Ríkissaksóknari hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík um að fella niður rannsókn vegna kæru Margrétar Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttin.is, gegn Vali Arnarsyni, verkfræðingi og tónlistarmanni, um lífslátshótanir, og gert lögreglu að taka málið til frekari rannsóknar.
Margrét kærði Val og annan mann fyrir hótanir, þar á meðal líflátshótanir, í lok september árið 2022. Valur var í kjölfarið kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni. Tilefni kærunnar var prósaljóð sem Valur birti á Twitter og hann aftekur með öllu að hafi falið í sér hótanir né hafi með nokkrum hætti beinst gegn Margréti. Ljóðið er eftirfarandi:
Játning þess siðblinda:
„Ég ætla að kæra þig, en það er samt ekki satt, skiptir ekki máli enda er þessi hótun bara til að skapa hjá þér ótta um fjárhagslegt óöryggi. Lögfræðingurinn minn mun sjá um mál mitt fyrir mig
…sem er heldur ekki satt því ég er í raun ekki með neinn lögfræðing. En þú veit það náttúrulega ekki. Ég ætla líka að kæra þig til lögreglunnar fyrir það sem þú gerðir. Ég veit að það er ekki mögulegt en kannski veist þú það ekki.
Mér finnst í raun að lögreglan ætti alltaf að vinna með mér á móti þeim sem valda mér vandræðum. Ég veit að það sem þú sagðir gegn mér er rétt en það skiptir ekki máli. Ég ætla samt að skapa hjá þér nógu mikinn ótta
Málfrelsið mitt er mikilvægt vegna þess að ég hef alltaf rétt fyrir mér og er að vinna að málstað sem er samfélagslega mikilvægur. Ég ætti að geta sagt hvað sem er. Fólk eins og þú ætti hins vegar alltaf að fá á sig kæru þegar þið tjáið ykkur um mig og mína líka.
Þar sem réttarkerfið virkar ekki fyrir mig þá ætti ég í raun að beita þig ofbeldi. Ég ætti að hóta þér á þann hátt að þú óttist um heilsu þína, velferð og líf. Lögreglan ætti ekki að skipta sér af því.
Til vara ætla ég að skapa svo mikið hatur í þinn garð með plattforminu mínu að aðrir munu sjá um ofbeldið gegn þér, þá þarf ég ekki að óhreinka mína, nú þegar, skítugu sál. En allt á þetta rétt á sér og mun skapa hamingju í mínu litla og siðblinda hjarta“
Fram kemur í afstöðu ríkissaksóknara til málsins að inn í það hafi blandast rekstrarstjóri kaffihússins Cafe Roma í Kringlunni. Er staðhæft að þangað hafi verið sendar hótanir í garð Margrétar Friðriksdóttur, meðal annars: „Death to Margrét Friðriks“. Cafe Roma mun hafa borist hótunin frá öðrum kærðum aðila í öðru kærumáli Margrétar og ljóst er að Valur Arnarson sendi aldrei umræddan tölvupóst.
Margrét sakar hins vegar Val um að hafa hótað sér um margra mánaða bil á netinu með ýmsum hætti.
Ástæða þess að ríkissaksóknari ógildir ákvörðun lögreglunnar um að fella niður rannsóknina er sú að hann vill fá frekari rannsókn á því hvort og hvernig umræddar hótanir gegn Margréti hafi komið fram því ekkert sé um þær að finna í gögnum málsins.
Valur kannast við að hafa sent auglýsendum fyrirspurnir vegna samstarfs þeirra við netmiðilinn Fréttin.is sem Margrét rekur, en hann segir að þær fyrirspurnir hafi verið kurteislegar og ekki innihaldið örðu af hótunum.
Margrét, sem fyrr á árinu, var sakfelld fyrir hótanir í garð Semu Erlu Serdar árið 2018 og dæmd í skilorðsbundið fangelsi, segist ánægð með ákvörðun ríkissaksóknara um að halda rannsókn málsins áfram. Hún segir í samtali við DV:
„Ég er mjög ánægð með þá ákvörðun. Eðli málsins samkvæmt hljóta þessi mál að enda fyrir dómstólum þar sem lögreglan er búin að gefa fordæmi fyrir slíku í Semu málinu, þar var ég að svara fólki sem veittist að mér og um stutt rifrildi að ræða. En þessi tvö mál eru mun alvarlegri en það, stöðugt áreiti og líflátshótanir yfir margra mánaða tímabil.“
Segir Margrét að hinn kærði maðurinn hafi verið með líflátshótanir en Valur hafi verið með hótanir um líkamsmeiðingar. „Ég er með bunka af gögnum þar sem hann er að níðast á mér á netinu inni í einhverjum hópnum sem eru lokaðir og mér var sent.“
Valur kannast ekki við þetta og segist raunar bara hafa verið í einum lokuðum Facebook-hópi þar sem enginn gæti komist upp með slíkt athæfi. Hann kallar eftir gögnum um þessar meintu hótanir.
Valur segir gögn málsins sýna að hann hafi aldrei hótað Margréti enda beri hann engan kala til hennar. Honum þykir undarlegt að hafa stöðu sakbornings miðað við hvernig málavextir eru:
„Nú er ég sakborningur í máli þar sem ég er sakaður um hótanir í garð Margrétar Friðriksdóttur. Í fyrstu tók ég því þannig að hún hefði náð að kokka upp kæruna með því að skeyta saman tveimur ótengdum Twitter færslum þar sem ég er í annarri að skrifa prósa sem heitir „Játning þess siðblinda“ og í hinni að fjalla um frávísun Fjölmiðlanefndar á kvörtun minni til fjölmiðilsins Fréttarinnar. Þannig að málið væri í raun mjög einfalt og þegar ég fór síðast í skýrslutöku vegna þessa máls þá fór sú skýrslutaka aðallega í að útskýra hvernig þessir tveir textar tengdust engan veginn hvorum öðrum. En nú sé ég að málið er í raun mikið stærra og umfangsmeira en ég hafði áður haldið – og það sé ég eftir að ég fékk gögn málsins eftir að Ríkissaksóknari hafnaði frávísun lögreglunnar og sendi málið aftur í rannsókn. Ríkissaksóknari vill senda málið aftur í rannsókn vegna þess að Margrét hélt því fram í málinu að ég hefði hótað henni frá því í maí 2022, eða í einhverja 5-6 mánuði áður en ég er kallaður í yfirheyrslur. En það finnst engin hótun frá mér til hennar í málsgögnunum. Og hún finnst ekki einfaldlega vegna þess að ég hef aldrei hótað henni.
Það er líka fleira þarna sem er alveg út úr korti. Í byrjun málsgagna er ég sagður vera Árnason, sennilega svo hægt sé að tengja mig við einhvern annan sem hún hefur átt í útistöðum við. Sá er nefnilega Árnason. Okkar málum er hrært saman og dregnir upp einhverjir tölvupóstar sem þessi aðili á að hafa sent til Café Roma, eitthvað mál sem kemur mér í raun ekkert við. Þarna dregið fram vitni, í mínu máli, einhver Zoran rekstrarstjóri í Café Roma. Maður sem ég kann engin deili á. Hann segir líka í skýrslutöku að hann viti ekkert hver ég er og haldi að ég hafi ekki hótað neinum. Þetta er eins og að vera búinn að æfa í heilt sumar undir Dýrin í Hálsaskógi og mæta svo á svið þar sem maður á að leika í Macbeth. Ég skil svo sem vel afstöðu Ríkissaksóknara en að lögreglan hafi byrjað með þetta bullmál gegn mér er algjörlega óskiljanlegt. Ef þetta fordæmi er sett þá getur hver sem er sem ég hef þrasað við á netinu mætt þarna upp á stöð og kært mig á grundvelli þessa prósa. Það yrði nú meira bíóið. Lögreglan myndi sennilega ekki gera neitt annað en að rannsaka þessa ljóðagerð mína.
Annars grundvallast reiði Margrétar í minn garð á tölvupóstum sem ég sendi fyrirtækjum sem voru að auglýsa hjá Fréttinni. Stuttu eftir það birtist mér hótun frá Margréti í Messenger skilaboðum þar sem hún sagði að ég yrði kærður fyrir rógburð gegn fyrirtækinu hennar. Ég svaraði þessu auðvitað ekki, einfaldlega vegna þess að þetta er ekki svaravert. Þegar hún sér svo þennan prósa þá sér hún leik á borði að ná sér niður á mér, og misnotar réttarkerfið í þeim gjörningi. Þetta mál er því algjörlega tilefnislaust eins og augljóst er á málsgögnunum. Sjálfur hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu. Er nú meira að spá í þeim tíma sem lögreglan er að eyða í þetta drama leikrit.“
Valur bætir því við að hann beri engan kala til Margrétar og hafi aldrei gert það, hann persónugeri ekki deilur um pólitísk málefni, en hann og Margréti hefur greint mjög á um pólitísk og þjóðfélagsleg álitamál.
Honum finnst líka rétt að það komi fram að „Café Roma var ekki auglýsandi hjá Fréttinni þegar ég sendi tölvupóstana á auglýsendur. Þeir tölvupóstar sem ég sendi á þessi fyrirtæki voru líka hófstilltir og innihéldu að mestu fyrirspurnir. Fyrir þá sem vilja kynna sér innihald þeirra þá er skjáskot af þeim í umfjöllun Fréttarinnar um málið.“
Valur hvetur ennfremur áhugasama um að kynna sér prósaljóðið hans sem varð tilefni til kæru Margrétar á hendur honum. Berlega komi í ljós að sá texti beindist ekki gegn neinni nafngreindri manneskju:
„Það geta auðvitað allir sem hafa áhuga á því að kynna sér sannleikann í þessu máli farið á Twitter og slegið inn í leitina – „Játning þess siðblinda“. Þá kemur bersýnilega í ljós að þar er engin nefndur á nafn, hvorki Margrét né nokkur annar. Enda hefur hún engan rétt til þess að klippa textabrot úr textum á samfélagsmiðlum og ákveða að það sé hótun til sín, þar sem nafnið hennar kemur hvergi þar fram. Margrét býr ekkert í hausnum á mér frá degi til dags. Ekkert frekar en aðrir sem ég þrasa við á netinu.“