fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Fréttir

Læknirinn í eldhúsinu og fimm aðrir læknar kærðir til Persónuverndar vegna meintra ólöglegra uppflettinga í sjúkraskrá konu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 23. júlí 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona á fertugsaldri, sem er læknir, hefur sent inn kvörtun til Persónuverndar sem varðar Landspítalann, Embætti landlæknis og sex lækna. Sakar hún Landspítalann og Landlækni um ófullnægjandi umsjón og eftirlit með viðkvæmum persónuupplýsingum. Ennfremur sakar konan sex kollega sína um tilhæfulausar uppflettingar í sjúkraskrá sinni, en konan segir viðkomandi lækna ekkert hafa haft að gera með meðferð hennar og ekkert tilefni haft til að fletta henni upp í skránni.

„Mál þetta snýst um það að kærandi, sem er læknir, en þurfti að leita sér lækninga á LSH í nokkur skipti, komst á snoðir um það að hinir kærðu læknar, sem ekkert höfðu með meðferðir hennar að gera á LSH, voru að fletta henni þráfaldlega upp í sjúkraskrá,“ segir í kvörtun lögmanns konunnar, Sveins Andra Sveinssonar, til Persónuverndar. Erindið er dagsett þann 30. júní síðastliðinn en málið á sér töluvert lengri sögu. Konan kvartaði margsinnis undan uppflettingunum við stjórnendur á Landspítalanum, allt frá árinu 2017, og í nóvember árið 2021 sendi hún kvörtun til Embættis Landlæknis vegna málsins. Andvaraleysi hefur einkennt viðbrögð þessara stofnana við erindi konunnar og það er meginástæðan fyrir kæru hennar til Persónuverndar á hendur þeim, á meðan kæran gegn læknunum sex snýst um meintar tilhæfulausar flettingar þeirra í sjúkraskrá hennar.

Meðal læknanna sex er Ragnar Freyr Ingvarsson, lyf- og gigtarlæknir, og framkvæmdastjóri Gigtarmiðstöðvar Íslands. Ragnar er landsþekktur matgæðingur og hefur gengið undir viðurnefninu Læknirinn í eldhúsinu. Hann er einnig þekktur fyrir framlag sitt til þjóðfélagsumræðu og hefur birt marga pistla um heilbrigðismál sem hafa vakið athygli. Þess skal getið að Ragnar neitar þessum ásökunum en yfirlýsing hans vegna málsins er birt neðst í fréttinni.

Vill að málið verði kært til lögreglu

Málsatvik eru rakin svo í kærunni til Persónuverndar (styttingar hér á eftir eru: pvl=persónuverndarlög, LSH=Landspítali, EL=Embætti landlæknis):

„Kærandi lét LSH vita af þessum óheimilu uppflettingum en stjórnendur spítalans brugðust í engu við. Brá hún því á það ráð að senda kæru til EL, sbr. bréf dags. 5. nóvember 2021. Lögfræðingur EL tilkynnti kæranda að rannsókn yrði hafin og að málið hefði fengið númer. Í framhaldinu fór lögfræðingur þessi að kalla eftir uppfærðum skrám yfir uppflettingar, þrátt fyrir að upplýsingar um uppflettingar væru mjög nákvæmar, sbr. kærubréfið og uppflettilistana sem því fylgdu, sbr. fskj. 1 til 5.

Kærandi byggir á því að LSH sem ábyrgðaraðili í skilningi 23. gr. pvl hafi ekki gripið til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana til að tryggja vernd hinna persónulegu viðkvæmu upplýsinga sem skráðar eru og varðveittar í sjúkraskrá. Er ekki annað að sjá en heilbrigðisstarfsfólk sem ekkert hefur með málefni sjúklings að gera í sínu starfi geti eftirlits- og átölulaust vafrað um sjúkraskrá og hnýzt um viðkvæmar persónuupplýsingar skjóstæðinga spítalans. Kærandi telur LSH og EL hafa gerst brotleg við pvl með því að hunza kæru og kvartanir kæranda vegna þeirra ámælisverðu öryggisbresta sem áttu sér sannarlega stað á LSH.

Er þess krafist að Persónuvernd rannsaki öryggisbrot þessi, vanrækslu fyrirsvarsmanna LSH og EL á eftirliti með brotum heilbrigðisstarfsmanna LSH við meðferð sjúkraskrár, sem og brotin sjálf hjá nefndum læknum og eftir atvikum verði brot viðkomandi einstaklinga kærð til lögreglu.“

Kveðið er á um takmörkun aðgangs að sjúkraskrám víða í lögum og reglugerðum, meðal annars í 13. grein laga um sjúkraskrár. Þar kemur skýrt fram í fyrstu og annarri málsgrein að aðgangur að sjúkraskrám sjúklings skal takmarkast við þá heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð hans. Málsgreinarnar tvær eru eftirfarandi:

„Heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að sjúkraskrá sjúklingsins með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim. Umsjónaraðili sjúkraskráa getur veitt öðrum starfsmönnum og nemum í starfsnámi í heilbrigðisvísindum, sem undirgengist hafa sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn og koma að meðferð sjúklings, heimild til aðgangs að sjúkraskrá hans að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfa þeirra í þágu sjúklingsins.

Aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum, þ.e. sjúkraskrárupplýsingum sem sjúklingurinn sjálfur telur að flokka beri sem slíkar, skal takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn sem nauðsynlega þurfa upplýsingarnar vegna meðferðar sjúklingsins. Skal aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum að jafnaði takmarkaður við þá heilbrigðisstarfsmenn sem starfa innan þeirrar einingar eða deildar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem meðferð er veitt. Aðgangur annarra heilbrigðisstarfsmanna að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum er óheimill nema með samþykki sjúklings. Heimilt er að víkja frá framangreindum aðgangstakmörkunum ef það telst nauðsynlegt vegna öryggis heilbrigðisstarfsmanna. Ráðherra skal í reglugerð sem hann setur skv. 24. gr. kveða nánar á um aðgang að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum.“

Bað sérstaklega um að viðkomandi læknar kæmu ekki að meðferð sinni

Af læknunum sex sem konan sakar um tilhæfulausar uppflettingar í sjúkraskrá sinni voru þrír þeirra fyrrverandi samnemendur hennar í læknanámi í Ungverjalandi, allt konur. Konunni vitanlega höfðu þær aldrei komið nálægt meðferð hennar og höfðu ekkert tilefni til að skoða sjúkraskrá hennar.

Hinir þrír læknarnir eru allir eldri og reyndari. Er þar um að ræða tvær konur og Ragnar Frey, sem er eini karlmaðurinn í hópnum. Öll eiga það sameiginlegt að konan hafði, af mismunandi ástæðum, óskað ákveðið og eindregið eftir því að þau kæmu ekki nálægt meðferð hennar.

Af þessum þremur fletti Ragnar henni oftast upp. Hann hafði verið læknir hennar áður en hafði ekki komið nálægt meðferðum hennar frá árinu 2019. Við innlögn í júní árið 2021 bað konan sérstaklega um það að Ragnar kæmi ekki að meðferð hennar. Ástæður þess voru meðal annars deilumál sem þau og fleiri aðilar tengjast og verða ekki rakin í bili.

Konan tilgreinir sérstaklega í kvörtun sinni til Embættis landlæknis að Ragnar hafi flett upp sjúkraskrá hennar margítrekað í október 2021 þegar hún var ekki inniliggjandi á Landspítalanum og átti hún ekki við veikindi að stríða á þeim tíma.

Einnig vekur athygli að þegar einn kvenlæknanna fletti upp í skrá konunnar var sá læknir við störf á COVID-göngudeildinni í Fossvogi á meðan konan lá á Landspítalanum við Hringbraut.

Viðbragðaleysi Landspítalans og Embættis landlæknis

Konan kvartaði margsinnis vegna hinna meintu tilhæfulausu uppflettinga við yfirmenn á Landspítalanum, meðal annars við framkvæmdastjóra lækninga á LSH. Kvartanir hennar ná allt aftur til ársins 2017, en til ársins 2021 hvað varðar þær uppflettingar sem hér eru sérstaklega tilgreindar. Landspítalinn hefur, þrátt fyrir fyrirheit um annað til konunnar, aldrei brugðist við kvörtunum og ekki sett málið með neinum hætti í formlegan farveg.

Í nóvember árið 2021 sendi konan síðan skriflega kvörtun til Embættis landlæknis þar sem hún rakti skipulega hinar meintu tilhæfulausu uppflettingar í sjúkraskrá hennar og lýsti viðbragðaleysi Landspítalans í málinu. Embætti landlæknis hefur ekki aðhafst í málinu að öðru leyti en því að krefja konuna um sífellt nánari upplýsingar um uppflettingarnar, jafnvel upplýsingar sem hafa borist frá henni áður, að sögn lögmanns hennar. Málið hefur því verið nánast ósnert hjá embættinu í meira en eitt og hálft ár og því beinist kvörtun konunnar einnig gegn Embætti landlæknis.

Segir úrskurðar að vænta frá Eftirlitsnefnd um rafrænar sjúkraskrár

Við vinnslu þessarar fréttar ræddi DV stuttlega við Runólf Pálsson, forstjóra Landspítalans. Segir Runólfur málið komið inn á borð Eftirlitsnefndar um rafrænar sjúkraskrár sem, að sögn hans, mun rannsaka þessar uppflettingar ítarlega. Tilefni þess að Landspítalinn vísaði málinu til nefndarinnar var kvörtun konunnar til Persónuverndar, en Sveinn Andri, lögmaður hennar, sendi afrit af erindinu til forstjóra Landspítalans.

Runólfur segir mörg dæmi um að uppflettingar sem virðast tilhæfulausar eigi sér eðlilegar skýringar og séu lögmætar. Til dæmis þegar sjúklingur óskar eftir tilteknum lyfjum hjá vakthafandi lækni, þá er nauðsynlegt fyrir viðkomandi lækni að kanna sjúkrasögu viðkomandi.

„Við tökum þessi mál mjög alvarlega og það hafa komið upp mál þar sem eftirlitsnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilhæfulausar uppflettingar hafi átt sér stað. Slíkt er brot í starfi,“ segir Runólfur. Hann staðhæfir að eftirlitsnefndin sé óháð og meðal annars skipuð lögfræðingum. Nefndin er þó skipuð af  framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum og meðal nefndarmanna eru starfsmenn Landspítalans.

En hver er skýringin á því að málið er fyrst að koma inn á borð forstjóra Landspítalans fyrir nokkrum vikum? Hátt í tvö ár eru síðan konan sendi formlega kvörtun til Embættis landlæknis og þar áður hefði hún kvartað munnlega og skriflega (í tölvupósti m.a.) við stjórnendur hjá Landspítalanum. Runólfur telur að málið hafi í raun dagað uppi hjá Embætti landlæknis en þar sem engar formlegar kvartanir bárust Landspítalanum vegna hinna meintu tilhæfulausu uppflettinga fór það aldrei í farveg innan Landspítalans. Stjórnendur innan LSH sögðu þó við konuna að hún ætti ekki að þurfa að rannsaka sín mál sjálf og því má spyrja hvort það hafi ekki verið skylda þeirra að koma rannsókn á málinu í farveg um leið og hún kvartaði, þó kvartanirnar hafi verið óformlegar.

Ekki liggur fyrir hvenær úrskurður Eftirlitsnefndar um rafrænar sjúkraskrár verður kveðinn upp og bendir Runólfur á að málið hafi komið til kasta nefndarinnar á sumarleyfistíma og það tefji ferlið. Má þó búast við að úrskurðað verði í málinu með haustinu.

Spyr hvort það sama gildi ekki um lækna og aðra starfsmenn

„Það liggur fyrir skjalfest að núverandi forstjóri LSH, Runólfur Pálsson og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, hafa vitað af þessum ólögmætu uppflettingum síðan í ársbyrjun 2021; ef ekki fyrr. Þrátt fyrir það var ekkert gert; ýmist hefur því verið borið við að athugun hafi byrjað eða málið gleymst,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður konunnar. Hann telur að stjórnendum á Landspítalanum hafi borið að koma málinu í formlegan farveg um leið og konan leitaði til þeirra, það hafi ekki verið í hennar verkahring.

„Málið er að yfirstjórn LSH, sem umsjónaraðila gagnagrunnsins, ber að fylgja eftir öllum ábendingum sem fram koma um óheimilar uppflettingar í sjúkraskrá. Það þarf ekki formlega kvörtun. Þekkt er tilvik þar sem tveimur hjúkrunarfræðingum var sagt upp störfum snemmhendis eftir að upp komst um uppflettingar. Maður spyr sig hvort ekki gildi sömu reglur um allar starfstéttir,“ segir Sveinn Andri ennfremur.

Svar Ragnars Freys

DV bar málið undir Ragnar Frey Ingvarsson, sem eins og fyrr segir, er einn þeirra sex lækna sem konan sakar um tilhæfulausar uppflettingar í sjúkraskrá sinni. Svar Ragnars er eftirfarandi:

„Þar sem DV hefur skýrt mér frá nafni þess sjúklings sem ber mig þeim sökum að hafa með ólögmætum hætti skoðað sjúkraskrá sína get ég staðfest að viðkomandi einstaklingur var um árabil sjúklingur minn. 

Það er því ekkert óeðlilegt við það að yfirlit um nöfn heilbrigðisstarfsmanna, sem skoðað hafa sjúkraskrá þessa sjúklings sýni mitt nafn. Það gefur raunar auga leið að nafn mitt sé að finna í slíkri skrá því það er hluti af minni vinnu og starfsskyldum í þágu sjúklinga minna að skoða sjúkraskrá þeirra og skrá í sjúkraskrána upplýsingar um meðferð viðkomandi. 

Það er mikilvægt að sjúklingar geti treyst því að heilbrigðisstarfsfólk umgangist viðkvæm gögn, líkt og sjúkraskrár, með fagmennsku að leiðarljósi. Ég tel mig í öllum störfum mínum leggja mikinn metnað í að fylgja öllum reglum sem gilda um aðgang að sjúkraskrám.

Komi upp spurningar um óheimila skoðun á sjúkraskrá eins og þessi sjúklingur er að gefa í skyn hvað mig varðar, þá er málið sett í skýran skoðunarferil til að leiða í ljós hvort um eitthvað slíkt hafi verið að ræða. Ég geri ráð fyrir að þessi sjúklingur hafi sett þetta mál í slíkan farveg hjá til þess bærum aðilum.

Ég get hins vegar staðfest að ég hef aldrei fengið fyrirspurnir frá eftirlitsaðilum með sjúkraskrám um meinta óheimila skoðun mína að sjúkraskrám sjúklinga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað