fbpx
Mánudagur 28.september 2020
Fréttir

Þóra birtir svar Helga við ásökunum Samherja – Skýrslan var til og var undirrituð

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 11. ágúst 2020 13:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að Samherji hafi haft í höndunum hljóðupptöku af fundi okkar Jóns Óttars í sex ár, en birti hana fyrst núna, segir sitt um hversu raunverulegt sönnunargagn um samsæri af minni hálfu sé að ræða,“ segir Helgi Seljan rannsóknarblaðamaður í yfirlýsingu sem Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, birtir vegna þáttar sem Samherji gerði og birti í dag, um rannsókn Seðlabankans á gjaldeyrisviðskiptum bankans árið 2012 og umfjöllun RÚV, þar á meðal Helga Seljan, um málið.

Samherji hefur borið þær ásakanir á Helga að hann hafi vitnað í skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs sem aldrei hafi verið gerð.

„Í dag voru sett ný viðmið í árásum stórfyrirtækis á fjölmiðla og einstaka fréttamenn. Í stuttu máli er ekkert hæft í þeim ásökunum sem Samherji hefur sett fram. Markmiðið með þessum drullumokstri er að sverta mannorð öflugasta rannsóknarblaðamanns landsins og hrella fjölmiðla. Í því sambandi má nefna að forstjóri Samherja hefur stöðu grunaðs manns í sakamáli og stjórnendur fyrirtækisins hafa aldrei svarað spurningum Kveiks um starfsemina í Namibíu,“ segir Þóra í yfirlýsingu sinni.

Samherji er nú til rannsóknar hjá ríkissaksóknara vegna ásakana um mútugreiðslur í Namibíu til að liðka um fyrir úthlutun hrossamakrílkvóta. Réttarhöld standa yfir í Namibíu yfir fyrrverandi áhrifamönnum þar og meintum viðtakendum greiðslnanna. Þáttur Samherja fjallar hins vegar um allt annað mál eða rannsókn Seðlabankans frá 2012 á meintum brotum fyrirtækisins á gjaldeyrishöftum sem þá voru í gildi, sem og árin á undan.

Svör Helga við ásökunum Samherja eru eftirfarandi:

„Skýrslan og ásakanir um falsanir

Fyrir það fyrsta eru ásakanir um falsanir gagna alrangar. Sömuleiðis útleggingar á samtali mínu við Jón Óttar Ólafsson, starfsmann Samherja.

Skýrsla um samanburð á útflutningsverði á karfa til Þýskalands, sem sýndi að Samherji seldi fyrirtækjum sínum þar í landi afla eigin skipa á lægra verði en gerðist og gekk í viðskiptum annarra, var sannarlega til og gerð af Verðlagsstofu skiptaverðs. Eins og fram kom í Kastljósi, þegar vitnað var til hennar og hún sýnd. Það, hvers vegna núverandi starfsmaður Verðlagsstofu hafnar því núna, 8 árum eftir birtingu þess í sjónvarpi, að það hafi verið gert, er með nokkrum ólíkindum, þó ekki sé fastar að orði kveðið. Skjalið var sannarlega gert af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs, og lagt fram í Úrskurðarnefnd útvegsmanna og sjómanna. Það var jafnframt tilefni athugasemda Verðlagsstofu við Samherja, rannsókn, eins og það var orðað af Verðlagsstofu sjálfri. Rétt eins og núverandi forstjóri Verðlagsstofu staðfestir í raun í þessum samskiptum sínum við Samherja, nú í apríl.

Það er ekki bara rangt, heldur einkar bíræfið hvernig því er haldið fram í „þætti“ Samherja að umrætt skjal hafi verið falsað. Raunar kallast þessar kenningar þeirra á í myndbandinu. Það er ýmist sagt falsað, eða því breytt. Hvort tveggja er rangt. Sundurklippt ummæli um að átt hafi verið við skjalið, vísa eingöngu til þess að áður en það var birt voru persónugreinanlegar upplýsingar, sem hefðu getað vísað á heimildarmann, afmáðar af því. Það að snúið sé út úr því með þeim hætti sem gert er, segir alla söguna um raunverulegan tilgang þessarar myndbandagerðar Þorsteins Más og félaga.

Að Samherji hafi haft í höndunum hljóðupptöku af fundi okkar Jóns Óttars í sex ár, en birti hana fyrst núna, segir sitt um hversu raunverulegt sönnunargagn um samsæri af minni hálfu sé að ræða.

Það er einnig rangt að Kastljós hafi ekki gengið úr skugga um hvaðan og hvers eðlis skýrsla Verðlagsstofu var, og ekki gengið úr skugga um að skjalið væri sannarlega frá Verðlagsstofunni komið. Verðlagsstofa vildi ekki staðfesta neitt opinberlega, en það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram að það þýði að skýrslan hafi ekki verið unnin á hennar vegum, því það var sannarlega staðfest. Um þetta allt má til dæmis lesa í eftirfarandi bréfi (sjá fyrsta komment að neðan) sem undirritað er af þremur starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs, og send var á stjórn stofnunarinnar, vegna fyrirspurnar Kastljóss. Þar er jafnframt staðfest að „mál“ tengt Samherja sé til skoðunar innan stofnunarinnar og áhersla lögð á að þögn ríki um málið af hendi stjórnarinnar, enda geti annað orðið til að „tefja og jafnvel skaða mál sem eru til rannsóknar/meðferðar hjá Verðlagsstofu og úrskurðarnefnd

Umrædd skýrsla, sem var 3 blaðsíður og undirrituð af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs, var sannarlega borin undir Seðlabankann, sem óskaði eftir og fékk afrit af henni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimm ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás á Suðurlandi – Rafmagnsrakvél í rass og rökuðu með hrossaklippum

Fimm ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás á Suðurlandi – Rafmagnsrakvél í rass og rökuðu með hrossaklippum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Klám í grunnskólum í Reykjavík – Fimmtubekkingar skoða í símum sínum – „Þetta er úti um allt“

Klám í grunnskólum í Reykjavík – Fimmtubekkingar skoða í símum sínum – „Þetta er úti um allt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Egypska fjölskyldan fær dvalarleyfi á Íslandi

Egypska fjölskyldan fær dvalarleyfi á Íslandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dyr heimsins lokaðar Íslendingum

Dyr heimsins lokaðar Íslendingum