Fimmtudagur 25.febrúar 2021
Fréttir

Svona er tekið á móti fólki á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis – Reyndu að koma eins fljótt og hægt er

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 20. febrúar 2021 08:15

Frá nýju neyðarmóttökunni. Myndir/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yngsti þolandi kynferðisofbeldis sem leitaði til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á síðasta ári var tólf ára en sá elsti 57 ára. Óvenju margir einstaklingar komu í fyrra eftir hópnauðgun. Frá upphafi hafa yfir átta hundruð börn leitað til móttökunnar.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis er staðsett á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Í ársbyrjun 2018 var tekin í notkun sérhönnuð ný og stærri aðstaða fyrir starfsemi neyðarmóttökunnar.

Þar er veitt bráðaþjónusta fyrir fólk af öllum kynjum sem þangað leitar vegna kynferðisofbeldis. Öll þjónusta er ókeypis og óháð því hvort viðkomandi ákveður að leggja fram kæru.

Yngstu börnin sem hafa komið á neyðarmóttökuna eru tíu ára en elstu þolendurnir eru á níræðisaldri. Flest þeirra barna sem koma eru á aldrinum 15-17 ára en frá því neyðarmóttakan var stofnuð fyrir tæpum 28 árum hafa um 830 börn þurft að leita þangað vegna kynferðisofbeldis.

Neyðarmóttakan er opin allan sólarhringinn. Best er að hringja á undan sér en einnig er hægt að koma beint á bráðamóttökuna, tilkynna um kynferðisofbeldi og þá er kallað til sérhæft starfsfólk.

Flestir koma á eigin vegum á neyðarmóttökuna, aðrir með sjúkrabíl eða lögreglu, og mögulegt er að koma í fylgd góðs vinar eða annars trúnaðaraðila.

Blaðamaður heimsótti neyðarmóttökuna í þeim tilgangi að geta miðlað hverju fólk á von þegar það þarf að leita þangað eftir áföll.

Eru í sérstökum forgangi

Kynferðisbrot eru í sérstökum forgangi og þurfa brotaþolar aldrei að sitja frammi á biðstofu heldur eru strax teknir inn.

Ef aðstaða neyðarmóttökunnar er upptekin fer hjúkrunarfræðingur með brotaþola inn í aðstandendaherbergi bráðamóttökunnar sem er þá merkt „Upptekið“ þannig að enginn komi inn.

Hjúkrunarfræðingur spyr brotaþola þá stuttlega út í ofbeldið til að átta sig betur á hvaða þjónustu hann þarf á að halda. Til að mynda er þarna spurt stuttlega um atvikalýsingu, hvar og hvenær ofbeldið átti sér stað, hvort um var að ræða samfarir í leggöng, munnmök eða annað.

Ef lögregla kemur með brotaþola er strax óskað eftir réttargæslumanni.

Þegar inn á sjálfa neyðarmóttökuna er komið fær brotaþoli sér sæti á þægilegum stól og hjúkrunarfræðingur segir almennt frá starfi móttökunnar og þeirri þjónustu sem þar er í boði. Fólk er nálgast af ró og virðingu. Þá er farið í nánari smáatriðum yfir atvikalýsingu. Algengast er að brot hafi átt sér stað í heimahúsi, annaðhvort heima hjá geranda eða brotaþola.

Brotaþoli fær sér sæti í svarta stólnum lengst til hægri, sem var sérvalinn vegna þess hversu þægilegur hann er. Mynd/Ernir

Meta ástand brotaþola

Fólk má eiga von á spurningum um áfengis- og vímuefnaneyslu ef það hefur verið undir áhrifum til að betur sé hægt að leggja mat á ástand brotaþola þegar brot var framið. Einnig má fólk reikna með að vera spurt út í klæðaburð, en það er til dæmis til að auðveldara sé að bera kennsl á það á eftirlitsmyndavélum.

Skilgreiningu á nauðgun var breytt í lögum árið 2018 þannig að nú þarf samþykki að liggja fyrir við samræði eða önnur kynferðismök. Í lögunum segir: „Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Sakargögn geymd í minnst 16 vikur

Allir þættir þjónustu neyðarmóttöku eru valkvæðir en mælt er með því við fólk að gerð sé læknisskoðun. Það er fyrst og fremst til að tryggja velferð brotaþola. Tekin eru sýni til að útiloka hugsanlegar sýkingar og þungun. Áverkar sem brotaþoli hefur fengið eru metnir og meðhöndlaðir.

Þá er gerð nákvæm læknisskýrsla ásamt nákvæmri líkamsskoðun þar sem allir áverkar eru skoðaðir og skráðir. Teknar eru ljósmyndir af öllum sýnilegum áverkum. Fatnaður og önnur sakargögn eru tekin og geymd í minnst 16 vikur.

Ef brotið er kært eru sakargögnin afhent lögreglu en aðeins gegn skriflegu leyfi frá brotaþola eða forráðamönnum barna.

Einfalt er að breyta bekknum þannig að þar sé hægt að liggja á hliðinni. Mynd/Ernir

Lífsýnataka tekur fimm mínútur

Sá þáttur sem flestir brotaþolar kvíða mest fyrir er lífsýnatakan en hún tekur yfirleitt að hámarki fimm mínútur. Dæmi eru um að stúlkur komi á neyðarmóttökuna sem hafa aldrei farið í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og er ferlið útskýrt vel fyrir þeim.

Við réttarlæknisfræðilega skoðun er til að mynda notast við lítinn plastgogg og bómullarpinna til að ná sýni úr leggöngum. Pinnarnir eru einnig notaðir til að taka sýni af utanverðum skapabörmum, munni og endaþarmi eftir atvikum.

Skafið er undan nöglum til að reyna að finna lífsýni og ef hár finnast á brotaþola eru tekin samanburðarsýni úr hársverði hans.

Yfirleitt eru nærbuxur teknar sem sakargögn en oft líka sokkabuxur, leggins og annar slíkur fatnaður. Ef brotaþoli lýsir því til dæmis að gerandi hafi fengið sáðlát yfir blússu er sú flík einnig tekin. Brotaþoli fær næði bak við skjólvegg og tvær lokaðar hurðir til að fara úr þessum fötum ef hann er að koma beint af vettvangi.

Blóðsýni og þvagsýni

Þá eru tekin tvö sett af blóðsýnum og þvagsýni. Blóðsýnin eru tekin með klukkutíma millibili og með þeim er til að mynda hægt að reikna afturvirkt magn áfengis í blóði sem gefur þá vísbendingu um hvort viðkomandi var í ástandi til að gefa samþykki sitt. Þau eru einnig tekin vegna rannsókna á smitsjúkdómum.

Neyðarmóttaka tilkynnir ekki til lögreglu þó brotaþoli segist hafa neytt ólöglegra vímuefna, heldur er þar skaðaminnkandi hugsun við lýði. Eina tilkynningaskyldan er til barnaverndar ef þangað leita börn undir 18 ára.

Mestallan tímann er brotaþoli einn með hjúkrunarfræðingi og lækni en eftir atvikum koma réttargæslumaður og lögreglan einnig að hitta brotaþola.

Áður en þolendur fara heim fá þeir með sér ýmsar upplýsingar þar sem m.a. kemur fram hvaða sýni voru tekin vegna mögulegra kynsjúkdóma eða þungunar, og hvaða lyf voru gefin.

Gögn til öflunar lífssýna. Þarna sjást meðal annars bómullarpinnarnir og
box sem þeir eru síðan settir í eftir sýnatöku. Mynd/Ernir

Sálfræðingur og réttargæslumaður

Öllum eldri en 18 ára er boðið upp á ókeypis sálfræðiþjónustu og ef hún er þegin hefur sálfræðingur Landspítalans samband strax næsta virka dag eftir komu á neyðarmóttökuna. Einnig er boðið upp á ókeypis þjónustu réttargæslumanns, en það er lögmaður sem sinnir hagsmunagæslu brotaþola. Meðal þess sem réttargæslumaður gerir er að útskýra feril kynferðisbrotamála hjá lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómstólum.

Ef mál fer fyrir dóm sér réttargæslumaður um að undirbúa brotaþola fyrir skýrslutöku fyrir dómi, er viðstaddur aðalmeðferð og flytur bótakröfu. Hafi skýrslutaka farið fram í Barnahúsi vegna ungs aldurs brotaþola þarf brotaþoli ekki að mæta fyrir dóm við aðalmeðferð.

Allir brotaþolar eiga rétt á viðtali við réttargæslumann, hvort sem kært er í málinu eða ekki.

Þetta er fyrri hluti af tveimur þar sem fjallað er um neyðarmóttöku fyrir þolendur nauðgana og birtist fyrst í helgarblaði DV sem kom út 12. febrúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Rauðagerðismálið: Segir lögreglumenn ekki sofa og rannsóknin sé enn á byrjunarreit

Rauðagerðismálið: Segir lögreglumenn ekki sofa og rannsóknin sé enn á byrjunarreit
Fréttir
Í gær

„Við sjáum engan gosóróa eins og er,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu

„Við sjáum engan gosóróa eins og er,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu
Fréttir
Í gær

Almannavarnir um jarðskjálftana: „Þyrla Landhelgisgæslunnar farin á svæðið“

Almannavarnir um jarðskjálftana: „Þyrla Landhelgisgæslunnar farin á svæðið“
Fréttir
Í gær

Vara við torkennilegum símtölum – Bylgja slíkra símtala þessa dagana

Vara við torkennilegum símtölum – Bylgja slíkra símtala þessa dagana
Fréttir
Í gær

Katrín útskýrði fyrir þýskum blaðamanni af hverju baráttan gegn kórónuveirunni hefur gengið svo vel hér á landi

Katrín útskýrði fyrir þýskum blaðamanni af hverju baráttan gegn kórónuveirunni hefur gengið svo vel hér á landi