fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Fréttir

Segir að þurfi breytt viðhorf í málefnum fanga – „Við erum til dæmis með lögreglustjóra á Suðurnesjunum sem býr til endalaus mál á fólk“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 23. maí 2025 18:30

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga og annarra um bætt fangelsismál og betrun, hefur sjálfur afplánað tvisvar sinnum í fangelsi. Hann segir þá reynslu hafa mótað stefnu sína í lífinu. Hann ræðir mál erlendra fanga, gæsluvarðhaldsfanga, geðheilbrigðisþjónustu og margt fleira í viðtali við Kiddu Svarfdal í Fullorðins.

„Við erum að tala um hóp sem er með fjölþættan vanda. Og fangelsi sem eru sem sagt full af fólki sem, það getur verið þroskaskert, getur verið með ADHD, það getur verið með framheilaskaða, það er með vímuefnaraskanir, geðfatlanir, alls konar hlutir sem þarf að vinna að og hafa ekki fengið og vinna úr öllum áföllunum. Upp til hópa er fólk með mikinn félagslegan vanda í fangelsunum. Og það skiptir svo miklu máli fyrir okkur að endurhæfa þennan hóp. Með því þá fáum við endurhæft fólk út í samfélagið. Fjölskyldurnar fá sitt fólk til baka og börnin fá foreldra sína til baka og fólk fer að vinna, fólk fer að borga skatta, fólk hættir á örorku og styrkjum. Þannig að þetta sparar pening hjá lögreglu og dómstólum, fangelsiskerfinu, heilbrigðiskerfinu og almannatryggingum alls staðar og þetta er alveg win-win dæmi.“

Guðmundur Ingi segir að það komi honum alltaf á óvart að það sé ekki verið að setja meiri peninga í endurhæfingu fanga.

„Þetta fækkar líka glæpum og fækkar endurkomu í fangelsi og það sem er númer eitt, tvö og þrjú í þessu er að þetta fækkar brotaþolendum. Það ættum við alltaf að hugsa um fyrst og fremst. Ég veit alveg að hérna að í okkar samfélagi er mikil krafa um að vera með þolendavænt réttarkerfi og þolendavænt allt saman, og ég er alveg hlynntur því og skil allt varðandi það. En við megum ekki gleyma því að við þurfum að fókusa á þennan hóp af því annars fjölgar brotaþolendum.“

Aðspurður um gerendur af erlendum uppruna sem brjóta af sér hérlendis og hvort þeir eigi að afplána hérlendis eða ekki segir Guðmundur Ingi.

„Þegar menn brjóta af sér þá þurfa þeir náttúrlega að afplána sinn dóm. Mér finnst ekki að það eigi að þú brýtur af þér og þú ert bara sendur úr landi og mátt ekki koma aftur. Mér finnst það ekki hægt. Mér finnst heldur ekki hægt að íslenska ríkið eigi að leigja eitthvað fangelsi úti í heimi til að senda brotamenn, af því að það er ótrúlega dýrt og við getum ekki fylgst með mannréttindum og öðru slíku þar. Mér finnst að íslenska ríkið eigi að gera beina samninga við svona helstu ríkin sem að þessir sem brjóta af sér hér koma frá. Þannig að menn geti fengið dómana sína hér og svo eru þeir bara sendir til síns heima. Afplána þar eftir þeirra reglum og í flestum tilfellum afplána lengur heldur en hér. Það finnst mér vera lausnin. Það er ódýrara. Það er besta niðurstaðan fyrir okkur.“

Guðmundur Ingi segir að með þessum hætti getum við sinnt betur hópi íslenskra fanga. Það sé einnig mannúðlegra að menn afpláni í sínu heimalandi hjá sinni fjölskyldu og þó þeir átti sig ekki á því strax að þá er það fjölskylda þeirra sem skiptir máli líka.

Kerfi sem er erfitt að breyta

Hann segir að hérlendis sé kerfi til staðar sem erfitt sé að breyta.

„Við erum með full fangelsi af burðardýrum sem eru yfirleitt konur, oft fórnarlömb mansals. Þetta eru allt konur sem munu fá dóma meira eða minna sem eru undir tveimur árum. Og þar af leiðandi gætu þær tekið þetta út í samfélagsþjónustu. Þannig að við gætum alveg breytt kerfinu þannig að þær fengju dóm kannski bara innan viku af því að við vitum náttúrulega hvað þær fá í dóm hvort sem er miðað við magnið. Þær fá bara dóm strax, fari svo bara beint á áfangaheimili og sinni samfélagsþjónustu og fari svo bara heim. Það er ódýrasti kosturinn.“

Guðmundur Ingi segir ekki nóg að dómsmálaráðuneytið eða fangelsin vilji breyta kerfinu. Það þurfi einnig að breyta viðhorfi lögregluembætta.

„Við erum til dæmis með lögreglustjóra á Suðurnesjunum sem býr til endalaus mál á fólk. Það er ekki nóg að hann taki á því fyrir smygl, hann býr til önnur mál, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi og eitthvað svona. Og svo á endanum þá fá flestir bara dóm fyrir smyglið en hitt er sýknað eða ekkert fyrir það. Þannig að það er verið að búa til svo mikið vesen. Og þetta kostar svo mikið. Þetta er bara eitthvað sem þarf að breyta. Ef þetta væru Íslendingar þá væru þeir ekki í fangelsi. Þá væru þau bara úti og myndu taka út samfélagsþjónustu og við eigum ekki að mismuna fólki svona. Við eigum að láta þau bara í samfélagsþjónustu alveg eins og Íslendingana. Og þá erum við búin að losa bara fjörutíu pláss í fangelsunum, nú þegar. Og þá er hægt að vinna á biðlistum og annað slíkt.“

Guðmundur Ingi segir um 700 manns á biðlista eftir afplánun. Segir hann suma bíða í mörg ár, en hann telji meirihlutann geta tekið afplánun sína út í samfélagsþjónustu.

„Ástæðan fyrir því, eins og öll þessi burðardýr sem ég var að minnast á, þetta er sjötíu og fimm prósent af þeim sem eru í gæsluvarðhaldi. Það eru þessi burðardýr sem eiga ekkert að þurfa að vera í fangelsum. En það er ástæðan fyrir því að prósentan er svona há, af því að ef þetta voru Íslendingar þá voru þeir bara lausir. En heildarfjöldi útlendinga í fangelsum er um fjörutíu prósent, gæsluvarðhaldið og allt. Eins og ég segi, þegar við erum búin að gera beina framsalssamninga og laga þetta, þá erum við ekkert með lengur eitthvað vandamál.“

Margir ósakhæfir afpláni í fangelsum

Guðmundur Ingi segir marga í fangelsi sem í raun séu ekki sakhæfir, eitthvað sem allir sjái, en viðmiðin séu þröng og dómarar hafi sjaldnast val.

„Síðan höfum við verið að glíma við það að menn eru að meta menn hvort þeir séu sýknaðir eða sakfelldir. Vitandi það ef að hann segir að hann sé ósakhæfur, þá þarf sá aðili að taka hann til á sína stofnun. Hann segir bara: Heyrðu, þessi er bara of erfiður. Ég hef ekki pening til þjónustunnar. Ég þarf að ráða auka starfsfólk og ég þarf nýtt húsnæði, þannig að ég get það ekki eða ég ætla bara að segja hann er sakhæfur. Og þetta er bara staðreynd. Þetta er ekkert nýtt eða feluleikur og þeir jafnvel viðurkenna þetta líka. Þeir hafa bara ekki úrræðin.“

Guðmundur Ingi segir að þannig sé verið að dæma ósakhæfa einstaklinga sem sakhæfa og jafnvel til skiptis ósakhæfur, sakhæfur og svo framvegis. Þannig einstaklingar séu settir í fangelsi og hafi áhrif á allt fangelsiskerfið út af veikindaástandi sínu.

„Þeir skapa alls konar hvort sem það er ágreiningur eða bara erfið samskipti á milli fanga, sem sagt milli þeirra og fanga, á milli þeirra og fangavarða. Þeir fá oft ekki viðeigandi lyf sem þeir hreinlega þurfa. Þeir fá engar meðferðir inni í fangelsunum. Og oft af því þeir eru óþægilegir eða erfiðir, þá eru þeir bara settir í einangrun. Og hvað er einangrunin að fara að gera fyrir þá? Hún skemmir þá meira. Þannig að veikasta fólkið og fólk sem þarf virkilega meðferðir, það er sett bara í einangrun. Svo fá þeir ekki reynslulausn vegna þess að þeir eru ekki hæfir til að fara út í samfélagið nema að þeir séu búnir að fá ákveðinn stuðning, stuðningsþjónustu og húsnæði. Þar af leiðandi situr þetta veikasta fólk lengur í fangelsi en aðrir. Í mun erfiðari afplánun í einangrun. Og það vita allir, viljum við fá svona fólk út í samfélagið aftur?“

Málefni fanga litið öðrum augum í Noregi en hér

Hann segir meiri þekkingu á fangelsismálum í Noregi en hér. Þar vilji einstaklingar fá gott endurhæft fólk út úr fangelsunum og vilji frekar slíkan einstakling sem nágranna en einhvern sem hefur bara verið í geymslu og ekki fengið þá meðferð sem hann þarf.

„Þannig að við erum að gera þetta öfugt miðað við Norðmenn og það hefur lítið gerst þannig séð í geðheilbrigðismálum. Það hefur verið hrikalega erfitt að fá fólk vistað til dæmis inn á geðdeildum eða fá fólk flutt á geðdeildir. Og geðdeildin hefur ítrekað sent menn til baka eða verið með þá kannski einn dag eða þrjá eða eitthvað og sent þá aftur þó manneskjan þurfi klárlega að vera miklu lengur. Árið 2019 kom CPT-nefndin sem er svokölluð pyntinganefnd sem fylgist með pyntingum oft um alla Evrópu, og þeir settu út á geðheilbrigðismálin. Þannig að þeir settu stjórnvöld svolítið út í horn vegna þess að þeir birtu mjög svarta skýrslu. Þeir gáfu samt stjórnvöldum tækifæri á að breyta áður en þau myndu birta, þannig að stjórnvöld handvöldu sem sagt fólkið í geðheilsuteymi sem þeir vildu hafa. Fengu geðlækni og geðhjúkrunarfræðinga og fleiri til að stofna þetta teymi. Og það var frábært og virkaði rosalega vel og það var í raun og veru mesta byltingin í geðheilbrigðismálum sem hafa orðið í fangelsum. Og oþað var grátið á blaðamannafundinum. Það voru geðhjúkrunarfræðingar sem voru búnir að vinna þarna mjög lengi sem bara grétu. Þetta var svo ánægjulegt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi
Fréttir
Í gær

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið
Fréttir
Í gær

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum