fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Fréttir

Sjúkraskrármálið – Segir embætti landlæknis hafa krafist þess að konan sem sendi inn kvörtun rannsakaði málið sjálf

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 26. júlí 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kröfur embættis landlæknis um upplýsingagjöf frá konu sem kærði meintar ólöglegar uppflettingar í sjúkraskrá sinni til embættisins eru svo miklar að þær jafngilda því að hún rannsaki málið sjálf. Þetta er mat Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns konunnar.

DV greindi frá því síðastliðinn sunnudag að Landspítalinn og embætti landlæknis hefðu verið kærð til Persónuverndar fyrir ófullnægjandi umsjón og eftirlit með vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, vegna sjúkraskrár konu sem er læknir og þurfti að leggjast inn á Landspítalann vegna heilsubrests. Enn fremur eru sex læknar kærðir fyrir meintar tilefnislausar og ólöglegar uppflettingar í sjúkraskrá konunnar.

Konan sendi sjálf kvörtun til landlæknis vegna uppflettinga læknanna í byrjun nóvember árið 2021. Í erindinu tilgreindi hún fjölda og dagsetningar uppflettinganna, sem og nöfn viðkomandi lækna. Í viðhengjum sendi hún útprentuð yfirlit yfir uppflettingarnar úr gagnagrunni sjúkraskráa Landspítalans.

Ekkert hefur gerst í málinu af hálfu embættis landlæknis síðan þá nema að embættið hefur krafið konuna um ítarlegri upplýsingar um uppflettingarnar. Í tölvupósti sem þáverandi lögmaður konunnar fékk fjórum dögum eftir að hún sendi erindið til embættisins segir Jóhanna Helga Halldórsdóttir, lögmaður hjá embættinu, að setja þurfi kvörtunina betur fram. Í tölvupósti Jóhönnu segir:

„Embættið getur ekki unnið lista upp úr þessum listum sem þið sendið með. Það koma ekki fram skýringar á uppflettilistanum en hefur verið óskað eftir skýringum á einhverjum af þessum uppflettingum? Er allt þetta fólk starfandi á LSH? Það þarf nefnilega að óska greinargerðar frá hverjum og einum og í því sambandi þarf að senda þeim gögnin sem þið senduð embættinu.“

DV hefur kvörtun konunnar til landlæknis undir höndum og þar koma skýrt fram nöfn viðkomandi lækna og dagsetningar allra uppflettinganna. Ráða má þó af tölvupóstinum frá lögfræðingi embættisins að þessar upplýsingar vanti. Lögmaður konunnar, Sveinn Andri, telur fjarstæðukennt af hálfu embættisins að beina því til kærandans að fá greinargerðir frá hverjum og einum lækni sem kvartað er undan og senda þeim gögnin sem konan sendi embætti landlæknis. „Þetta stappar nærri sturlun,“ segir Sveinn Andri í samtali við DV. „Það er ætlast til þess að kærandinn fari að rannsaka málið sjálfur og yfirheyra þá sem kvartað er undan.“

Í tölvupóstsamskiptum Sveins Andra og Jóhönnu, sem áttu sér stað skömmu áður en Sveinn Andri kvartaði til Persónverndar fyrir hönd konunnar, ítrekar Jóhanna fyrri staðhæfingar um að skýrari upplýsingar vanti í erindi konunnar. Henni og þáverandi lögmanni hennar hafi verið gerð grein fyrir því að vinna þyrfti málið betur í hendur landlæknis en engin frekari gögn hafi borist embættinu.

Í svari sínu hafnar Sveinn Andri þessum fullyrðingum og segir kvörtun konunnar hafa verið skýra, sem og fylgiskjölin með henni. Fram komi hvaða heilbrigðisstarfsmenn fóru inn í sjúkraskrána hennar og hvenær. Ennfremur hafi hún gert grein fyrir því að viðkomandi hafi ekkert erindi haft í skrána hennar.

Broti viðkomandi sé nákvæmlega lýst í erindi konunnar og gögnum málsins, hvernig og hvenær brotið átti sér stað, og brotavettvangurinn sé sjúkraskráin sjálf. „Þetta getur ekki orðið skýrara,“ skrifar Sveinn Andri. Hann bætir síðan við að konan geti ekki sjálf farið að yfirheyra það fólk sem fór inn í sjúkraskrána hennar.

Skylda landlæknis að rannsaka mál til hlítar

DV hafði samband við Láru Herborgu Ólafsdóttur, lögmann hjá LEX og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sem er sérfræðingur í stjórnsýslurétti og persónuvernd, kynnti henni málið og óskaði eftir áliti á þeirri stjórnsýslu embættis landlæknis sem hér hefur verið lýst. Hún segir að miðað við þá atvikalýsingu sem undir hana hafi verið borin virðist pottur brotinn í stjórnsýslulegri meðferð málsins á vettvangi landlæknis. Þegar leitað sé til eftirlitsstjórnvalda sé það á þeirra forræði að rannsaka mál með fullnægjandi hætti svo ákvarða megi hvort brotið hafi verið á rétti kæranda. Slíkt leiði af stjórnsýslulögum, svo og eftirlitsskyldu embættisins samkvæmt lögum um sjúkraskrár.

Í tilvikum þar sem sjúklingar leiti til landlæknis hvíli sú skylda á embættinu að rannsaka málin með viðhlítandi hætti, svo sem með því að afla upplýsinga um ástæðu uppflettinga í sjúkraskrám og bera undir þá er kæra beinist að hvaða ástæður hafi búið að baki uppflettingunum. Í kjölfarið á því skuli bera andsvörin undir kæranda og að því loknu sé ákvörðun tekin. Slík mál ættu að vera fremur einföld í rannsókn en eðli málsins samkvæmt hafi almennir borgarar landsins ekki rannsóknarheimildir gagnvart læknum eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum heldur sé það vald falið landlækni. Sinni landlæknir ekki því eftirlitshlutverki sínu sé það athugunarvert enda eigi embættið að vera brjóstvörn sjúklinga gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum vakni grunur um lagabrot við veitingu heilbrigðisþjónustu.  Þá segir Lára Herborg að það veki sérstaka eftirtekt hve langan tíma málið hafi verið á borði embættisins, án nokkurs framgangs að því er virðist. Slíkt sé hvorki í samræmi við stjórnsýslulög né vandaða stjórnsýsluhætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán Einar saumaði að Höllu Tómasdóttur – „Varst þú blind á hætturnar og þennan hrylling sem var að hlaðast upp?“

Stefán Einar saumaði að Höllu Tómasdóttur – „Varst þú blind á hætturnar og þennan hrylling sem var að hlaðast upp?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Finna ekki mann sem var með yfir 40 þúsund evrur á sér

Finna ekki mann sem var með yfir 40 þúsund evrur á sér
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórunn er með áfengisnetverslanir í sigtinu

Þórunn er með áfengisnetverslanir í sigtinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grafarvogsbúar þreyttir á hægri rétti – „Er ekki soldið spes að lögreglan gefi bara skít í þessa reglu líka?“

Grafarvogsbúar þreyttir á hægri rétti – „Er ekki soldið spes að lögreglan gefi bara skít í þessa reglu líka?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Diljá vill að RÚV haldi aftur af sér – „Spurn­ing­in er hvar Rík­is­út­varpið dúkk­ar upp næst“

Diljá vill að RÚV haldi aftur af sér – „Spurn­ing­in er hvar Rík­is­út­varpið dúkk­ar upp næst“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkamsræktarstöð hirti ekki um að skipta út 10 ára gömlum ströppum sem endaði með ósköpum

Líkamsræktarstöð hirti ekki um að skipta út 10 ára gömlum ströppum sem endaði með ósköpum