Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Björn Sigurðsson í sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og rán gagnvart leigubílstjóra í höfðuðborginni. Árásin átti sér stað í Breiðholti aðfaranótt mánudagsins 2. nóvember 2020 en fyrir dómi lá hljóð- og myndupptaka af atvikinu úr bifreið leigubílstjórans sem og fyrir framan hana.
Sést þar maður koma gangandi og setjast inn í leigubílinn. Hann biður um að fá að nota síma leigubílstjórans sem neitar því og vill síðan vísa honum úr leigubifreiðinni. Maðurinn tekur því illa og togar leigubílstjórinn þá í hann til að reyna að koma honum út. Þegar þeir eru komnir úr bifreiðinni má heyra að átök brjótast út milli þeirra og að mann spyrja hvar peningarnir séu. Skömmu síðar gengur hann fram fyrir bifreiðina og virðist þá hafa veski í hendinni.
Var Björn ákærður fyrir að hafa „ráðist með ofbeldi að leigubílstjóranum svo hann féll í götuna, sparkað og slegið í andlit hans, sparkað í hægri öxl hans og í framhaldinu leitað fjármuna í seðlaveski sem leigubílstjórinn hafði í rassvasa sínum og því næst tekið 15-20.000 kr. úr seðlaveski sem geymt var í bifreiðinni. Allt með þeim afleiðingum að leigubílstjórinn hlaut mar í kringum augu beggja vegna, hruflur á andliti, mar á hægri öxl, mar og marbólgu yfir hægra handarbaki, hruflsár á fingrum hægri handar, mar innan í lófa hægri handar, mar á vinstri hönd og tognun á hálshrygg.
Björn neitaði sök í málinu og kvaðst ekki hafa verið sá sem réðst gegn leigubílstjóranum. Lögreglan aflaði ýmissa gagna meðal annars ljósmynda úr verslun í Vesturbergi síðar um morguninn sem Björn viðurkenndi að lokum að væri af sér. Var hann þá í sambærilegum fötum og sá sem réðst gegn leigubílstjóranum en Björn sagði það helbera tilviljun. Þá vildi til að lögregla hafði nokkru fyrr haft afskipti af Birni á Dalvegi í Kópavogi þar sem hann var í annarlegu ástandi. Bar lögreglumaður vitni fyrir dómi og sagði að ekki færi milli mála að maðurinn í leigubílnum væri sá sami og hann hafði haft afskipti af fyrr um daginn.
Dómari komst að þeirri niðurstöðu að það væri hafið yfir allan vafa að Björn hefði gerst sekur um árásina. Framburður leigubílstjórans hafi verið trúverðugur og átt sér stoð í myndbandsupptöku af atvikinu en á sama tíma hafi framburður Björns verið ótrúverðugur og reikull. Hann ætti sér engar málsbætur enda hefði árásin verið tilefnislaus og ófyrirleitin.
Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils Björn sem sjö sinnum hefur verið gerð refsing, þar af þrisvar vegna ofbeldisbrota. Síðast var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi árið 2022 fyrir brot í nánu sambandi sem skapaði honum hegningarauka.
Var Björn því, eins og áður segir, dæmdur í sex mánaða fangelsi og gert að greiða miskabætur upp á 716.290 krónur. Þá var honum gert að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, lögmanns, 451.980 og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Sifjar Thorlacius lögmanns, 300.000 krónur, og 25.370 krónur í annan sakarkostnað.