Það andar köldu á milli Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG, í umræðum formanna stjórnmálaflokkanna í Silfrinu á RÚV.
Bjarni sagði að eini augljósi kosturinn fram væri að núverandi stjórn myndi sitja sem starfsstjórn fram að kosningum í lok nóvember.
Svandís lýsti því hins vegar yfir að VG muni ekki sitja í stjórn undir forsæti Bjarna, ekki heldur starfsstjórn í stuttan tíma. Leggur hún til að Bjarni biðjist lausnar og Sigurður Ingi taki við sem forsætisráðherra í starfsstjórn.
Bjarni sagði þetta tal undarlegt og fráleitt. „Það er undarlegt að heyra svona koma frá jafnreyndum stjórnmálamanni,“ sagði Bjarni um hugmyndir Svandísar um það sem núna á að taka við fram að kosningum. „Þetta er einhver furðukenning sem ég hef aldrei heyrt áður, þetta er einhver misskilningur því miður,“ sagði hann ennfremur.
Svandís sagði: „Við erum með ákveðinn pólitískan veruleika fyrir framan okkur og Bjarni getur ekki einn stýrt framvindunni, að taka ákvörðun um að slíta hér ríkisstjórnarsamstarfi og telja síðan í framhaldinu að hann hafi öll spil á hendi.“
Aðspurð sagði Svandís að VG tæki ekki þátt í ríkisstjórn sem Bjarni leiðir, sama þó að það sé starfsstjórn.