fbpx
Föstudagur 30.júlí 2021
Fréttir

Oddviti Sjálfstæðismanna: „Þjóðhátíð er ekki fylliríshátíð líkt og þorri nettrölla vill halda fram“

Bjarki Sigurðsson
Fimmtudaginn 22. júlí 2021 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, vill ekki meina að Þjóðhátíð sé fylliríshátíð heldur að hún sé uppspretta ástkærra minninga. Hún ræðir þetta í pistli á Vísi.

„Enn og aftur heyrist í aðdraganda verslunarmannahelgar neikvæðni og gagnrýnisraddir í almennri umræðu gagnvart Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Sukk og svínarí, græðgishátíð og jafnvel verri hlutir eru látnir flakka tengdir kynferðisafbrotum sem eru ólíðandi sama í hvaða umhverfi og á hvaða tímapunkti þau gerast. Enda eru afbrotin hvorki aðstæðum né staðsetningu um að kenna, heldur einungis afbrotamanninum sjálfum,“ segir Hildur og bendir á að Þjóðhátíð er meginfjáröflun ÍBV og undirstaða mikilvægs æskulýðs- og íþróttastarfs í Vestmannaeyjum.

Hún segir að með hverju ári sem Þjóðhátíð er lögð niður sé verið að gera það erfiðara að halda uppi þessari ómetanlegri hefð sem hátíðin er.

„Þjóðhátíð er ekki fylliríshátíð líkt og þorri nettrölla vill halda fram. Þjóðhátíð er menningararfur Vestmannaeyja, rík af hefðum og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Saga hátíðarinnar er samofin tónlistarsögu þjóðarinnar og uppspretta ástkærra minninga ekki bara Vestmanneyinga heldur langflestra gesta hátíðarinnar, uppspretta fjölda vinasambanda, ástarævintýra, hjónabanda og afkomenda. Þannig kynntist undirrituð t.d. eiginmanni og barnsföður sínum á þjóðhátíðinni 1999,“ segir Hildur.

Hún er alls ekki sú eina sem þakkar Þjóðhátíð fyrir að hafa fundið ástina og syrgja það margir að geta mögulega aldrei aftur setið í brekkunni með þúsundum manna að syngja íslensk dægurlög.

„Íþyngjandi sóttvarnartakmarkanir eru ákveðinn faraldur í sjálfu sér, hinn vestræni heimur hefur ekki glímt við jafn alvarlegar frelsisskerðingar í lengri tíma. Takmarkanirnar hafa gert út af við margan rekstur, valdið því að erfiðara er að fá fólk aftur til starfa, valdið heilsufarsvandamálum hjá einstaklingum sem ekki komust t.d. til heilsuræktar, kvíðaeinkennum osfrv. sem við verðum eflaust í marga áratugi að bíta úr nálinni með,“ segir Hildur og bætir við að takmarkanir hafi þó hamið faraldurinn og gefið okkur tækifæri og tíma til að vera ein fremsta þjóð heimsins í bólusetningum gegn Covid-19.

Hún segir að sóttvarnartakmarkanir og afléttingar á víxl líkist ákveðnum pyntingaraðferðum sem nýttar hafa verið gegn stríðsföngum. Þar er súrefni fanga takmarkað þar til hann getur vart meir, fær svo að anda en þegar ljósið við enda ganganna er gefið er það svo slökkt aftur.

„Rúmlega 85% þjóðarinnar, 16 ára og eldri, er bólusettur, bólusetningar eiga að skapa hjarðónæmi og hafa sýnt að dragi verulega úr dánartíðni enda besta bólusetningarhlutfallið meðal viðkvæmustu hópanna. Takmarkanir þurfa fyrst og fremst að taka mið af stöðu og afkastagetu heilbrigðisþjónustunnar, en eins og staðan er í dag, er hálfgert neyðarástand og mönnunarvandamál fyrst og fremst vegna fjölda kvenna sem vænta fæðingar á Landspítalanum en ekki vegna umönnunar Covid sjúklinga,“ segir Hildur.

Hún hvetur fólk til þess að gæta meðalhófs í umræðu og ákvörðunum hvað varðar umræðu um Þjóðhátíð. Hún segir að í augum margra Eyjamanna sé Þjóðhátíð heilagri en jólin.

„Ég hvet jafnframt ráðamenn að gæta meðalhófs við ákvörðunartöku og stíga varlega og ígrundað til jarðar hvað varðar frelsistakmarkanir þegna landsins því þær eru ákveðin ógn í sjálfu sér,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fékk yfir sig holskeflu haturs frá Íslendingum í athugasemdum – „Þvílíkt ógeð. Ótrúlegt hvað fólk getur leyft sér að segja“

Fékk yfir sig holskeflu haturs frá Íslendingum í athugasemdum – „Þvílíkt ógeð. Ótrúlegt hvað fólk getur leyft sér að segja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íhuga að sækja um ríkisstyrk vegna frestunar Þjóðhátíðar

Íhuga að sækja um ríkisstyrk vegna frestunar Þjóðhátíðar