Síbrotamaðurinn Stefán Logi Sívarsson þarf að greiða sekt upp á 1.250.000 krónur innan fjögurra vikna ella sæta fangelsi í 44 daga. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 15. nóvember.
Í dómnum kemur fram að árið 2022 hafi lögreglan fundið talsvert magn fíkniefna á heimili Stefáns Loga við húsleit. Alls fann lögregla og gerði upptækt 71,55 grömm af amfetamíni, 14,19 grömm af kókaíni og 7 stykki af MDMA-töflum.
Stefán Logi játaði brot sitt skýlaust og honum var ekki gert að greiða sakarkostnað vegna málsins. Hins vegar var honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Páls Kristjánssonar, upp á 241.056 krónur.
Greint var frá því í vikunni að Stefán Logi situr nú í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði, sakaður um stórfellda líkamsárás. Hið meinta brot átti s´r stað í íbúð í Fellahverfinu í Breiðholti en Stefán Logi er þeirrar skoðunar að hann sitji saklaus í haldi.
Stefán Logi hefur ítrekað komist í kast við lögin en hefur þó haft hægt um sig undanfarin ár og ekki hlotið dóm í níu ár. Hann hlaut síðast átján mánaða fangelsisdóm árið 2014 í hinu svokallaða Stokkseyrarmáli sem vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Í félagi við samverkamenn sína frelsissvipti Stefán mann og pyntaði hann í hálfan sólarhring í húsi í bænum.