Slök markvarsla í fyrri hálfleik og fjölmarir tapaðir boltar voru það helsta sem varð til þess að Ísland tapaði gegn Portúgal í fyrsta leiknum á HM í handbolta í Egyptalandi. Um lykilleik var að ræða því þetta eru þau tvö lið sem talin voru sterkust í undanriðlinum en lið taka með sér stig úr undanriðli inn í milliriðil. Önnur lið í riðlinum eru Alsír og Marokkó.
Ísland byrjaði betur í leiknum en Portúgalar náðu yfirhöndinni um seinni hluta hálfleiksins og höfðu frumkvæðið út leikinn. Markverðir íslenska liðsins vörðu aðeins tvö skot í fyrri hálfleik en Ágúst Elí Björgvinsson varði vel í síðari hálfleik eða 7 skot. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 3 skot.
Portúgalar náðu mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik. Íslenska liðið fékk nokkur tækifæri til að hleypa spennu í leikinn á lokamínútunum en fóru þá illa með færi.
Lokatölurnar urðu 25-23 fyrir Portúgal. Staðan í hálfleik var 11:10.
Bjarki Már Elísson var markhæstur með 6 mörk, Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði 4 og Elvar Örn Jónsson 3.
Næsti leikur er gegn Alsír á laugardagskvöld.