fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Fréttir

Rýnt í grein varaþingmanns um meintan feluleik – Hálfsannleikur, talnaleikir og fullyrðingar sem halda engu vatni

Ritstjórn DV
Laugardaginn 26. júlí 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Varaþingmaður Miðflokksins sakar ríkisstjórnina um feluleik í málefnum hælisleitenda í grein sem birtist hjá Vísi í gær. Af grein Lárusar Guðmundssonar mætti ráða að fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um fækkun umsókna um dvalarleyfi eigi ekki við rök að styðjast og eins streymi hingað inn aðilar, sem Lárus lætur að því liggja að tilheyri sama hóp og umsækjendur um alþjóðlega vernd, á grundvelli fjölskyldusameiningar. Um sé að ræða bakdyr á landamærum Íslands sem þúsundir streymi í gegnum á ári hverju með tilheyrandi álagi á velferðarkerfið og ríkissjóð.

1 Áætlaður fjöldi umsókna á árinu 2025

Lárus vísar réttilega til þess að 629 umsóknir hafi borist á árinu um alþjóðlega vernd. Hann áætlar þó að í heildina verði umsóknir á bilinu 1400-1500 þegar árið er á enda. Fyrir þessu færir hann engin rök og er í raun að áætla að fleiri muni sækja um vernd seinni hluta árs en sóttu um fyrri hluta þess.

Útlendingastofnun birtir mánaðarlega tölfræði frá verndarsviði. Í lok júní höfðu borist í heildina 629 umsóknir sem er marktæk fækkun frá síðasta ári. Eins má þar skýrt sjá að árið 2024 bárust færri umsóknir seinni hluta árs en fyrri hluta. Því er ekki ljóst á hverju varaþingmaðurinn byggir áætlaða tölu sína um heildarumsóknir.

2 Umsókn jafngildir ekki samþykki

Varaþingmaðurinn sleppir því að nefna að umsóknir um vernd eru ekki sjálfkrafa samþykktar. Í raun eru fæstar þeirra samþykktar. Af þeim umsóknum sem hafa verið afgreiddar á þessu ári fengu 309 vernd á grundvelli fjöldaflótta, 203 umsóknir voru teknar til efnismeðferðar en aðeins 87 voru samþykktar og 116 var synjað.

3 Fjölskyldusameining

Lárus skrifar:

„Ríkisstjórnin þegir síðan þunnu hljóði yfir því að bakdyramegin í nafni fjölskyldusameininga hafa komið samkvæmt staðfestum tölum hér að neðan frá Útlendingastofnun.“

Hann rekur að síðustu ár hafi eftirfarandi margir fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar:

  • 2025: 789
  • 2024: 1.493
  • 2023: 1.470

Þetta kallar hann hreina viðbót við hefðbundnar umsóknir um alþjóðlega vernd, en hann lætur hjá liggja að nefna að það eru ekki aðeins aðstandendur þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Þetta á nefnilega einnig við um aðstandendur atvinnuleyfishafa, aðstandendur EES og EFTA-borgara, aðstandendur handhafa ótímabundinna dvalarleyfa í vissum tilvikum, aðstandendur námsmanna, aðstandendur mannúðarleyfishafa, aðstandendur annarra dvalarleyfishafa og svo aðstandendur Íslendinga.

Þáverandi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, birti sundurliðun á síðasta ári, í svari sínu við fyrirspurn flokksystur sinnar Diljár Mistar Einarsdóttur, sem sýnir vel hvernig þessi leyfi eru veitt.

Árið 2023 fengu 1.762 einstaklingar dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þar af voru:

  • Aðstandendur Íslendinga – 491
  • Aðstandendur annarra dvalarleyfishafa – 28
  • Aðstandendur námsmanna – 50
  • Aðstandendur mannúðarleyfishafa – 9
  • Aðstandendur handhafa ótímabundinna leyfa – 118
  • Aðstandendur flóttamanna – 384
  • Aðstandendur EES/EFTA-borgara – 217
  • Aðstandendur atvinnuleyfishafa – 465

Eins og þarna sést þá fengu flestir slík dvalarleyfi því þeir voru aðstandendur annaðhvort atvinnuleyfishafa eða Íslendinga.

 4 Fjöldi eldri borgara

Lárus áætlar að af þeim sem fá dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar sé fjórðungur (25%) 65 ára eða eldri. Fyrir þessu færir hann engin rök önnur en að vísa til þess að slík leyfi eru veitt til kjarnafjölskyldunnar, þ.e. til maka, barna yngri en 18 ára og til foreldra sem eru eldri en 67 ára.

Í áðurnefndu svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur til Diljá Mistar Einarsdóttur má eins finna sundurliðun eftir tengslum aðstandanda. Árið 2023 fengu 90 foreldrar dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, eða rétt rúm 5 prósent. Þar af voru 47 aðstandendur Íslendinga og aðeins 27 voru foreldrar flóttamanna eða mannúðarleyfishafa.

952 fengu dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar því þeir voru makar, 676 voru börn undir 18 ára, 7 voru fullorðin börn, 14 systkini og aðrir voru 23.

5 Fylgdarlaus börn

Lárus nefnir einnig að hingað komi fylgdarlaus börn sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu umfram það sem öðrum stendur til boða hvað það varðar að þau eiga rétt til sameiningar við systkin sem eru yngri en 18 ára og foreldra á öllum aldri.

Hvað fjölda slíkra umsókna varðar má horfa til svars þáverandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, þáverandi varaþingmanns Pírata, frá árinu 2023.

Árið 2022 sóttu 49 um alþjóðlega vernd á grundvelli þess að þeir væru fylgdarlaus börn. Af þeim töldust aðeins 24 raunverulega vera fylgdarlaus. Af þeim fengu 17 vernd. Á árunum 2014-2022 fengu 19 fylgdarlaus börn aðstandendur til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Hvað þýðir þetta?

Lárus fullyrðir í grein sinni að hér séu að streyma inn hælisleitendur með fjölskyldur sínar í þúsundavís á ári hverju. Eins gefur hann lítið fyrir fullyrðingar um að umsóknum hafi fækkað. Hann sleppir því þó að rekja að fæstir þeir sem sækja um vernd fá umsóknir sínar samþykktar og að fjölskyldusameining er í flestum tilvikum veitt til einstaklinga sem eru hér að vinna eða til einstaklinga sem eru skyldir eða giftir Íslendingum.

Einu borðliggjandi tölurnar eru þær að 308 hafa fengið hér vernd á grundvelli fjöldaflótta, sem á fyrst og fremst við flóttamenn frá Úkraínu, og 87 hafa hlotið alþjóðlega vernd það sem af er ári. Miðað við þær umsóknir sem bárust á síðasta ári má ætla að færri umsóknir berist seinni hluta árs en þann fyrri. Eins hefur verið rakið að fjölskyldusameining er ekki hugtak sem á bara við um hælisleitendur og má sem dæmi nefna að hér fengu árið 2023 rúmlega 200 einstaklingar frá Bandaríkjunum og Bretlandi dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Eins fullyrðir varaþingmaðurinn án þess að færa fyrir því nokkur rök að fjórðungur þeirra sem fá dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar sé að fara að verða byrði á velferðarkerfinu sökum aldurs en þegar rýnt er í tölurnar eru þetta aðeins fáeinir einstaklingar á ári, og þar af er fjölmennasti hópurinn foreldrar Íslendinga.

Því er erfitt að taka undir með Lárusi þegar hann skrifar að hingað „streymi fólk í þúsunda tali á ári hverju og leggist á þegar útþanin velferðarkerfin og þiggi hér framfærslu á kostnað ríkis og almennings.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögreglan lýsir eftir tveimur mönnum

Lögreglan lýsir eftir tveimur mönnum
Fréttir
Í gær

Dóra og Einar tókust hart á – „Það þurfti að sprengja meirihlutann til að gera það“

Dóra og Einar tókust hart á – „Það þurfti að sprengja meirihlutann til að gera það“
Fréttir
Í gær

Frakkar hyggjast viðurkenna Palestínu sem ríki – Ísraelar og Bandaríkjamenn fordæma ákvörðunina

Frakkar hyggjast viðurkenna Palestínu sem ríki – Ísraelar og Bandaríkjamenn fordæma ákvörðunina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brynja Dan birtir myndir af meintum þjófum – „Þeir einu sem geta kært mig fyrir þetta eru þeir sjálfir“

Brynja Dan birtir myndir af meintum þjófum – „Þeir einu sem geta kært mig fyrir þetta eru þeir sjálfir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælendur ósammála um árásina á Eyþór – „Gjörningur“ – „Mjög eigingjörn aðgerð“

Mótmælendur ósammála um árásina á Eyþór – „Gjörningur“ – „Mjög eigingjörn aðgerð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fleiri jákvæðir en neikvæðir í garð Borgarlínunnar

Fleiri jákvæðir en neikvæðir í garð Borgarlínunnar