Kópavogsbúar brugðust ókvæða við á dögunum þegar fjölmiðlar greindu frá tillögum Sorpu um að endurvinnslustöð, sem árum saman hefur verið rekin á Dalvegi, yrði fundinn nýr staður við Arnarnesvegi, nánar tilgreint við Kópavogskirkjugarð.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, og Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs, ritað aðsenda grein sem birtist hjá Vísi í dag þar sem segir að tillaga Sorpu hafi komið sem „þruma úr heiðskíru lofti“. Fram hafi komið í skýrslu starfshóps, sem fengið var að rýna í þörf og mögulegar staðsetningar fyrir nýja endurvinnslustöð, að óformlegar viðræður hafi átt sér stað við kirkjugarðinn og forsvarsmenn hans. Þetta kannist þessir forsvarsmenn sem og forsvarsmenn Lindakirkju þó ekki við.
„Þeir voru því jafn undrandi og bæjarbúar þegar fréttin birtist. Staðsetning endurvinnslustöðvar við kirkjugarð er mikil vanvirðing við hina látnu og aðstandendur þeirra.“
Taka þau Ásdís og Orri fram að ekki sé heppilegt að hafa endurvinnslustöð í miðri íbúabyggð, einkum vegna umferðar þungaflutningabíla sem skapist við slíkar stöðvar. Núverandi staðsetning við Dalveg sé því ákaflega óheppileg og ekki í samræmi við aðalskipulag og stefnu bæjarins. Slysahætta sé mikil og hafi íbúar ítrekað óskað eftir brotthvarfi Sorpu frá Dalvegi, enda geri deiliskipulag svæðisins ráð fyrir annars konar þjónustu fyrir bæjarbúa og vegfarendur í Kópavogsdal.
„Eins og kaffi- og veitingastöðum, leiksvæði o.s.frv. Í áratug hefur málið verið rætt í bæjarstjórn, verið í opinberri umræðu og í samskiptum við forsvarsmenn Sorpu án þess að málið þokist eitthvað áfram. Ótækt væri að láta annan áratug líða með Sorpu á Dalvegi.“
Ljóst sé að Sorpa þurfi að hvarfa af Dalvegi í september á næsta ári og huga þurfi að næstu skrefum. Ætlar bærinn að efla grenndarstöðvar í hverfum bæjarins og mun undirbúningur að því hefjast á næstunni. Við blasi að þörf sé á ítarlegri þarfa- og valkostagreinngu á mögulegri endurvinnslustöð sem skili raunhæfri niðurstöðu.
„Eitt er þó víst að endurvinnslustöð við Kópavogskirkjugarð var aldrei raunhæfur möguleiki frá upphafi að okkar mati.“
Það var á fundi Sorpu þann 11. apríl sem hugmyndir starfshóps, um að færa endurvinnsluna á Arnarnesveg, voru kynntar. Meðal mættra á fundinum var formaður bæjarráðs Kópavogs, Orri Hlöðversson, og átti bærinn þar að auki tvo fulltrúa í starfshópnum – skipulagsstjóra og deildastjóra gatnagerðar hjá bænum. Hópurinn fundaði fyrst í janúar en hugmyndin um að taka einn hektara af kirkjugarðinum kom fram á fundi hópsins þann 1. febrúar og voru lagðir fram uppdrættir að mögulegri endurvinnslustöð á þeim stað þann 7. mars. Fékk hópurinn fyrirtækið VSÓ ráðgjöf – sem veitir verkfræðiráðgjöf á sviðum mannvirkjagerðar – til að vinna að staðarvalsgreiningu.
Fundargerð Sorpu, þar sem niðurstöður starfshópsins voru lagðar fram, var kynnt bæjarráði þann 11. maí, en bæjarráð vísaði þá skýrslunni til kynningar í skipulagsráði án athugasemda, en eina bókunin sem gerð var á fundinum var áskorun til Sorpu að skila fundargerðum til bæjarins eins fljótt og auðið sé. Skýrt er tekið fram í fundargerðinni að ákjósanlegasta staðsetning fyrir endurvinnslustöð sé við Arnarnesveg og má fastlega reikna með því að skýrsla starfshópsins hafi verið fylgiskjal sem skilað var samhliða fundargerðinni til bæjarráðs.
Tíðrætt hefur verið um að endurvinnslustöðina þurfi að færa sökum hættuástands sem skapist vegna umferðar og sökum umferðarþunga í kringum stöðina. Á bæjarstjórnarfundi í júní 2020, þegar Ármann Kristinn Ólafsson var enn bæjarstjóri, var tilkynningar breytt deiliskipulag að Dalvegi. Þar gerði meirihlutinn bókun þar sem tekið var fram að með uppbyggingu á Dalvegi væri ljóst að loka þurfi endurvinnslustöðinni. Núverandi bæjarstjóri, Ásdís Kristjánsdóttir, sagði í bréfi sem sent var Sorpu í september á síðasta ári, að ljóst væri að svæðið undir endurvinnslunni væri ætlað undir verslun og þjónustustarfsemi og samræmdist starfsemi Sorpu ekki því skipulagi. Var því farið fram á að starfseminni yrði hætt og lóðinni skilað til bæjarins eigi síðar en 1. september 2024.
Rekja má málið enn lengra aftur, en Sorpa sendi bæjarráði Kópavogs bréf í júní árið 2016, í kjölfar þess að skerða þurfti svæði endurvinnslustöðvarinnar um 700 fermetra árinu áður, að ljóst væri að stöðin annaði með engu móti þeirri þjónustu sem henni væri ætlað að veita eða umferðinni sem þangað sæki. Segir í bréfinu að ófremdarástand hafi skapast trekk í trekk og þar með aukin hætta á árekstrum og slysum á bæði starfsmönnum sem og viðskiptavinum.
„Brýnt er að úr þessu ástandi verði leyst til frambúðar. SORPA óskar því eftir við Kópavogsbæ að fundinn verði framtíðarlausn fyrir endurvinnslustöð í Kópavogi sem þjónað geti því hlutverki sem henni er ætlað, án þess að hætta sé á árekstrum og slysum á fólki.“
Ljóst er því að Kópavogsbær hefur um árabil horft fram á að endurvinnslan á Dalvegi hætti starfsemi. Í greinargerð um töllögu að aðalskipulagi 2019-2040 sem lögð var fram í febrúar árið 2019 segir um flutningin:
„Þegar endurvinnslustöðin hættir er gert ráð fyrir að íbúar Kópavogs noti aðrar endurvinnslustöðvar Sorpu t.d. þá sem er í Jafnaseli í Breiðholti.“
Eins má finna í ársskýrslum Sorpu athugasemdir um að lengi hafi legið fyrir að endurvinnslunni á Dalvegi verði lokað, en lítið hafi þó þokast í viðræðum um hvað muni taka við fyrir Kópavogsbúa.
Bæjarstjóri og formaður bæjarráð segja að tillögur starfshópsins hafi verið sem þruma úr heiðskíru lofti. Engu að síður er ljóst að starfshópurinn fékk hugmyndina um að taka hektara af Kópavogskirkjugarði fyrir rúmum þremur mánuðum síðan og er rúmur mánuður síðan tillögurnar voru kynntar stjórn Sorpu, þar sem Orri situr, snemma í apríl og fyrir bæjarráði mánuði síðar, en fyrir fundi ráða og nefnda tíðkast að senda fylgigögn með dagskrárliðum funda samhliða fundarboði svo líkur eru á að fundargerð Sorpu og skýrsla starfshópsins hafi borist bæjarráði snemma í maí, en Ásdís bæjarstjóri situr í bæjarráði. Formleg viðbrögð frá Ásdísi og Orra bárust þó ekki fyrr en með fyrstu frétt fjölmiðla af málinu sem birtist hjá RÚV þann 18. maí.
Það var svo á fundi bæjarráðs í gær sem farið var yfirmálið „í ljósi nýliðinnar fjölmiðlaumræðu,“ eins og segir í fundargerð. Þá lögðu Orri og Ásdís, ásamt fleirum, fram eftirfarandi bókun:
„Undirrituð telja að sú staðsetning sem lögð var til í skýrslu starfshópsins sé ekki raunhæfur möguleiki. Þá eru vinnubrögð Sorpu, sem bar ábyrgð á starfshópnum, verulega ámælisverð. Mikilvægt er að fara í þarfa- og valkostagreiningu áður en lengra er haldið. Þá ítreka undirrituð að ef heppileg staðsetning finnst í Kópavogi fyrir nýja endurvinnslustöð þá fögnum við því. Mikilvægt er að halda þessari vinnu áfram og komast að ásættanlegri lausn.“
Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar, skrifaði á Facebook fyrir sex dögum að Ásdís Kristjánsdóttir hafi ákveðið einhliða og án þess að bera málið undir bæjarráð að tilkynna Sorpu að endurvinnslunni við Dalveg yrði lokað. Hún hafi í raun verið umboðslaus.
„Þetta bréf varð til þess að innan Sorpu var myndaður starfhópur, skipaður embættismönnum sem falið var að finna nýja staðsetningu. Gleymum því ekki að oddviti Framsóknarflokksins, sem birst hefur að undanförnu sem ákaflega undanlátsamur, situr í stjórn Sorpu. Þessi sami oddviti er líka formaður bæjarráðs. Á fundi bæjarráðs birtist í síðustu viku mánaðargömul fundargerð frá Sorpu. Minnihlutinn rak þar augun í skýrslu starfshóps um staðarval fyrir endurvinnslustöð og varð sérstaklega að óska umræðna um skýrsluna. Annars hefði hagsmungæsluaðili Kópavogsbæjar í stjórn Sorpu, oddviti Framsóknar, þagað þunnu hljóði áfram eins og venjan er. Það er augljóst að oddviti Framsóknar fékk skýrsluna í hendur eftir fyrstu vikuna í apríl en er fyrst núna að mótmæla niðurstöðu hennar.“