„Það á ekki að dekra börn en ég átti rosalega góða foreldra. Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland í fjölskyldunni. Eða bæði, þetta hangir saman að vinna í banka og vera í ræsinu. Það voru allir mjög góðir við mig en það er ekki það sama og að dekra,“
segir tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson. Í viðtali í Fyrst á fætur á Rás fer hann yfir uppeldið, tónlistarferilinn og fleira, en Erpur hefur sterkar skoðanir á málefnum samtímans.
„Elsti bróðir minn er sextán árum eldri og systir mín tíu árum eldri svo þú ert með fleiri foreldra,“ segir Erpur sem er yngstur af fjórum systkinum og segir að hann eigi í raun foreldraímynd í elstu systkinum sínum líka. Faðir hans Eyvindur P. Eiríksson rithöfundur og íslenskufræðingur er fæddur árið 1935 og Margrét Pálína Guðmundsdóttir móðir Erps árið 1940 og hann segist hafa hlotið bókmenntalegt uppeldi af gamla skólanum.
„Það var haldið að manni menningararfinum. Svo komu eldri systkini mín með tónlistina inn. Þar kemur svarta tónlistin, rappið, fönkið og það kristallast í því sem ég geri. Að vera með íslenskuna og bókmenntir en það er biksvartur rytmi og undir, þetta er niðurstaðan af því að eiga eldri systkini og foreldra í fleiri en einum og tveimur.“
Erpur segir að ekki hafi verið keyptar nýjar flíkur á hann heldur lappað upp á notaðar. „Ég var bara í fötum af eldri systkinum mínum og þau voru þrjú eldri en ég.“ Og ef eitthvað rifnaði var lappað upp á það. Stundum var honum þá strítt. „Ég var með bætur og mér fannst pirrandi að vera með bót á rassinum þegar það var eitthvað sagt. En þá lærði ég að svara fyrir mig. Þannig lærirðu að standa með bótinni og skjóta til baka.“
Erpur er alinn upp að stóru leyti í Danmörku og Finnlandi og hefur alltaf brunnið fyrir mannréttinda- og baráttumálum. Þegar hann er spurður hvort baráttuandinn dvíni með aldrinum svarar hann: „Nú ætla ég ekki að koma hérna eins og eitthvað froðufés, eins og þreyttur krati. Það er ekkert dapurlegra en gamlir þreyttir kratar, það er eins og gamlir bitrir popparar. Það gekk allt upp og þá eru þeir alveg: nei ég er enginn öfgamaður. Kratinn tekur kannski vöffluna, en restin af honum er að gefa eftir til auðvaldsins. Og það er ekki í boði.“
Hann segir að skoðanirnar hafi breyst, þroskast og fókuserast á liðnum árum. Hann hafi til dæmis áttað sig á því að 99% þjóðarinnar sé sammála um stærstu málin í grunninn þó að hún nálgist þau kannski úr ólíkri átt.
„Við getum held ég öll verið sammála um það að vinnandi fólk á ekki að þurfa að vera í tveimur vinnum til að geta borgað leigu, íþróttanámskeið og samgöngur,“ segir hann. „Það er þroskinn sem ég hef náð. Ef ég hef náð þeirri stöðu að ef það er allt í einu Framsóknarmaður sammála mér um eitthvað er það allt í lagi. Það er auðvitað hræðilegt fyrir hann að vera Framsóknarmaður, en ef við erum bandamenn í einhverjum málum þá erum við það.“
XXX Rottweilerhundar fagna 25 ára starfsafmæli sínu í síðasta skipti með stórtónleikum í Laugardalshöll laugardaginn 24. maí.
„Við erum aldir upp á andlegum verðmætum, komnir allir af vinnandi fólki. Rottweiler er alþýðuband, 110 Árbær, 200 Kópavogur. Við erum búnir að kasta svo mörgum markaðsöpum út af fundum sem myndu vilja til dæmis að við værum að blóðmjólka og keyra okkur út.
Við höfum allir verið með bót á rassinum og sumir eru enn með slíkt.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.