálu nokkur hundruð lítrum af díselolíu – „Lögreglan hefur ekki áhuga á að stoppa svona lið“ – Myndband

Bíræfnir þjófar stálu nokkur hundruð lítrum af díselolíu – „Lögreglan hefur ekki áhuga á að stoppa svona lið“ – Myndband
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hátt verð fyrir hótelgistingu á Suðausturlandi vekur reiði – „Þetta er orðin ógeðsleg menning“

Hátt verð fyrir hótelgistingu á Suðausturlandi vekur reiði – „Þetta er orðin ógeðsleg menning“