fbpx
Sunnudagur 08.september 2024
Fréttir

Sjáðu myndbandið: Litlu mátti muna að illa færi þegar Tesla lenti í árekstri við flutningabíl

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 27. desember 2023 14:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurjón Axel Guðjónsson birti fyrir nokkrum dögum færslu í Facebook-hópnum Tesla eigendur og áhugafólk. Með færslunni er meðal annars birt myndband þar sem sjá má Sigurjón sleppa naumlega við að lenda í alvarlegum árekstri við tengivagn flutningabifreiðar. Hann segir að Tesla-bifreið sín hafi bjargað lífi sínu. Sigurjón veitti DV góðfúslegt leyfi til að greina frá færslunni og birta myndbandið.

Ekki kemur fram í færslunni nákvæmlega hvaða dag atvikið átti sér stað en í samtali við fréttamann DV segir Sigurjón að það hafi átt sér stað um kl. 21 að kvöldi til. Sigurjón var að aka Teslu-bifreið sinni eftir hringveginum og var vestan við Blönduóss í rúmlega 20 mínútna akstursfjarlægð frá bænum. Nánar til tekið á norðurleið upp brekkuna upp af Vatnsdal.

Í myndbandinu sem tekið var á myndavél í mælaborði bifreiðar Sigurjóns má sjá að dimmt var á veginum. Hann mætir flutningabifreið en skyndilega má sjá að tengivagn hennar, sem er með flutningagámi ofan á, þverar veginn og harkaleg framanákeyrsla virðist nánast óumflýjanleg. Bifreið Sigurjóns beygir hins vegar snögglega út af veginum áður en til þess kemur en svo heppilega vildi til að vegurinn á þessum kafla er ekki í mikilli hæð.

Tesla-bifreið Sigurjóns slapp þó ekki alveg en tengivagninn rakst utan í hlið bílsins og hann er nokkuð skemmdur. Sigurjón segir í færslunni að hann hafi sloppið án meiðsla fyrir utan brunasár á öðrum handleggnum eftir loftpúða bifreiðarinnar.

Hér má sjá skemmdirnar sem urðu á Tesla-bifreið Sigurjóns. Mynd: Sigurjón Axel Guðjónsson/Facebook

Í athugasemd við færsluna útskýrir maður sem segist hafa sótt tengivagninn eftir atvikið nánar hvað varð til þess að vagninn þveraði veginn með þessum hætti:

„Það springur dekk/rifnar baninn. Sá bútur slæst í og slítur allar loftlagnir sem fara í hæðastillir og bremsuventilinn fyrir framan fremstu hýsingu á vagninum. Við það læsast öll hjól, og útkoman er að vagninn fer inn á veginn með hjólin læst.“

Ljóst er því að hér var um hreinræktað slys að ræða en alls ekki gáleysislegan akstur af hálfu bílstjóra flutningabifreiðarinnar. Af myndbandinu má ráða að hann hafi barist við að halda stjórn á bifreiðinni.

Í athugasemdum við færsluna kemur einnig fram að flutningabirfreiðin hafi ekki verið fulllestuð og öll þyngd í gámnum hafi verið að framanverðu og það hafi líklega orðið til þess að höggið á bifreið Sigurjóns varð ekki meira.

„Teslan bjargaði lífi mínu“

Í stuttu samtali við fréttamann DV tók Sigurjón sérstaklega fram að hann álasaði ekki bílstjóranum eða flutningafyrirtækinu en hann gagnrýnir þó að þungaflutningar fari að miklu leyti fram á þjóðvegum landsins. Ljóst er að lýsing á veginum var lítil. Sigurjón sá framljósin á flutningabifreiðinni þegar hann mætti henni en fremsti hluti hennar var réttu meginn á veginum og hann sá ekki tengivagninn fyrr en örskömmu áður en hann var við það að skella framan á Tesla-bifreiðinni.

Það er því ljóst að litlu mátti muna að stórslys yrði.

Sigurjón segir að Tesla-bifreiðin hafi bjargað lífi hans með því að líklega beygja sjálf örskömmu áður frá gámnum til hægri sem hafi minnkað höggið.  Hann bætir við:

„Einnig virkaði krumpusvæði að framan vel og styrktarbitar á hlið og á milli framrúðu og hliðarhurðar vel í að verja mig.  Mikill fjöldi loftpúða varði mig þannig að ég fann ekki fyrir högginu.  Bíllinn valt ekki við að skella á 28 tonna gámnum.  Heldur rann á hjólunum útaf og stöðvaðist örugglega.  Teslan náði að ýta gámnum af öfugum vegarhelming og út af hinum megin.“

Hann segir Tesluna hafa hringt um leið í neyðarlínuna og gefið upp gps-staðsetningu, stöðu bílsins og fjölda farþega sem hafi verið mjög gott þar sem hann hafi ekki fundið símann sinn.

Eins og áður segir slasaðist Sigurjón ekkert fyrir utan væg brunasár af völdum loftpúðanna og hann segir að öryggisrúður Tesla-bifreiðarinnar hafi forðað því að hann hafi skorist vegna glerbrota.

Myndbandið má sjá hér að neðan:

video
play-sharp-fill
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Opin minningarstund um Bryndísi Klöru

Opin minningarstund um Bryndísi Klöru
Fréttir
Í gær

Jón allt annað en sáttur við bankann sinn: „Ég þoli ekki hótanir og rís jafnan upp á afturfæturna ef mér er hótað“

Jón allt annað en sáttur við bankann sinn: „Ég þoli ekki hótanir og rís jafnan upp á afturfæturna ef mér er hótað“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íranar derra sig við Bandaríkin og Ísrael en loka samt ekki dyrunum

Íranar derra sig við Bandaríkin og Ísrael en loka samt ekki dyrunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bolli biðst afsökunar

Bolli biðst afsökunar
Hide picture