Þetta var ekki fyrsta árás Úkraínumanna á skotmörk langt frá úkraínsku landamærunum. Í janúar gerðu þeir árás á olíubirgðastöð við Sankti Pétursborg sem er um 1.200 km frá úkraínsku landamærunum. Nokkrum dögum síðar var röðin komin að olíubirgðastöð í Klintsy í vesturhluta Rússlands.
Í tengslum við árásirnar í janúar sagði Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðingur hjá Dansk Institut for Internationale Studier, í samtali við Jótlandspóstinn að þetta séu snjallar árásir hjá Úkraínumönnum en ákveðin áhætta fylgi þeim.
„Það getur verið snjöll taktík hjá Úkraínumönnum að ráðast á skotmörk í Rússlandi. Þeir geta vonast til að það breyti sýn rússnesks almennings á stríðið ef þeir flytja það til Rússlands. Kreml hefur jú sagt Rússum að þeir eigi bara að lifa lífinu eins og venjulega og Kremlverjar muni sjá um „hina sérstöku hernaðaraðgerð“ í Úkraínu,“ sagði hann.
Rússar hafa oft svarað árásum af þessu tagi með hörðum árásum á borgir í Úkraínu og það er áhættan sem fylgir árásum af þessu tagi að sögn Splidsboel Hansen.