Fótboltaleikur nemenda Menntaskólans í Reykjavík og Verzlunarskóla Íslands, sem haldinn var á Leiknisvellinum í Breiðholti, fór úr böndunum. Mikil drykkja var, meðal annars á leikmönnum liðanna, og ólæti. Áfengi var gert upptækt.
Eins og fram kemur í tölvupósti Sólveigar G. Hannesdóttur, rektors MR, þá hafa skólayfirvöld áhyggjur af aukinni drykkju ungmenna.
MR og VÍ etja kappi í ýmsum greinum þessa dagana eins og venja er. Meðal annars verður ræðukeppni haldin í húsnæði VÍ á morgun, föstudag.
„Í gærkvöldi var haldinn fótboltaleikur á Leiknisvelli. Þar var mikil drykkja og ólæti. Skólarnir sendu starfsfólk á leikinn. Þau lögðu hald á mikið magn áfengis. Við viljum ekki að þetta endurtaki sig,“ segir í pósti rektors til foreldra og forráðamanna. Kemur fram að skólastjóri VÍ muni senda sams konar póst til aðstandendur sinna nemenda.
„Við höfum áhyggjur af aukinni drykkju ungmenna,“ segir í póstinum. „‚Bjórkvöld‘ eða aðrar slíkar samkomur eru skipulagðar af nemendahópum og oft á tíðum er staðsetning þeirra ekki auglýst fyrr en rétt áður en þau eru haldin. Við tilkynnum slíkar skemmtanir, þar sem áfengi er haft um hönd, undantekningarlaust til lögreglu.“
Minnt er á að nemendurnir séu börn til 18 ára aldurs og ekkert þeirra megi kaupa áfengi fyrir tvítugt. Foreldrar geti haft afgerandi og mikilvægt hlutverk í forvörnum. „Sýnum gott fordæmi og samstöðu,“ skrifar rektor.