fbpx
Fimmtudagur 27.janúar 2022
Fréttir

Öll börn nema tvö verðlaunuð við útskrift úr grunnskóla: „Þetta er með því ljótara sem ég hef séð“

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 14. júní 2021 20:00

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Af átta nemendum sem útskrifuðust úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri á dögunum voru sex þeirra kallaðir upp á svið og fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur eða dugnað og eljusemi. Tvö börn sátu eftir og fengu enga viðurkenningu.

Sú hefð hefur skapast í fjölda skóla að veita ekki aðeins viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur við útskrift heldur hafa bæst við ýmsar aukaviðurkenningar, hvatningarverðlaun og fleira.

DV náði tali af foreldrum barnanna tveggja sem sátu eftir í sal Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri á þessum merku tímamótum í þeirra lífi – útskrift úr grunnskóla.

„Skólinn gefur sig út fyrir að berjast gegn einelti og mismunun barna. Þá gefur vel að skilja undrun mína og særindi þegar barnið mitt, ásamt einu öðru barni, sat eftir til hliðar á meðan allir bekkjarfélagarnir voru kallaðir upp á svið við mikil fagnaðarlæti og voru teknar myndir af þeim með verðlaunin sín,“ segir móðir annars barnsins.

Skólaslitin fóru fram miðvikudaginn 9. júní og útskrifuðust þá átta nemendur úr 10. bekk skólans.

Verðlaun fyrir allt milli himins og jarðar

Mamman segir þetta hafa verið afar fjölbreytilegar viðurkenningar og verðlaun. „Mér finnst eðlilegt að veita verðlaun fyrir afburða námsárangur en þarna voru veitt verðlaun fyrir allt milli himins og jarðar, og samt voru tvö börn skilin eftir með brotna sjálfsmynd – börn sem hafa líka lagt mikið á sig í skólanum og verið til staðar fyrir félaga sína þó á móti blási.

Þetta er með því ljótara sem ég hef séð og flokkast sem gróft ofbeldi. Ég væri alveg á sömu skoðun þó minn afleggjari hefði fengið þorrann af þessum verðlaunum. Þarna voru krakkar sem hafa lagt allan sinn metnað og styrk í að gera sitt allra besta. Þau þurftu að sitja ein eftir, horfa niður fyrir sig með krumpað bros og halda andliti þar til þau voru komin út í bíl,“ segir móðirin.

Viðkomandi bendir á að það sé ekki til þess gert að styrkja börn af hálfu grunnskólans þeirra að bókstaflega útiloka þau á þennan hátt og segir mikilvægt að svona lagað gerist aldrei aftur, hvorki í þessum skóla né öðrum.

Skortur á mannlegri virðingu

„Krakkar eru með mismunandi bakgrunn. Kannski eru þau með ADHD, lesblindu eða talnablindu. Kannski er erfitt heima fyrir, kannski glíma þau við áfallasögu eða kvíða. Þetta er ekki það sem ungmennin okkar eiga að fá sem veganesti út í lífið. Nú er skaðinn skeður fyrir þessi börn og það þýðir ekkert að segja sorrí. Skólastjórnendur þurfa að girða sig í brók. Þetta átti aldrei að geta gerst. Meira að segja ég, kona sem varla kláraði grunnskóla, veit að almenn skynsemi og mannleg virðing hefði átt að koma í veg fyrir að þetta myndi eiga sér stað. Það er sorglegt að verða vitni að svona einelti við útskrift barnsins síns,“ segir mamman.

Átti að vera frábær dagur

Móðir hins barnsins segir barnið sitt hafa borið sig vel þrátt fyrir að hafa  ekki liðið þannig. „Ég hélt á tímabili að þau yrðu kölluð upp líka fyrir eitthvað en sá svo að þau sátu bara áfram. Ég gat ekkert gert nema sitja áfram og vera stuðningur fyrir mitt barn enda áttum við eftir að fara með hópnum út að borða. Þessi dagur átti að vera einn sá besti þar sem þetta var útskrift úr grunnskóla. Þetta atvik kom okkur hins vegar úr jafnvægi og varð til þess að vekja hjá okkur vanlíðan,“ segir hún.

Þessi móðir tekur fram að bæði börnin hafi margt gott til brunns að bera og ekki hefði átt að vefjast fyrir skólastjórnendum að finna eitthvað til að veita þeim viðurkenningu fyrir til að þau sætu ekki eftir ein.

„Ég er bæði döpur og reið fyrir þeirra hönd. Ég er ótrúlega stolt af mínu barni sem er góð, traust og hæfileikarík manneskja,“ segir hún.

Engin afsökunarbeiðni geti bætt skaðann

„Ég vil að það komi skýrt fram að barninu þykir mjög vænt um kennarann sinn og skólastjórnendur. Fyrir utan þetta atvik var dagurinn mjög fallegur, segir hún.

Báðar þessar mæður hafa fengið fjölda skilaboða frá öðrum foreldrum um að þeim hafi misboðið hvernig þessi tvö börn voru skilin útundan af hálfu skólans við útskriftina.

Í dag, fimm dögum eftir útskrift, fékk önnur móðirin síðan símtal frá skólanum þar sem fjölskyldan var beðin afsökunar, að ekki hefði verið hugsað út í að börnin myndu upplifa sig útilokuð og að þetta myndi ekki koma fyrir aftur.

Hin móðirin segist í dag hafa séð að reynt var að hringja í hana frá skólanum en hún ekki treyst sér til að svara því hún sé enn of reið. Engin afsökunarbeiðni geti að hennar mati bætt fyrir þann skaða sem átti sér stað þennan dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Íslenski hópurinn að styrkjast rétt fyrir leikinn gegn Svartfellingum – Hvaða möguleikar eru í stöðunni?

Íslenski hópurinn að styrkjast rétt fyrir leikinn gegn Svartfellingum – Hvaða möguleikar eru í stöðunni?
Fréttir
Í gær

Fleiri fyrirtæki hætta samstarfi við Tomasz Þór vegna ásakana um ofbeldi – „Allra þyngsti bakpokinn á mínum ferli“

Fleiri fyrirtæki hætta samstarfi við Tomasz Þór vegna ásakana um ofbeldi – „Allra þyngsti bakpokinn á mínum ferli“