Föstudagur 26.febrúar 2021
Fréttir

Jóhann snýr aftur í fréttirnar og Hjördís verður samskiptastjóri – „Við munum öll sakna Jóa“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 19. febrúar 2021 19:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann K. Jóhannsson lætur nú af störfum sem samskiptastjóri Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hjördís Guðmundsdóttir tekur við starfi hans en Jóhann heldur aftur í fréttamennskuna á Stöð 2 og Vísir.is.

„Ég var ráðinn til sex mánaða en ílentist í ljósi þess hver staðan á faraldrinum var. Það vantaði fleiri hendur á dekk,“ segir Jóhann í viðtali við DV en hann hefur verið haukur í horni fjölmiðlamanna undanfarið sem leitað hafa upplýsinga um mál tengd faraldrinum og annað sem kemur inn á borð Almannavarna.

Aðspurður segist Jóhann fara aftur í fréttirnar. „Ég verð næstu daga að ganga frá og koma verkefnum í hendur Hjördísar sem hefur verið með mér í þessu. Hún hefur til dæmis séð um uppfærslur á covid.is og séð til þess að þar séu allar upplýsingar réttar,“ segir Jóhann.

„Ég taldi réttan tímapunkt að stíga til baka núna, staðan í faraldrinum er góð, við erum með fá smit,“ segir Jóhann ennfremur og viðurkennir að fréttamennskan hafi togað í sig.

„Ég vissi strax þegar ég fór í leyfið að minn tími í fréttum væri ekki búinn. Ég hætti ekki af því mér þætti ekki gaman að vera fréttamaður. Ég vann lengi í viðbragðsgeiranum, var slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og hef því reynsluna og þekkinguna í þetta svið. Fréttamannsstarfið er líka útkallsstarf, sérstaklega þau mál sem ég hef fjallað um,“ segir Jóhann, en áskrifendur Stöðvar 2 mega búast við að sjá hann að ný á skjánum eftir vikutíma eða svo. Segist Jóhann ávallt hafa kappkostað að vinna við það sem honum þykir vera skemmtilegt.

„Við munum öll sakna Jóa,“ segir eftirmaðurinn, Hjördís Guðmundsdóttir, en hún hugleiðir alvarlega að kaupa áskrift að Stöð 2 til að geta séð sinn gamla vinnufélaga á skjánum.

Hjördís segir að það sé bæði erilsamt og skemmtilegt að vinna hjá Almannavörnum og það gefi starfinu lit hvaða þarna sé frábær hópur að störfum. Varðandi það hvort nú fari að hægjast eitthvað um vegna þess hve vel gangi að haldan niðri smitum segir Hjördís að hún sá ávallt viðbúin því versta enda minnug þess að þriðja bylgja faraldursins reis afar hratt síðastliðið haust.

„Við erum er aldrei að horfa til þess að þetta sé búið, við erum alltaf að biðja fólk um að fara varlega. En það er óneitanlega gaman að vera farin að sjá ljós við endann á göngunum og sérlega ánægjulegt að vera núna byrjuð að setja upp vef yfir bólusetningar,“ segir Hjördís.

Hún kom til starfa hjá Almannavörnum í haust en hún hefur meðal annars bakgrunn í verkefnastjórnun sem kemur sér vel í flóknu starfi Almannavarna þar sem mörg ólík og krefjandi verkefni koma inn á borð, ekki bara kórónuveirufaraldurinn, heldur til dæmis náttúruhamfarirnar á Seyðisfirði. Ennfremur var Hjördís um tíma upplýsingafulltrúi Isavia.

Hjördís segir að það fylgi því að vinna í Almannavarnadeild lögreglustjóra að vera ávallt viðbúin því versta. Mikið álag hafi verið á deildinni undanfarið en verkefnin séu skemmtileg og hópurinn frábær.

Í tilkynningu Almannavarna um málið segir:

„Hjördís Guðmundsdóttir tekur við sem samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hún hefur starfað á deildinni undanfarna mánuði við upplýsingamiðlun með Jóhanni K. Jóhannssyni sem ráðinn var tímabundið en hann hverfur til fyrri starfa.

Upplýsingamiðlun og samskipti við fjölmiðla er mikilvægur hlekkur í keðju almannavarna til þess að koma skilaboðum til almennings. Til að mynda hafa fjölmiðlar gengt lykilhlutverki í baráttunni við COVID-19 við að flytja réttar og upplýsandi fréttir af stöðu faraldursins. Staðan í þjóðfélaginu er góð og má það þakka samstöðu þjóðarinnar en áfram þarf að gæta að samstöðu og fylgja þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni.

Jóhanni eru þökkuð góð störf undanfarna mánuði og óskað velfarnaðar á sínum vettvangi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Segja lögregluna handtaka fólk eftir geðþóttaákvörðunum – „Af þeim stafaði engin hætta“

Segja lögregluna handtaka fólk eftir geðþóttaákvörðunum – „Af þeim stafaði engin hætta“
Fréttir
Í gær

Fjölskyldu konunnar ofbauð að læknirinn starfi ennþá – Vilja að lögregla rannsaki meðferð móður þeirra sem manndráp

Fjölskyldu konunnar ofbauð að læknirinn starfi ennþá – Vilja að lögregla rannsaki meðferð móður þeirra sem manndráp
Fréttir
Í gær

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“

Móðir Bjarna var spilafíkill – „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfum Eflingar vísað frá – Eldum rétt og starfsmannaleigan með fullan sigur

Kröfum Eflingar vísað frá – Eldum rétt og starfsmannaleigan með fullan sigur