Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landsverndar, þykir ekki mikið til loftslagsaðgerða ríkisstjórnarinnar koma og segir að þær litlu aðgerðir sem nú séu hafðar uppi felist „að miklu leyti í því að færa peninga úr ríkissjóði til vel stæðra fyrirtækja sem hafa hingað til sloppið að mestu leyti við að greiða fyrir þann umhverfisskaða sem þau valda.“
Þetta kemur fram í aðsendri grein Auðar á Vísi þar sem hún vísar í úthlutun Orkusjóðs í síðustu viku. DV fjallaði um úthlutina um helgina en þar vakti athygli að nokkur af öflugustu fyrirtækjum landsins hlutu styrk frá hinu opinbera til að fjárfesta í verkefnum sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Alls var alls 914 milljónum króna úthlutað til 58 verkefna víðsvegar um landið en meðal stærstu styrkþega voru Ísfélag Vestmannaeyja sem hlaut 110 milljóna styrk til kaupa á nýjum rafskautakatli sem nýtir endurvinnanlega orku í stað olíu og þá hlaut útgerðarfélagið Samherji hf. 110 milljóna styrk til að breyta tilteknu skipi fyrirtækisins þannig að það noti kolefnisfrítt ammoníak sem eldsneyti.
Meðal annarra styrkþega voru svo Arnarlax, Orkan og Ölgerð Egils Skallagrímssonar.
Í grein sinni undrast Auður styrkina til þessara öflugu fyrirtækja og bendir á að erfitt sé að sjá að kaup á rafskautakatli sé nokkuð annað en eðlileg endurnýjun tækjabúnaðar í fiskvinnslu. „Enda hefur þessi tækni verið í notkun á Íslandi í a.m.k. 21 ár. Vinnslubátar við fiskeldi í opnum sjókvíum sem fara eðli málsins samkvæmt mjög stuttar vegalengdir ættu að geta verið að fullu rafmagnaðir. Spyrja má hvers vegna ríkisvaldið sem fjármagnar Orkusjóð þarf að styrkja þessi verkefni sérstaklega um svo háar fjárhæðir,“ skrifar Auður.
Þá bendir hún á að Samherjasamstæðan hafi hagnast um 14,3 milljarða króna í fyrra, Ísfélag Vestmannaeyja um 8 milljarða og Arnarlax hafi hagnast um rúma 6 milljarða. Að hennar mati séu fyrirtækin þrjú að nýta auðlindir hafsins án þess að greiða sanngjarnt auðlindagjald „árum og áratugum saman og án þess að þurfa að greiða að neinu ráði fyrir það umhverfistjón sem þau valda“.
„Til þess að aðgerðir í loftslagsmálum séu sem árangursríkastar og til að tryggja bestu nýtingu fjármagns verður að forgangsraða aðgerðum á faglegum forsendum. Ríkisvaldið, sem fjármagnar orkusjóð, virðist ekki hafa borið gæfu til þess þegar kemur að dæmunum hér að ofan. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að bæði hvatar og gjöld/hindrar eru nauðsynleg til þess að tryggja árangur af loftslagsaðgerðum. Annað virkar ekki án hins því hvatar hvetja til samvinnu og aðgerða og gjöld/hindrar sjá til þess að aðgerðum/samvinnunni er haldið áfram. Þannig ætti að leggja gjöld á þá sem menga með háum mengunarsköttum en hvetja þá sem fjárfesta í umhverfisvænni aðferðum með fjárhagslegum stuðningi. Stjórnvöld hafa ákveðið að beita fjárhagslegum stuðningi en ekki gjöldum/hindrum og þá þannig að fjárhagsstuðningnum er beint til þeirra sem minnst þurfa á því að halda,“ skrifar Auður.
Telur hún að vegna slakra áætlana ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, engrar eftirfylgni og mikils vilja til þess að ausa fé í vel stæða mengandi starfsemi í nafni loftslagsaðgerða, muni sannfærandi árangur í loftslagsmálum ekki nást fyrir 2030. „Ríkisstjórnin verður að uppfæra aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum strax og beita þeim aðferðum sem þekkt er að eru árangursríkastar. Aðeins þannig höfum við möguleika á að ná árangri í loftslagsmálum,“ skrifar Auður.