Þann 2. mars næstkomandi verður aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði í máli manns sem ákærður er fyrir kynferðislega áreitni. Þinghald í málinu er lokað sem bendir til að málið sé viðkvæmt.
Meint brot var framið fyrir rétt um ári síðan, eða 20. febrúar árið 2022, aðfaranótt sunnudags. Maðurinn er sakaður um eftirfarandi háttsemi gagnvart konu inni á salerni íbúðar á ótilteknum stað: Strokið andlit og varir konunnar, ítrekað fært hendur sínar undir föt hennar og snert brjóst hennar innanklæða, gripið um og þuklað kynfæri hennar utanklæða og strokið rass hennar utanklæða. Hann er auk þess sakaður um að hafa, þessa sömu nótt, káfað á rassi konunnar í bíl sem var á ferð.
Héraðssaksóknari ákærir í málinu og krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Konan krefst tveggja milljóna króna í miskabætur.