Þetta kemur fram í ákæru frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Þrír menn eru ákærðir fyrir að hafa ætlað að myrða Írana sem eru í útlegð í Bandaríkjunum. Er íranska klerkastjórnin sögð hafa ráðið tvo kanadíska meðlimi Hells Angels glæpasamtakanna til að sjá um morðin.
Þessir Hells Angels meðlimir heita Damion Patrick John Ryan, 43 ára, og Adam Richard Pearson, 29 ára.
Dómsmálaráðuneytið segir að þeir hafi verið ráðnir til að myrða tvo einstaklinga sem búa í Maryland. Það var Naji Ibrahim Sharifi-Zindashti, íranskur ríkisborgari sem er einnig ákærður í málinu, sem réði þá til starfa.
Bandaríska fjármálaráðuneytið segir að Zindashti sé leiðtogi glæpasamtaka sem njóta mikillar verndar íranska Njósna- og öryggismálaráðuneytisins. Telja bandarísk yfirvöld að glæpasamtök Zindashti hafi skipulagt og hrint fjölda aðgerða í framkvæmd í mörgum löndum. Meðal annars er um launmorð og mannrán á andstæðingum og óvinum klerkastjórnarinnar að ræða.
Samkvæmt ákærunni þá setti Zindasthi sig í samband við Kanadamennina í desember 2020 í gegnum dulkóðaða samskiptaþjónustu sem heitir Sky ECC. Um nokkurra mánaða skeið fóru skilaboð þeirra á milli um þá sem átti að myrða, heimilisföng þeirra, skipulagningu morðanna og greiðsluna fyrir verkið.
Samið var um greiðslu upp á sem svarar til um 50 milljóna íslenskra króna fyrir morðin og 2,5 milljónir til viðbótar til að mæta útgjöldum Kanadamannanna. Þeir fengu þá upphæð greidda en náðu ekki að hrinda morðunum í framkvæmd. Þeir sitja báðir í fangelsi í Kanada vegna annarra afbrota. Talið er að Zindashti sé í Íran. Bandaríska fjármálaráðuneytið segir að þar séu hann og „glæpaveldi“ hans undir verndarvæng íranskra öryggissveita sem geri honum kleift að stunda fíkniefnaviðskipti og lifa lúxuslífi. Segir ráðuneytið að glæpasamtök hans tengist morðum í löndum á borð við Kanada, Tyrklandi og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.