fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Blöskrar fréttaflutningur af minnkandi spilakassatekjum -„Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 16. apríl 2024 18:30

Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við höfum vitað af þessu en þetta hefur aldrei verið svona grímulaust. Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð,“ segir Alma Hafsteins, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn og starfandi spilafíklaráðgjafi hjá spilavandi.is.

Tiltefnið er viðtal RÚV í gærkvöld við Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins, um minnkandi tekjur samtakanna af spilakössum Íslandsspila. Sagði Kristín í viðtalinu að þessar tekjur hafi smám saman dregist saman undanfarin og að þrengt væri að þessari tekjuöflun með erlendri samkeppni og innlendum lagaramma. Þannig hafi Happdrætti Háskólans rýmri heimildir til tekjuöflunar af þessu tagi en Íslandsspil:

„Ríkið skapar rammann, setur lög og reglur og síðan erum við í samkeppni við sama ríki þannig að stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun, hvernig ætla þau að fjármagna almannavarnir? Ætla þau að gefa félagasamtökum svigrúm til að sinna þessari fjáröflun sem við höfum sem heitir Íslandsspil, eða á að leysa málið öðruvísi úr ríkiskassanum?“

Er Kristín var spurð að því hvort eðlilegt sé að almannavarnir séu fjármagnaðar með tekjum af spilakössum sagði hún: „Ég hef ekki svarið við því. Það er pólitískt svar.“

Félögin sem hafa fjármagnað sig með spilakassatekjum að hluta, Rauði krossinn og Landsbjörg, hafa sent bréf til fjögurra ráðherra ríkisstjórnarinnar „þar sem athygli er vakin á alvarlegri stöðu varðandi fjárhagslega getu félaganna til að sinna samningsbundnu hlutverki sínu gagnvart almannavörnum Íslands,“ eins og segir í frétt RÚV um málið.

„Það er orðið þyngra hljóðið í okkar fólki. Um leið og það eru gerðar meiri kröfur til félaganna, það er meira að gera af ýmsum ástæðum, þá er þrengt að þessari fjáröflun og þessum óeyrnamerktu fjármunum,“ segir Kristín.

Treystir ekki Rauða krossinum

Alma, formaður SÁS, hefur margt við þennan málflutning að athuga. „Það hefur lengi verið vitað að þau vilja meiri tekjur af þessu, Rauði krossinn, Happdrætti Háskólans og Landsbjörg hafa talað eins það séu 20 milljarðar sem liggi í óskilamunum í Leifsstöð,“ segir Alma og vísar til fullyrðinga um fjármagn sem renni til erlendra aðila í gegnum spilasíður á netinu sem Íslendingar eyða fjármunum í. „En þegar við ætlum að tala um erlendar tekjur af fjárhættuspilum þá verðum við að átta okkur á því að það er einhver sem leggur til þessa fjármuni og miðað við hvernig Rauði krossinn hefur farið með þennan málaflokk allt frá því þau fengu leyfi fyrir honum árið 1993 þá treysti ég þeim ekki fyrir þessum málaflokki né til að víkka hann út.“

Alma segir ennfremur að upplýsingar sem Rauði krossinn birtir um tekjur af spilakössum séu villandi, að því leyti að birtar séu hreinar tekjur en heildartekjurnar sem skapist séu miklu meiri. Þarna koma rekstraraðilar staðanna þar sem spilakassarnir eru staðsettir einnig við sögu. „Það gleymist í þessari umræðu að ef einhver eyðir 100 þúsund kalli í spilakassa þá er bara brot af því sem skilar sér í Rauða krossinn. Við höfum einmitt verið að gagnrýna það að í þessari starfsemi þá eru einkaaðilar að hagnast á einhverjum sérleiðum.“

Alma Hafsteinsdóttir

Segir rangt að tekjurnar séu að dragast saman

Alma segir að miðað við gögn sem Rauði krossinn hefur birt sjálfur sé það villandi að halda því fram að spilatekjurnar séu að dragast saman. Upplýsingar um þetta er að finna í ársskýrslum samtakanna sem hlaða má niður af þessari síðu.

Alma bendir á að vissulega hafi tekjurnar verið hærri árið 2018, 510 milljónir, og 2019, 427 milljónir, en þær eru í dag. Hins vegar hafi eðlilega orðið mikið tekjufall í Covid enda hafi þá spilakassarnir verið lokaðir tímabundið og samtökin SÁS fóru í átakið lokum.is. Eftir Covid hafi þær hins vegar farið hækkandi og árið 2022 voru þær komnar upp í 349 milljónir eftir að hafa fallið niður í um 200 milljónir á Covid-tímanum.

„Mér finnst svo ámælisvert að framkvæmdastjóri Rauða krossins mæti í viðtal í kvöldfréttum RÚV og segi að tekjurnar hafi dregist saman. Hvaða tekjur? Hvaða verkefni á  hún við?“ spyr Alma og bendir á að Rauði krossinn fái greitt fyrir öll verkefni sem hann vinni fyrir ríkið. Sömu skýrslur og vísað var til hér að ofan leiða til dæmis í ljós að samtökin fengu 1,5 milljarð í samningum við ríkið árið 2021 og einn milljarð árið 2022. „Þegar Rauði krossinn opnar fjöldhjálparmiðstöð þá fær hann greitt frá ríkinu,“ bendir Alma á. Hún spyr hvort spilakassatekjunum sé þá ætlað að standa undir skrifstofurekstri samtakanna.

Spyr hvort samtökin harmi að fólk með spilafíkn nái bata

„Hún er í sama viðtali að verja það að hún sendi bréf á fjóra ráðherra þar sem hún er að óska eftir víðari heimildum til fjárhættuspila. Hún getur tengt það við hvað sem er, Grindavík eða eitthvað annað, en í grunninn er hún að biðja þessa fjóra ráðherra um að veita sér víðari heimildir til að ná í meiri peninga í gegnum fjárhættuspil –  af fólki með fíknisjúkdóm.“

Alma les hótun út úr viðtalinu við framkvæmdastjórann:

„Hún er að hóta stjórnvöldum og almenningi, ef þið gerið ekki þetta og við fáum þetta ekki bætt, þá erum við ekki klár á ögurstundu. Hugmyndafræði Rauða krossins er frjáls framlög og sjálfboðaliðastarf. Ef Rauði krossinn er kominn á aðra vegferð þá þarf hann að upplýsa almenning og samfélagið um það. Ef markmiðið er að komast í fremstu röð í fjárhættuspilum á Íslandi þá væri bara fínt að fá að vita það. Það þarf að gera grein fyrir því og það þarf að koma skýrt fram. Einnig þarf að gera betri grein fyrir samningum Rauða krossins við ríkið.“

Alma bendir á að grunngildi Rauða krossins snúist um að vernda líf og heilsu og bera virðingu fyrir mannslífum. Spilakassareksturinn sé í andstöðu við þessi gildi.

„Þú getur ekki fengið endalausan aðgang að ofboðslega afmörkuðum hópi og murkað úr honum lífið og sagt svo bara, við viljum fá stærri köku. Er framkvæmdastjórinn í alvörunni að koma fram fyrir alþjóð og kvarta yfir því að fólk með fíknisjúkdóm, spilafíkn, skuli vera að ná tökum á lífi sínu og ná bata? Er það það sem hún er að gagnrýna? Vill hún fá fleiri spilafíkla af því þá fær hún meiri peninga?“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mölbrotnaði eftir að hafa hrasað um köttinn sem slapp ómeiddur

Mölbrotnaði eftir að hafa hrasað um köttinn sem slapp ómeiddur
Fréttir
Í gær

Segir Katrínu verða fyrir hatursfullum árásum – „Ein besta og heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst“

Segir Katrínu verða fyrir hatursfullum árásum – „Ein besta og heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt