fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

24. febrúar 2022 – Fyrsta árásarbylgja Rússa gekk vel – Svo kom svar Úkraínumanna

Ritstjórn DV
Föstudaginn 24. febrúar 2023 09:30

Rússnesk herflugvél sem var skotin niður í upphafi stríðsins í Úkraínu. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það voru tæpar þrjár klukkustundir frá því að Vladímír Pútín hafði fyrirskipað rússneska hernum að ráðast inn í Úkraínu. Eins og engisprettuþyrping flugu þyrlurnar inn yfir Dnipro ána og tóku stefnuna á Antonov-flugvöllinn sem er norðvestan við Kyiv.

Hlutverk þyrlanna var að ráðast á flugvöllinn og flytja um 100 fallhlífahermenn þangað. Þetta var liður í að ná höfuðborginni Kyiv á vald Rússa í upphafi stríðsins og brjóta varnir Úkraínumanna aftur áður en þeir næðu að skipuleggja þær.

Fallhlífahermennirnir náðu fljótt fótfestu á flugvellinum, sem er á vesturbakka Dnipro, um 10 km frá borgarmörkum Kyiv og um 30 km frá miðborginni. Til varnar á flugvellinum voru aðeins nokkur hundruð léttvopnaðir hermenn úr þjóðvarðliðinu.

Síðar um daginn sýndi CNN myndir af því þegar fallhlífahermennirnir náðu fótfestu á flugvellinum og nágrenni hans á meðan þeir skiptust á skotum við Úkraínumenn.

Ekki var langt síðan innrásin hófst og nú var að sjá að með djarfri og stórri aðgerð hefði Rússum tekist að ná frumkvæðinu og koma sér fyrir á þröskuldinum við Kyiv.

Næsta skref Rússa var svo sem ekkert leyndarmál því vestrænar leyniþjónustustofnanir höfðu komist yfir áætlunin áður en af innrásinni varð og höfðu látið Úkraínumönnum hana í té. Flugvöllurinn átti að verða virki Rússa og ætluðu þeir að flytja mikið magn hergagna og fjölda hermanna þangað. Hermennirnir áttu síðan að sækja inn í Kyiv og ná alla leið inn í miðborgin.

„Þeir áttu að komast eins hratt inn í miðborg Kyiv og þeir gætu og draga rússneska fánanna að húni á stjórnarbyggingu,“ sagði John Spencer, bandarískur sérfræðingur, í samtali við Los Angeles Times.

Liðsmenn úrvalssveita hersins áttu að finna og taka lýðræðislega kjörna leiðtoga Úkraínu höndum eða taka þá af lífi. Á sama tíma átti liðsauki, þar á meðal herlögreglumenn, að kæfa andstöðu við hernámið. Herlögreglumennirnir voru þá á leið til Kyiv frá landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands og var reiknað með að þeir kæmu til Kyiv á fyrsta sólarhring innrásarinnar.

Þegar þar væri komið við sögu, væri búið að ryðja brautina fyrir að setja rússneska leppstjórn á laggirnar og hefjast handa við að kæfa alla andstöðu niður um allt land.

Áherslan var á að sækja hratt fram og ná stjórn á höfuðborginni á skömmum tíma, í raun staðfærð útgáfa af því sem Rússar gerðu á Krím 2014.

En fljótlega eftir að Rússar náðu Antonov-flugvellinum á sitt vald kom í ljós að þeir höfðu misreiknað sig illilega. Þeim tókst svo sem að ná flugvellinum á sitt vald en Úkraínumenn héldu uppi stöðugum árásum á flugvöllinn og það gerði að verkum að ekki var hægt að nota hann til að taka á móti liðsauka. Rússar héldu flugvellinum í nokkrar vikur en það gagnaðist lítið því Úkraínumenn höfðu náð að valda svo miklum skemmdum á honum að hann var í raun gagnslaus.

En Rússar sóttu ekki aðeins að flugvellinum því þeir réðust samtímis á Kharkiv, Donbas og svæði í suðurhluta landsins. Þetta var miklu stærri og meiri aðgerð en rússneski herinn réði við að mati sérfræðinga. Þeir teygðu svo mikið á birgðalínum sínum og stuðningskerfum hersins að þeir voru komnir að þolmörkum sagði Dara Massicot, hjá varnarmálahugveitunni Rand í Washington, í tímaritinu Foreign Affairs.

Hin metnaðarfulla en illa útfærða áætlun Rússa kom upp um veikleika rússneska hersins og gaf Úkraínumönnum færi á því snemma í stríðinu að gera stóran hluta af bestu hermönnum Rússa óvirka sem og mikið af hergögnum þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum