fbpx
Föstudagur 21.janúar 2022
Fréttir

Birta er fyrirsætan í auglýsingu Ölgerðarinnar – Hakakross yfir augun – „Við þurfum að rífa hatrið upp með rótum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 28. ágúst 2021 12:11

Birta Abiba Þórhallsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær barst Ölgerðinni tilkynning um að búið væri að setja límmiða með mynd af hakakrossi og textanum „We are everywhere“ yfir augu fyrirsætu í auglýsingu frá fyrirtækinu. Um er að ræða merki og slagorð sem hægriöfgamenn hafa sett á helga staði gyðinga í Evrópu og meðal annars í minningarhúsi um Önnu Frank í Bandaríkjunum.

Fyrirsætan á myndinni er Birta Abiba Þórhallsdóttir og ræddi hún við DV í dag um málið. Birta, sem fædd er árið 1999 og bar sigur úr býtum í keppninni Miss Universe Iceland árið 2019, hefur áður orðið fyrir kynþáttafordómum en hún greindi frá miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku vegna húðlitar síns, í grein og viðtali við DV fyrir tveimur árum. Þess skal getið að Birta er Íslendingur, fædd á Landspítalanum, og hefur hvergi annars staðar búið en á Íslandi.

Birta telur mikilvægt að opna umræðu um kynþáttafordóma og öfga og koma í veg fyrir með öllum ráðum að það hatur sem birtist í þessari aðgerð festi rætur hér á landi.

„Við erum betri en þetta,“ segir Birta. Hún trúir því að mikill meirihluti Íslendinga sé andsnúinn öfgum og kynþáttafordómum en telur að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað þeir eru útbreiddir, hvítt fólk verði síður vart við kynþáttafordóma í umhverfinu og eigi til að afneita því að þeir séu eins útbreiddir og raun ber vitni.

Skjáskot Facebook

Faðir hennar og systkini sáu límmiðana

„Ég varð virkilega sorgmædd yfir þessu vegna þess að pabbi minn og systkini keyrðu fram hjá auglýsingunni og sáu þetta. Það skar mig í hjartað að vita til þess að börn væru að sjá þetta og kannski fólk sem er í minnihlutahópi eins og ég,“ segir Birta.

Hún segist jafnframt vera þakklát fyrir allan þann kærleika sem fólk hafi sýnt henni með hughreystandi skilaboðum og samstöðu eftir að málið kom upp.

Birta hefur áhyggjur af vaxandi uppgangi hægri öfgahreyfinga og nýnasista á vesturlöndum og segir ákveðin: „Við megum aldrei leyfa svona hatri að festa rætur hér á landi. Þess vegna er svo mikilvægt að opna umræðuma um öfga og kynþáttafordóma og umfram allt fræða grunnskólabörn. Börn eru svo klár og þau taka því ekki persónulega ef viðhorf þeirra eru gagnrýnd og þeim bent á að það sé ekki í lagi að segja tiltekna hluti,“ segir Birta og bendir á að börn séu mjög móttækileg fyrir æskilegum hugarfarsbreytingum og það sé mjög brýnt að efla umræðu og kennslu um þessi mál á neðri skólastigum.

„Fáfræðin lifir í þögninni,“ segir hún og telur að margir fullorðnir geri sér ekki grein fyrir því hvað kynþáttafordómar eru útbreiddir vegna þess að þeir verði ekki varir við þá í eigin umhverfi.

Hún bendir á að hvítir foreldrar litaðra barna sem hún hafi rætt við, til dæmis ættleiddra barna, hafi ekki upplifað fordómana fyrr en börnin þeirra byrjuðu í skóla. En nákvæmlega þar þurfi að einbeita sér að því að vinna gegn hatri og fordómum. Hún segir einnig að fullorðnir litaðir einstaklingar hafi greint henni frá fordómum og ofbeldi sem hvítir Íslendingar geri sér kannski ekki grein fyrir að viðgangist hér.

Birta Abiba Þórhallsdóttir. Aðsend mynd.

Samfélagið orðið fjölbreyttara

Birta er ánægð með viðbrögð Ölgerðarinnar í málinu. Í viðtali við Vísir.is í gær sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins: „Maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hvað svona einstaklingar eru að hugsa. Það er eitthvað mikið að ef þú ákveður að dreifa þessu merki.“

Aðspurð hvort hún telji kynþáttafordóma hafa minnkað eða aukist frá því hún var barn þá telur hún að okkur hafi miðað í rétta átt. „Ég sé jákvæðar breytingar, samfélagið er orðið fjölbreyttara frá því ég var barn og fleiri og fjölbreyttari raddir heyrast til dæmis í fjölmiðlum.“

Hún varar hins vegar við uppgangi öfgaafla og afneitun á áhrifum þeirra geti verið hættuleg: „Ég er stolt af þessari þjóð og öllum framförunum sem hér hafa orðið en ég tel að í þessum málaflokki getum við gert betur. Það hefur enginn rétt á að þagga niður raddir litaðra á Íslandi og ég trúi því að mikill meirihluti Íslendinga sé sammála því. Við þurfum að taka þetta alvarlega og rífa hatrið upp með rótum.“

Birta segist í raun þakklát fyrir að hún hafi orðið fyrir þessari árás en ekki einhver annar, hún sé fullorðin, sé ýmsu vön og geti höndlað þetta. Hún þakkar líka fyrir að þessar öfgar séu ekki farnar að birtast í líkamsárásum eða skemmdarverkum í bænahúsum eins og víða erlendis, en það sé mikilvægt að kæfa hatrið í fæðingu með opinni umræðu og fræðslu í skólum.

„Ég vil ekki að þessir hópar haldi að þeir geti haft áhrif með svona framferði og við skulum öll sameinast í að koma í veg fyrir að svo verði,“ segir hún.

Vill strangari lög gegn hatursorðræðu

Birta vill jafnframt að yfirvöld gangi harðar fram í lagasetningu gagnvart hatursorðræðu og vill hún þar meðal annars líta til Þýskalands. „Fólk í valdastöðum þarf að nýta betur þau tækifæri sem þau hafa til þess að vinna gegn haturorðræðu,“ segir hún.

Þess má geta að í 233. grein hegningarlaganna er ákvæði um kynþáttahatur og sambærilegt framferði. Má telja líklegt að það framferði sem hér um ræðir falli undir hana en hún er eftirfarandi:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

 

Birta skrifaði pistil um málið á Facebook-síðu sinni í gær sem má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sakar N1 um „ógeðfelldar blekkingar“ og kallar eftir hörðum viðbrögðum – „Viðskiptasiðleysi stjórnenda Festi hefur náð nýjum botni“

Sakar N1 um „ógeðfelldar blekkingar“ og kallar eftir hörðum viðbrögðum – „Viðskiptasiðleysi stjórnenda Festi hefur náð nýjum botni“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fleiri slæmar fréttir af Strákunum okar – Aron og Bjarki líka með Covid

Fleiri slæmar fréttir af Strákunum okar – Aron og Bjarki líka með Covid