Móðir drengs með þroskahömlun og mikinn hegðunarvanda sem er að klára tíunda bekk sér ekkert nema Litla Hraun eða gröfina fyrir hann að óbreyttu. Hún segir kerfið hafa brugðist sér og að stríðsástand hafi ríkt á heimilinu í mörg ár.
„Þessi tíu ár hafa verið hreinasta helvíti,“ segir móðir drengs sem er nú að klára tíunda bekk. Hún sér enga framtíð fyrir hann að lokinni skólaskyldu og þau úrræði sem drengnum hafi verið boðin hafi aðeins gert illt verra. Hún óttast framtíðina.
„Ef ég er spurð hvaða framtíð ég sjái hjá barninu mínu þá er það eina sem ég sé er Litla Hraun eða gröfin. Ég sé engar aðrar leiðir hjá þessum dreng ef þetta heldur svona áfram,“ segir hún.
Móðirin er öryrki og einstæð með þrjú börn. Drengurinn sem um ræðir er hennar elsti og á tvö yngri systkini, systur sem er miðjubarn og bróður sem er yngstur. Vegna húsnæðisskorts hefur fjölskyldan margoft þurft að flytja. Hefur hún meðal annars búið í Þorlákshöfn, Reykjavík og Danmörku.
Vandamál sonarins byrjuðu strax í leikskóla. Auk þess að vera með þroskahömlun og einhverfu þá segir móðirin að hann þjáist einnig af kvíða og sýni af sér mikinn hegðunarvanda. Reglulega sé hann í viðtölum hjá geðlækni.
Hegðunarvandinn hefur birst í ofbeldi, sem hefur meðal annars beinst gegn móður sinni og systur. Segir móðirin að átta ára bróðir hans hafi sloppið hingað til en að ástandið hafi áhrif á hann eins og aðra fjölskyldumeðlimi.
„Ég er andlega búin. Ég er svo búin að ég á oft erfitt með að baða mig,“ segir móðirin. „Ef systir hans er ekki læst inni í herbergi þá er hún að gista hjá vinkonu sinni. Yngsti má ekki lengur heyra skellt hurð án þess að hann veini upp af hræðslu. Það er ekki hægt að ímynda sér þetta. Fólk heldur að maður sé bara með „óþekkt barn“ en ég er með barn með fatlanir og það er stríðsástand á heimilinu. Við lifum engu venjulegu lífi, við tiplum öll á tánum frá morgni til kvölds,“ segir hún.
Þrátt fyrir að vera að klára tíunda bekk þá hefur drengurinn í raun enga menntun fengið og mun ekki halda áfram í skóla.
„Hann lærir ekki neitt. Hann hefur aldrei farið inn í almennan bekk, frá fyrsta til tíunda bekk. Þessi börn eru sett út í horn og geymd þar,“ segir móðirin.
Þá gengur oft illa að halda honum í skólanum og móðirin fær oft skilaboð um að hann hafi verið sendur heim. Til dæmis vegna þess að hann hafi sagt að honum væri illt í maganum. Skólinn gæti ekki haldið honum.
„Ég er bara ein og það er takmarkað hvað ég get staðið í þessu alla daga. Það er lán í óláni að ég sé öryrki sjálf því annars myndi ég ekki halda vinnunni,“ segir hún.
Það hafi einnig reynst erfitt að koma honum inn í skóla. Hún segir að árið 2021 hafi hún skráð hann í sjöunda bekk í Árbæjarskóla en beinlínis fengið neitun út af greiningum hans. Það ár hafi hún verið í viðtali hjá Stöð 2 í von um að koma drengnum í skóla.
Móðirin örvæntingarfulla sér heldur ekki fram á að drengurinn geti farið að vinna eftir tíunda bekk, sem klárast eftir örfáar vikur.
„Hann fer aldrei að vinna fulla vinnu. Hann þarf stuðning,“ segir hún vonlítil.
Móðirin segir að alla skólagönguna hafi hún staðið í barningi við að fá aðstoð fyrir drenginn. Fram að þrettán ára aldri fengu þau enga aðstoð. Það var ekki fyrr en móðirin sjálf veiktist alvarlega, var í dái í marga daga, sem hreyfing komst á mál drengsins.
Þá fór hann í úrræði sem kallast Klettabær og dvaldi þar í rúmt ár. En það er úrræði fyrir börn með fjölþættar stuðningsþarfir. Móðirin segir hins vegar að það hafi gengið mjög illa og í raun hafi hegðunarvandinn hafist fyrir alvöru á þessum tíma.
„Þegar hann fór í Klettabæ þá fyrst byrjaði hegðunarvandinn fyrir alvöru. Þarna var börnunum hent inn á einn stað,“ segir móðirin. „Það var ekki hugsað um mataræði hans og hann þyngdist um 20 kíló á 8 mánuðum. Það brotnuðu líka í honum tennur í inngripum þar.“
Síðan þá hefur hegðunarvandinn verið mikill og drengurinn beitt fjölskyldu sína ofbeldi. Hann sé byrjaður að fikta við áfengis og fíkniefnaneyslu og sé sífellt að lenda í vandræðum. Í síðustu viku hafi hann strokið úr skólaferðalagi og í nokkur skipti hafi hann stolið bílnum hennar. Í eitt skiptið tjónaðist bíllinn svo illa að hann var dæmdur ónýtur.
„Hann hefði geta orðið sjálfum sér eða öðrum að bana í nokkur skipti,“ segir hún. Þar sem hann sé ekki orðinn lögráða falli umferðarsektirnar á hana.
Í neyðartilfelli fyrir skemmstu var eina úrræðið sem í boði var vistun á Stuðlum. En það er úrræði fyrir börn í neyslu. Hún segir barn með fötlun eins og hans ekki hafa neitt að gera innan um ungmenni með þess konar vanda.
„Þetta eru börn sem eru rosalega áhrifagjörn. Í Klettabæ og á Stuðlum fékk hann að kynnast eldri krökkum sem hafa verið í neyslu. Þau gera allt til þess að vera samþykkt af einhverjum. Meðal annars að nota efni og stela,“ segir móðirin áhyggjufull um að þetta ágerist.
Hún sé þegar byrjuð að sjá vafasamt fólk í kringum son sinn. Meðal annars fólk sem vilji honum illt.
„Um hábjartan dag fyrir ekki svo löngu síðan var hópur af strákum að reyna að komast inn heima hjá mér til að berja hann. Því hann kemur sér í vanda alls staðar,“ segir hún.
Eftir tíunda bekk á drengurinn að byrja í úrræði sem kallast MST. En það er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur sem eru að kljást við hegðunarvanda barns. Um er að ræða 3 til 5 mánaða meðferð og móðirin er óttaslegin hvað gerist eftir þann tíma.
„Ef að þetta virkar ekki hvað verður þá um barnið mitt? Ég get ekki lengur verið með hann heima þar sem ég sef ekki rólega og það er ofbeldi alla daga. Ég veit ekki hvað drengurinn er að gera þegar hann stingur af,“ segir hún.
Hún segist hafa barist og barist í langan tíma en líði eins og kerfið hlusti ekki. Veikindi hans séu ekki tekin alvarlega.
„Það yrði ekki komið svona fram við okkur ef hann væri með Down´s heilkenni. Þetta er af því að það sést ekki á honum,“ segir hún. „Þetta eru fatlanir en maður þarf statt og stöðugt að berjast við kerfið.“
Aðspurð um hvað hún myndi vilja sjá gert segir hún að það þurfi að bjóða upp á fleiri og fjölbreyttari úrræði. Syni hennar myndi sennilega henta best að komast á sveitabæ.
„Fólk spyr af hverju ég láti ekki barnið í burtu. Þó að barnið manns sé veikt er enginn sem leikur sér að því að láta barnið frá sér. Þó svo að barnið mitt sé veikt er mér ekki alveg sama hvar það er,“ segir hún að lokum. En hún þarf einnig að minna sig á að hún er móðir þriggja barna, ekki eins. „Ég þarf að vernda þau. Ég er ekki bara með hann.“