Mosley lagði af stað skömmu eftir hádegi en þegar hann hafði ekki skilað sér á áttunda tímanum um kvöldið hafði eiginkona hans samband við lögreglu. Leitað var að Mosley aðfaranótt fimmtudags og í allan gærdag en leitin bar engan árangur. Leit verður svo haldið áfram í dag.
Sjá einnig: Þekktur læknir og sjónvarpsmaður horfinn
Mosley er þekktur í Bretlandi og er hann einn af þeim sem kom 5:2 mataræðinu svokallaða á kortið. Þá hefur hann skrifað fjölda bóka um næringu og heilsu, verið pistlahöfundur í breskum fjölmiðlum og fastagestur á sjónvarpsskjám landsmanna.
Mosley er 67 ára en mjög heitt var í veðri á eyjunni síðastliðinn miðvikudag þegar hann hvarf. Eyjan er ekki ýkja stór, eða 58 ferkílómetrar, og hefur leitin einkum beinst að svæðinu fyrir ofan höfnina á eyjunni eftir að kona sagðist hafa séð Mosley þar á miðvikudag.
Ýmsir hafa klórað sér í kollinum yfir hvarfinu. Þannig sé eyjan ekki mjög stór og þá sé svæðið fyrir ofan byggðina, þar sem Mosley ætlaði að ganga, ekki erfitt yfirferðar.
„Þetta er rólegur staður og ef maður skoðar kort af eyjunni þá sér maður að gönguleiðirnar eru greiðar og ekki hættulegar. Það fer fjöldi fólks hér um á hverjum degi og þess vegna er þetta skrýtið,“ segir kona búsett á eyjunni í samtali við Daily Mail en Mosley hefur einmitt verið pistlahöfundur þar.
Mosley og eiginkona hans dvöldu hjá vinum á eyjunni og segist ónafngreindur heimildarmaður innan fjölskyldunnar klóra sér í kollinum yfir hvarfi Mosley. Hann hafi verið á tiltölulega öruggum slóðum þar sem erfitt er að týnast. Leit verður sem fyrr segir haldið áfram í dag.