23.000 tonn af þorski voru flutt til Bretlands 2020. Stór hluti íslenska fisksins fer í þjóðarréttinn og endar djúpsteiktur, vafinn inn í dagblað með frönskum kartöflum og tómatsósu. Fréttablaðið skýrir frá þessu.
En 40% af þeim fiski sem Bretar nota í þjóðarréttinn kemur frá Rússum og helmingurinn af steikingarolíunni frá Úkraínu sem er stórframleiðandi sólblómaolíu. Það er þegar ástandið er eðlilegt en það er það ekki núna.
CNN hefur eftir Andrew Crook, forseta NFFF sem eru samtök breskra fisksteikjenda, að allt sé að hækka og hætta sé á að fisksalarnir verðleggi sig út af markaðnum vegna þess og versnandi lífskjara almennings.
Að mati Breta á fiskur og franskar að vera ódýr matur en nú hefur verðið á einum skammti hækkað úr 7 pundum í 8,5.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.