fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Reynslubolti af RÚV lætur kollega sína heyra það – „Vanþekking fréttamanna á málefninu var sláandi“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. júlí 2024 10:00

Gísli Sigurgeirsson starfaði árum saman sem fréttamaður RÚV á Akureyri. Hann er allt annað en sáttur með vinnubrögð kollega sinna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn Gísli Sigurgeirsson, sem árum saman starfaði sem fréttamaður RÚV á Akureyri, er allt annað en sáttur við vinnubrögð kollega sinna varðandi umfjöllun miðilsins um kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska hf. Í kjarnyrtum pistli á Akureyri.net sakar Gísli fréttastofuna um að hafa farið ítrekað í loftið með rangar fréttir um málið. „Sú umfjöllun virtist fyrst og fremst sett fram til að sverta þau fyrirtæki sem koma við sögu við þennan samruna og sérstaklega að koma höggi á Kaupfélag Skagfirðinga. Vanþekking fréttamanna á málefninu var sláandi og andmælendur þessarar sameiningar fengu að blaðra út í eitt án krítískra spurninga,“ skrifar Gísli.

Ómaklegt að Þórarinn Ingi sé gerður tortryggilegur

Í pistli sínum fer Gísli stuttlega yfir sögu hins keypta fyrirtækis og áréttar að enn um sinn hefur KS aðeins gengið frá kaupum á meirihlutaeign bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona í fyrirtækinu en útistandi er tilboð í minnihlutaeign stórs hóps bænda í félaginu sem hver og einn þarf að gera upp við sig.

Kaupin hafa reynst afar umdeild og hefur talsvert verið gert úr því að Þórarinn Inga Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, er einn af þeim bændum sem á hlut í félaginu. Telur Gísli það ómaklegt að aðkoma hans að félaginu hafi verið gerð tortryggilega.

Sjá einnig: Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

„Hann og Hólmfríður Björnsdóttir kona hans eiga 0.06% í félagi bænda, Búsæld ehf, sem á 43% í KN. Hlutur þeirra hjóna í KN er því sennilega nálægt 0.03%. Þessi eign Þórarins hefur verið tíunduð á hagsmunavef Alþingis frá því að Þórarinn tók þar sæti. Eignin hefur orðið til með hlutdeild í innleggi, samkvæmt samningi við bændur þegar Norðlenska var stofnað. Þarna er því í raun um að ræða ógreitt innlegg á óverðtryggðum kjörum. Söluhagnaður verður því í raun enginn ef dæmið er reiknað í heild, kjósi þau hjón að selja hlutinn til KS,“ skrifar Gísli.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins

Samrunanum beri að fagna

Þá er hann á því að þessi eign Þórarins Inga í félaginu hafi ekki gert hann vanhæfan til þess að vinna að umdeildum lagabreytingum um að afurðastöðvar, eins og Kjarnafæði Norðlenska hf., séu undanþegnar samkeppnislögum. Þvert á móti hafi Alþingi, að mati Gísla, notið góðs af þekkingu og reynslu Þórarins við gerð frumvarpsins.

„Það vita þeir sem til þekkja, að slíkar aðgerðir þurfa að ganga hratt fyrir sig ef takast á að bjarga þessari atvinnugrein; vinnslu og landbúnaði. Það er ekki tími til að láta samkeppnisstofnun þvæla um málið út og suður í marga mánuði. Verklagið á þeim bæ hefur heldur ekki verið traustvekjandi á undanförnum misserum. Eftir lagabreytinguna hafa bændur kallað eftir aðgerðum til hagræðingar sem fyrst, að verkin verði látin tala. Margir þeirra lifa í þeirri von, að það leiði til hærra afurðaverðs, þannig að þeir geti lifað mannsæmandi lífi. Bændur vænta þess einnig, að svigrúm skapist til að lækka verð til neytenda, ekki síst til að styrkja innlenda framleiðslu í samkeppni við niðurgreiddar innfluttar kjötvörur. Það er mat þeirra sem til þekkja, að samlegðaráhrif KS og KN við slátrun og úrvinnslu kjötafurða séu þau áhrifamestu sem völ er á í íslenskum landbúnaði við þessar aðstæður. Samruna þeirra beri því að fagna,“ skrifar Gísli.

Hér má lesa grein hans í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump