Í dag verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur manni sem er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og brot í nánu sambandi. Um er að ræða atvik sem átti sér stað 3. janúar árið 2022. Er maðurinn sagður hafa ráðist á fyrrverandi eiginkonu sína með steikarpönnu sem vó rétt rúmlega 1 kg. Barði hann konuna með pönnunni í höfuðið, vinstri öxl og hægri olnboga með þeim afleiðingum að hún hlaut mar í kringum vinstri kjálka, marblett ofan á vinstri öxl, um 5 sentimetra langan og 3-4 sentimetra djúpan skurð á hvirfli og yfirborðsáverka á höfði og mars á olnboga.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir líkamsárás er hann réðst á sömu konu á aðfangadag árið 2022, er hann sló hana með flötum lfóa í háls og eyra með þeim afleiðingum að hún hlaut roða á hægri vanga.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd konunnar er gerð krafa um miskabætur upp á eina og hálfa milljón króna.