Heiftúðugleg deila um flutning búslóðar endaði fyrir dómstólum. Nýskilin og auralítil kona taldi sig hafa fengið greiða hjá flutningamanni sem hún þekkti en annað kom á daginn þegar sambýliskona hans, bókari fyrirtækisins, komst í málið.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 1. október síðastliðinn en atvikið átti sér stað þann 8. júní árið 2024.
Á þessum tíma var konan ný hætt með maka sínum og þurfti að flytja búslóð á nýtt heimili. Hún hafði kynnst flutningamanninum, sem sinnti þjónustu fyrir fyrirtækið sem hún vann hjá. Ekki ber þeim þó saman um atvik málsins.
Konan segir að hún hafi verið að leita að aðstoð við flutninga en hafi sagt honum að hún ætti ekki mikla peninga og gæti erfiðlega greitt fullt verð fyrir. Vel hafi farið á með þeim og hún tekið boði hans um flutning svo að um persónulegan vinagreiða væri að ræða.
Hún hafi boðist til að greiða 40 þúsund krónur en hann talið það óþarft. Það hafi svo komið henni á óvart um mánuði seinna þegar hún fékk reikning upp á rúmlega 96 þúsund krónur.
Daginn eftir að reikningurinn barst hafi hún talað við flutningamanninn. Hann hafi þá orðið „vandræðalegur“ og sagt henni að hann hefði ekki fengið samþykki frá sambúðarkonu sinni, sem væri bókari fyrirtækisins. Þá hafi hann lofað að reikningurinn yrði lagfærður og að hún fengi 60 prósent afslátt. Sem sagt myndi greiða honum 40 þúsund krónur.
Flutningsmaðurinn sagði hins vegar allt aðra sögu. Það er að konan hafi óskað eftir þjónustu hans en svo ekki greitt fullt verð fyrir.
Í dóminum kemur fram að meðal gagna málsins sé skjáskot af skilaboðum konunnar og flutningsmannsins dagana áður en búslóðin var flutt. Hafi flutningsmaðurinn sent henni „hreyfimynd af fólki í rúmi“ þann 5. júní.
Spurði hann hvert hann ætti að koma og hún lýsti heimilisfanginu og að vinkona hennar myndi hjálpa líka. Þakkaði hún honum innilega fyrir hjálpina og hann svaraði „Minnsta málið.“
Næstu skilaboð sem voru lögð fyrir dóminn voru send þann 11. júlí árið 2024, tveimur dögum eftir að reikningurinn barst.
„Ég er rotinn lygari,“ sendi flutningsmaðurinn á konuna. Til baka hafi hún spurt hvers vegna reikningurinn hafi ekki verið sundurliðaður. Þau yrðu að senda slíkan reikning strax eða eyða reikningnum út úr heimabanka hennar. Einnig óskaði hún eftir nýjum reikningi með 60 prósent afslætti eins og þau hefðu talað um.
Var nú farið að færast hiti í leikinn. Flutningsmaðurinn svaraði konunni með eftirfarandi skilaboðum:
„Heyrðu vinan róaðu þig og nei krafan fer ekki út hún sendir nótuna á eftir. Og ég mismælti mig þegar ég sagði 60% afsláttur það er 20% afsláttur á þessu þetta voru rúmir 5 tímar ekki hélstu að þú fengir flutninginn gefins?“
Greindi hann frá því að startgjaldið væri 23 þúsund krónur og hver klukkustund eftir það kostaði 14 þúsund.
Þá sendi konan bókaranum, sambýliskonu flutningsmannsins, skilaboð degi seinna og greindi frá því að hann hefði lofað henni 60 prósent afslætti. Einnig gerði hún athugasemdir við reikninginn og hvernig flokkunin á honum væri.
Brást bókarinn illa við þessu og svaraði:
„hætt[a] nú þessu bullu og borga[…] fyrir þá þjónustu sem þú notaðir“. Einnig að hún hafi ekki heyrt af því að maður hennar hefði lofað henni 60 prósent afslætti. Hún hefði sjálf verið að íhuga að gefa afslátt en hegðun konunnar girti fyrir það.
Frekari samskipti áttu sér stað á milli kvennanna þar sem þær deildu um reikninginn og hverju flutningsmaðurinn hefði lofað. Taldi konan sig hafa fengið greiða frá manninum sjálfum en ekki verið að versla við fyrirtækið þeirra.
Degi eftir það, það er þann 13. júlí, sendi flutningsmaðurinn konunni harkaleg skilaboð.
„Ég hefði aldrei trúað því að þú værir svona óheiðarleg […], þú varst alveg viðþolslaus að flytja út frá honum, og ég í góðmennsku minni vorkenndi þér og bauð þér að fá að borga seinna því þú værir blönk eitthvað sem við gerum aldrei,“ sagði hann og ítrekaði að öll verk færu í gegnum fyrirtækið. Sambýliskona hans hafi verið búin að ákveða að gefa henni afslátt en þá sé hún með „endalausa stæla“ sem geri það að verkum að afláttur sé úr sögunni. „ég bara veit ekki hvað er að hjá þér,“ sendi hann.
Héldu skilaboðasendingar áfram næstu daga. Meðal annars sendi hann:
„Drullastu til að borga ég hefði aldrei átt að treysta þér þú getur prófað að hringja í C [sambýliskonu hans] hún er kannski tilbúinn að gefa þér meiri afslátt ef þú sýnir að þú sért heiðarleg og borgar, ég hef aldrei vitað annað eins ef ég hefði eins og þú heldur fram ætlað að gefa þér 60% afslátt þá segir það sig sjálft að ég var að þessu í gegnum fyrirtækið af hverju hefði ég annars sagst ætla að gefa þér afslátt? Og ég sagði aldrei 60% ég gef ekki einu sinni bróður mínum svona mikinn afslátt!! Hvernig geturðu verið svona ómerkileg og svikul? Væri gaman að vita hvað aðrir segja ef þetta fréttist um þig! Svo þú skal borga kröfuna á mrg takk.“
Var ekki sendur annar reikningur en konan fékk senda innheimtuviðvörun og innheimtubréf síðar um sumarið og haustið.
Taldi dómari ósannað að flutningsmaðurinn hefði lofað konunni þjónustuna óendurgjaldslaust. Miðað við gögn málsins og auglýsingar flutningsmannsins þyki hæfilegt gjald fyrir þjónustuna 40 þúsund krónur.
Þá var konan einnig talin vera trúverðugri en flutningsmaðurinn um þann tíma sem flutningarnir tóku.
Einnig var tekið undir það með konunni að flutningsfyrirtækið hafi vanrækt þá skyldu að gefa út sundurliðaðan og skýran reikning.
Samkvæmt dómsorði var konunni því gert að greiða flutningsfyrirtækinu 40 þúsund krónur fyrir þjónustuna en fyrirtækinu gert að greiða henni 380 þúsund krónur í málskostnað.