Þotur voru sendar frá Íslandi til að leita að rússneskum kafbát sem talinn er hafa ógnað bandarísku flugmóðurskipi. NATO hefur tilkynnt að þetta sé ekki æfing. Leit hefur staðið yfir síðan á sunnudag.
Breska blaðið The Daily Mail greinir frá þessu. Bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford, það stærsta í heiminum, var við æfingar við strendur Noregs þegar upp komst um kafbátinn. Gerald R. Ford er engin smásmíði og um 1800 milljarða króna virði.
Vegna þessa hafa ríki NATO sent tugi flugvéla til að leita að kafbátnum. Meðal annars hafa Bandaríkjamenn sent þotur frá Keflavíkurflugvelli, Bretar frá Lossiemouth í Skotlandi og Norðmenn frá Narvik. Meira að segja hafa vélar verið ræstar frá Sikiley til þess að taka þátt í leitinni.
Kemur fram að hinar bresku vélar, sem eru átta talsins, séu útbúnar með háþróuðum búnaði til að leita að kafbátum, tundurskeytum, eldflaugum og sónarbaujum. Búnaðurinn nemur hreyfingar á miklu dýpi.
Leitað hefur verið á stóru svæði, einkum vestan við Lófóten eyjaklasann í norðurhluta Noregs. Kemur fram að leitin hafi hafist um klukkan 19:00 á sunnudagskvöld og hafi staðið yfir í að minnsta kosti 48 klukkutíma. Flugvélarnar slökktu á staðsetningarbúnaði sínum til þess að gefa ekki upp staðsetningu sína.
Þá hafa skip einnig tekið þátt í leitinni, meðal annars breska freigátan HMS Somerset sem er sérútbúin fyrir leit að kafbátum. Önnur skip á vegum NATO ríkja hafa einnig verið send á staðinn.
Breska varnarmálaráðuneytið segir að aðgerðin sé enn þá í gangi en ekki hefur verið gefið upp hvað sé verið að gera eða hvernig leitin gangi.
„Af öryggisástæðum munum við ekki tjá okkur um smáatriði aðgerðarinnar,“ segir í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu.
Að sögn Ryan Ramsay, fyrrverandi kafbátaflotaforingja breska hersins, snýst aðgerðin ekki síst um að sýna Rússum styrk NATO.
„NATO er að sýna að bandalagið er við stjórnvölinn,“ sagði Ramsay. „Annað hvort er þegar búið að finna kafbátinn, eða kafbátana, og þeir eru með hann fastan eða að þeir eru enn þá að leita og þurfa að ná honum.“
Annar fyrrverandi flotaforingi, Tom Sharpe, að nafni tjáði sig einnig um aðgerðina. „Það lítur út fyrir að þeir séu búnir að finna rússneskan kafbát og séu að hamra hann. Það er verið að segja Rússlandi: Við sjáum ykkur.“