fbpx
Laugardagur 18.október 2025
Fréttir

Þroskaþjálfa á Sólheimum sagt fyrirvaralaust upp störfum – „Bara refsing fyrir að tjá sig“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 18. október 2025 15:00

Hallbjörn V. Fríðhólm. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hallbirni V. Fríðhólm, þroskaþjálfa á Sólheimum, var sagt fyrirvaralaust upp starfi sínu síðastliðinn fimmtudag. Hallbjörn, sem hefur starfað á Sólheimum í átta ár, segir að ekki hafi verið gefin upp ástæða fyrir uppsögninni en hann telur hana tilkomna vegna þess að hann hefur gagnrýnt stjórnhætti á Sólheimum, bæði á staðnum og í opinberum skrifum.

Hallbjörn segir í samtali við DV að hann hafi verið boðaður á fund mannauðsstjóra. Þar hafi verið fyrir stjórnarformaður Sólheima, Sigurjón Örn Þórsson, sem hafi tjáð honum að honum væri sagt upp störfum og ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hins vegar var Hallbirni ekki sagt upp húsnæði sínu á Sólheimum en hann býr þar með eiginkonu og börnum sem sækja skóla á staðnum og konan er í starfi á Borg.

„Ég spurði út í ástæðu fyrir uppsögninni en var tjáð að ég hefði rétt til þess að óska eftir útskýringum formlega og hefði til þess fjóra daga,“ segir Hallbjörn. Getur hann óskað eftir fundi og mætt á hann með trúnaðarmanni eða öðrum aðila og fengið þar útskýringar á uppsögninni.

Hallbjörn finnur sig í snúinni stöðu, þar sem hann og eiginkona hans vilji komast sem fyrst í burtu en aðstæður bindi þau til að vera áfram í einhvern tíma á Sólheimum.

Hallbjörn segir ennfremur: „Ég fékk ekki tækifæri til að skila af mér verkefnum. Ég hef ekki náð að tilkynna þjónustunotendum í viðkvæmri stöðu, sem treysta á einstaklingsfundi og minn stuðning, að þetta félli niður.“

Segir hann að brotthvarf sitt hafi slæm áhrif á viðkvæmt samfélag Sólheima: „Þetta er mjög þungt fyrir samfélagið. Ég á sterkt samband við marga hérna.“

Sigurjón Örn Pálsson, stjórnarformaður Sólheima, segir hins vegar í svari við fyrirspurn DV um málið að starfsemin sé mjög viðkvæm fyrir opinberri umfjöllun. (Sjá nánar neðst í fréttinni.)

Ágreiningur um rekstraráherslur

Mikil umræða var um starfsemina upp úr miðjum september, aðallega á Vísir.is, í kjölfar skoðanagreinar Ingibjargar Rósu Björnsdóttur sem einnig hafði verið sagt upp störfum á Sólheimum.

Ágreiningur á milli stjórnar og hluta af starfsfólki snýst um áherslur í rekstri. Framkvæmdastjóra var sagt upp í byrjun árs, staðan lögð niður og fyrrverandi framkvæmdastjóri endurráðinn í hlutastarf. Að sögn stjórnar var ráðist í nauðsynlega tiltekt í rekstrinum en að mati óánægðra starfsmanna er minnkandi áhersla á þjónustu við fatlaða íbúa svæðisins og aukin áhersla á ferðaþjónustu- og veitingahluta starfseminnar.

Hallbjörn benti á í skoðanagrein á Vísi þann 23. september að þessi grundvallarágreiningur um áherslur í rekstrinum hafi verið til staðar í áratugi og endurspeglast í fjölmörgum fréttum fjölmiðla í gegnum tíðina. Birti hann fjölmargar blaðafyrirsagnir og úrklippur um átök og ósætti milli starfsfólks og stjórnar Sólheima alveg frá því fulltrúaráð Sólheima var stofnað, og skrifaði:

„Ítrekað hefur komið upp sama sagan. Starfsfólk lýsir óánægju með ákvarðanir sem teknar eru að ofan, án samráðs, án þess að leita álits og án þess að hugað sé að líðan íbúa eða starfsmanna. Uppsagnir stjórnenda og starfsmanna hafa reglulega vakið óróa, og gagnrýni hefur snúist bæði að því hvernig þjónusta er skipulögð og hvernig fjármunum er varið. Endurtekið er talað um ofríki, skort á virðingu og að stjórnendur séu fjarlægir.

Afleiðingin er alltaf sú sama: mikil starfsmannavelta, tortryggni í garð yfirstjórnar og upplifun fólks af því að tengsl við samfélagið sjálft, íbúa og starfsfólk, séu brostin eða ekki til staðar. Þrátt fyrir tilraunir til umbóta virðist þessi menning föst í sama farinu eins og rispuð plata í lokatóninum á hlið A, sem enginn fær snúið við. Fólkið í samfélaginu bíður eftir að heyra hina hliðina, en armur skipulagsins er of þrjóskur til að lyfta nálinni.“

Forstöðumenn lýstu yfir stuðningi við stjórn

Sigurjón Örn Þórsson, stjórnarformaður Sólheima, birti í 22. september pistil á Vísi sem andsvar við áðurnefndri grein Ingibjargar Rósu og sagði umræða um málefni Sólheima hafa verið óvægna og hallað hefði verið réttu máli. Segir hann hafa verið dregna upp mynd sem sé á skjön við þann veruleika sem blasi við flestum á Sólheimum, þar sem starfsfólk vinni frábært starf.

Varðandi breytingar á stöðu framkvæmdastjóra þá sagði hann það hafa verið óhjákvæmilegt að endurskipuleggja og straumlínulaga reksturinn:

„Af þessu tilefni vil ég fyrir hönd stjórnar Sólheima árétta eindreginn stuðning okkar við öll þau skref sem framkvæmdastjórinn, Kristín Björg Albertsdóttir, hefur ýmist lagt til eða verið hvött til þess að stíga frá því hún var fengin til starfa í byrjun ársins. Þau hafa að okkar mati verið bæði framsækin og farsæl. Óhjákvæmilegt var að straumlínulaga reksturinn og endurskipuleggja með það að leiðarljósi að skerpa áherslur og efla enn frekar stuðning við þjónustunotendur Sólheima. Um leið yrðu undirstöður starfseminnar til lengri framtíðar styrktar.“

Nokkrum dögum áður birtu fimm af sjö forstöðumönnum Sólheima yfirlýsingu þar sem lýst var yfir stuðningi við stjórn, stjórnarformann og framkvæmdastjóra Sólheima. Þar segir meðal annars:

„Í ársbyrjun lá fyrir að rekstur Sólheima ses stæðist ekki þau markmið sem sett höfðu verið. Sérstaklega vó þungt að framlög frá Bergrisanum höfðu dregist verulega saman á milli ára. Á sama tíma jókst launakostnaður og stöðugildum fjölgaði, meðal annars vegna styttingar vinnuvikunnar og aukinnar þjónustuþarfar.

Í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu tók stjórn Sólheima þá ákvörðun að ráða Kristínu Albertsdóttur á ný sem framkvæmdastjóra Sólheima. Kristín hafði áður gegnt starfi framkvæmdastjóra með góðum árangri og sinnt þá meðal annars því krefjandi verkefni að rétta af rekstur Sólheima ses.

Samskipti okkar við Kristínu Albertsdóttur framkvæmdastjóra og Sigurjón Þórisson stjórnarformann hafa verið fagleg, jákvæð og uppbyggileg.“

Sigurjón svaraði fyrirspurn DV

DV sendi fyrirspurn um uppsögn Hallbjörns til framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Sólheima. Sigurjón Örn Þórsson stjórnarformaður varð fyrir svörum. Segir hann að stjórn Sólheima vilji lágmarka eins og kostur er opinbera umræðu um málefni staðarins þar sem heimilisfólki á Sólheimum sé veitt mjög persónuleg þjónustu og markmiðið sé að þjónustuþegar upplifi sig örugga:

„Við getum að sjálfsögðu ekki upplýst um einstök starfsmannamál. Að auki er vakin athygli á því að Sólheimar veita heimilisfólki sínu mjög persónulega stuðningsþjónustu og þeirra vegna viljum við lágmarka eins og kostur er opinbera umræðu um starfsmannamál eða aðrar áskoranir rekstursins. Markmiðið er alltaf það eitt að þjónustuþegar upplifi sig örugga í því umhverfi sem Sólheimar hafa búið þeim.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg selur stórt hús í miðborginni en böggull fylgir skammrifi

Reykjavíkurborg selur stórt hús í miðborginni en böggull fylgir skammrifi
Fréttir
Í gær

Starfsmaður RÚV sagður í leyfi eftir ásakanir frá þremur samstarfskonum

Starfsmaður RÚV sagður í leyfi eftir ásakanir frá þremur samstarfskonum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kappakstursmaður grunaður um að nauðga hjúkrunarkonu Michael Schumacher á heimili heimsmeistarans lamaða

Kappakstursmaður grunaður um að nauðga hjúkrunarkonu Michael Schumacher á heimili heimsmeistarans lamaða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Barnsmóðir Quang Le úrskurðuð í farbann fram á næsta ár – Segja líkur á að hún reyni að komast úr landi eða leynast

Barnsmóðir Quang Le úrskurðuð í farbann fram á næsta ár – Segja líkur á að hún reyni að komast úr landi eða leynast