Frumvarp til hækkunar á reiknistofni veiðigjalds hefur verið mikið rætt undanfarið og skemmst er að minnast herferðar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi gegn frumvarpinu. Meðal þeirra sem hafa sent Alþingi umsögn um frumvarpið er Félag fornleifafræðinga sem leggur til að hluti af hækkun veiðigjaldsins renni í Forminjasjóð til þess að rannsaka og bjarga strandminjum og bátaarfi Íslendinga.
Félagið leggur til að framlagið verði lágmark 200 milljónir króna. Í umsögn þess segir að til strandminja teljist hvers kyns fornminjar sem tengist oft sjávarútvegi eins og hvalveiðistöðvar, verbúðir, verslunarstaðir, naustir o.fl. En geti líka vegna gríðarlegs landbrots náð inn í gömul heimatún jarða og eyðibýla en þar sé gjarnan flestar fornleifar að finna, eins og útihús, túngarða, bæjarhóla og jafnvel bænahús.
Segir enn fremur í umsögninni að lítið sé vitað um ástand og hættumat íslenskra fornleifa, þar með talið báta og skipa sem og aðrar sjóminjar sem séu þó margar óðum að hverfa vegna mikils landbrots. Minjastofnun Íslands hafi fengið sérstaka fjárveitingu 2016 til þess að meta umfang og ástand strandminja á þremur svæðum. Fornleifastofnun Íslands hafi skráð strandminjar innan þriggja sveitarfélaga á vestanverðu Reykjanesi. Af 857 fornleifum sem voru skráðar hafi um 8 prósent þeirra gjöreyðilagst af völdum landbrots en talan sé líklega hærri og muni fara ört hækkandi á komandi árum og því sé mikilvægt að hafa hraðar hendur.
Félag fornleifafræðinga segir nauðsynlegt að bregðast skjótt við áður en illa fer og Íslands tapar mikilvægum hluta af sinni sögu og menningu. Öflugri grunnrannsóknir á strandminjum fjármagnaðar af Fornminjasjóði leiði til betri gæða þeirra upplýsinga sem hægt sé að kynna almenningi sem geti ýtt undir betri verndun minja og þekkingu fólks á hafi og strönd. Það eigi jafnt við um fornleifarannsóknir og viðhald á bátaarfi Íslendinga. Viðvarandi undirfjármögnun málaflokksins valdi sömuleiðis því að afrakstur þeirra rannsókna sem þó eigi sér stað
skili sér seint, illa eða alls ekki til þeirra sem borgi brúsann – skattgreiðenda.
Félagið segir bersýnilega áhuga til staðar hjá þingmönnum og almenningi á strandminjum og varðveislu báta. Þrátt fyrir þennan mikla áhuga
og velvilja hafi lítið áunnist í málaflokknum. Árið 2021 hafi handverk sem notað sé við gerð súðbyrðinga komist á heimsminjaskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Það sé viðurkenning á gildi þessara minja en beini einnig sjónum að því að málið snúist ekki aðeins um að varðveita minjar fyrir komandi kynslóðir á Íslandi heldur allra heimsbyggðina. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi strandminja og báta fyrir sögu Íslendinga hafi þessir málaflokkar því miður verið í miklum vandræðum undanfarin ár og sé algjörlega vanfjármagnaðir.