Erlendar leyniþjónustustofnanir og hermálayfirvöld birta reglulega tölur yfir áætlað manntjón Rússa í stríðinu og úkraínsk yfirvöld gera það einnig en úkraínski herinn er auðvitað í daglegri snertingu við það sem gerist á vígvellinum. Það verður þó að taka tölum Úkraínumanna með ákveðnum fyrirvara því ekki er ólíklegt að þeir ýki þær þar sem það getur þjónað hagsmunum þeirra að gera meira úr manntjóninu en staðreynd er.
En meðal annarra aðila sem birta reglulegar tölur yfir ætlað manntjón Rússa er breska varnarmálaráðuneytið. John Healey, varnarmálaráðherra, ræddi nýlega við The Telegraph og sagði við það tækifæri að samkvæmt nýjustu tölum frá ráðuneyti hans, þá hafi manntjón Rússa í október slegið fyrri met. Að meðaltali féllu og særðust 1.353 rússneskir hermenn á dag og heildarfjöldi fallinna og særðra var 41.980 menn.
Fyrra metið var frá í maí síðastliðnum en þá féllu eða særðust 39.110 hermenn.