fbpx
Laugardagur 02.desember 2023
Fréttir

Heilsutjón vegna bóluefna verði bótaskylt

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 30. september 2023 18:00

Bólusetning með Pfizer bóluefni í Laugardalshöll Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðuneytið hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu.

Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu á núgildandi lögum um sjúklingatryggingar er að ríkissjóður greiði bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til, vegna tjóns sem hlýst af því.

Í þriðju grein frumvarpsdraganna segir að bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu greiðist ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað
er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð nema þegar um er að ræða klínískar lyfjarannsóknir á mönnum, án bakhjarls, samkvæmt staðfestingu viðkomandi heilbrigðisstofnunar.

Tekið er þó sérstaklega fram að þrátt fyrir þessi ákvæði greiðist bætur þeim sem gangast undir bólusetningu á Íslandi með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til, vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns.

Einnig verða þær breytingar gerðar á lögum um sjúklingatryggingu samkvæmt frumvarpinu að hámarksupphæð bóta verður hækkuð og skal hámark bótafjárhæðar fyrir einstakt tjónsatvik vera 21.000.000 króna. Fjárhæðin skuli breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

Með tjónsatviki er átt við að rétt til bóta samkvæmt lögunum eigi sjúklingar sem verði fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í heimahúsi, sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu landlæknis til starfans. Sama eigi við um þá sem missi framfæranda við andlát slíkra sjúklinga.

Væntanlega fellur tjón af völdum bóluefna undir þessi ákvæði.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal ákvörðun um bætur vegna varanlegs líkamstjóns reist á niðurstöðu læknisfræðilegs mats sérfræðings.

Tryggingar vegna tjóns af völdum bóluefna á Norðurlöndum

Í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum er gerð nánari grein fyrir lögum um sjúklingatryggingar á Norðurlöndum og þar á meðal ákvæðum þeirra er snúa að bótum til þeirra sem kunni að bíða heilsutjón vegna bólusetningar sem yfirvöld mæla með.

Í Danmörku sé lyfjatrygging sem tryggi sjaldgæfar og alvarlegar aukaverkanir lyfja, þar með talið vegna bólusetninga. Fjármögnun þess hluta komi frá innanríkis- og heilbrigðisráðuneyti.

Í Noregi séu aukaverkanir lyfja tryggðar í löggjöf, einnig aukaverkanir vegna
bólusetninga. Sérstök tryggingavernd sé vegna bólusetninga sem mælt er með fyrir börn.

Í Finnlandi sjái sérstakur sjóður um sjúklingatryggingu. Lyfjatrygging falli ekki undir sjúklingatryggingu í Finnlandi, en afleidd tjón af völdum bólusetninga geti fallið undir valkvæða tryggingu.

Í Svíþjóð falli fylgikvillar lyfja, þar með talið bólusetninga, ekki undir sjúklingatryggingu en séu hluti sérstakrar lyfjatryggingar.

Skaðabótaréttur í Covid-faraldrinum þótti ekki tryggður

Ákvæðið í frumvarpsdrögunum um bótarétt vegna heilsutjóns af völdum bólusetningar er í greinargerðinni meðal annars rökstutt með vísan til þess að í COVID-19 heimsfaraldrinum hafi farið fram athugun á skaðabótarétti þeirra einstaklinga sem létu bólusetja sig við sjúkdómnum, ef tjón kæmi upp í kjölfar bólusetningar. Ljóst hafi verið að skaðabótaréttur þeirra sem fengju aukaverkanir, þekktar eða óþekktar, af völdum bóluefna, væri ekki nægilega tryggður í íslenskum lögum.

Hafi því verið sett bráðabirgðaákvæði, árið 2020, við lög um sjúklingatryggingu þar sem bótaréttur vegna bólusetningar gegn COVID-19 var tryggður. Ákvæði til bráðabirgða vegna bólusetningar við apabólu var svo sett 2022.

Rétt þyki að taka það skref að tryggja með skýrum hætti stöðu þeirra einstaklinga sem láta bólusetja sig vegna hvatningar heilbrigðisyfirvalda og í þeim tilgangi að vernda þá og samfélagið í heild. Með frumvarpinu sé því lagt til að bótaréttur vegna afleiðinga bólusetningar verði með skýrum hætti felldur undir lög um sjúklingatryggingu, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers atviks sem talið er upp í ákvæðum frumvarpsins. Í því felist að t.d. vandkvæði við stunguna sjálfa við bólusetningu þurfi að uppfylla skilyrði ákvæða frumvarpsins svo bótaskylda sé fyrir hendi það sama eigi við um fylgikvilla (aukaverkun) bólusetningar svo að um bótaskylt atvik sé að ræða.

Þessi nýju ákvæði um bætur vegna bólusetningar taki til bæði þekktra og óþekktra aukaverkana, að því gefnu að meiri líkur en minni séu til þess að tjónið megi rekja til eiginleika bóluefnisins. Með óþekktum aukaverkunum sé átt við aukaverkanir sem voru óþekktar þegar bóluefnið var sett á markað en síðar hafi komið í ljós að orsakasamhengi sé á milli þess og aukaverkana.

Í drögunum að frumvarpinu, til laga um sjúklingatryggingu, sem birt er í samráðsgáttinni er tekið fram að það sé í vinnslu en umsagnarfrestur er til 27. október næstkomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“
Fréttir
Í gær

Bróðir Eddu Bjarkar segir hana verða framselda til Noregs

Bróðir Eddu Bjarkar segir hana verða framselda til Noregs