fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020
Fréttir

Fangar þola ekki aðra umferð af COVID-einangrun – Sambandsslit og barn þekkti ekki föður sinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 30. júlí 2020 19:54

Guðmundur Ingi Þórodsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við getum verið sammála um að það þurfi að loka núna tímabundið, í einhverja daga eða mesta lagi eina viku, á meðan verið er að kanna ástandið. En fangahópurinn þolir ekki aðra eins innilokun og var í fyrri Covid-aðgerðum. Þetta var þriggja mánaða einangrun, fangahópurinn þolir ekki annan slíkan skammt nema gripið verði til aðgerða til að vega á móti,“ segir Guðmundi Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, í viðtali við DV.

Eins og greint hefur verið frá í dag hefur verið lokað fyrir allar heimsóknir til fanga sem og allar brottfarir fanga úr fangelsum sem hafa heimildir til slíks, í kjölfar hertra aðgerða Ríkislögreglustjóra vegna aukinna COVID-19 smita undanfarið. Í viðtali við vef Fréttablaðsins í kvöld sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri að réttindi fanga sem eiga rétt á dagsleyfum eða mega stunda nám utan fangelsis verði bætt upp síðar. Hann segist hafa skilning á kvörtunum fanga vegna aðgerðanna, en:

„Við teljum það geta haft mjög alvarlegar afleiðingar ef veiran kemst inn í fangelsin eins og hefur sýnt sig í löndunum í kringum okkur, þar hefur starfsemin orðið mjög erfið. Þeir hafa þurft að setja hópa saman og loka einingum og svo framvegis en við teljum okkur í stakk búin að takast á við þetta núna.“

Leggja til rafrænar lausnir

„Við höfum verið með hugmyndir og lausnir á þessum vandamálum sem við kynntum fyrir síðasta COVID, í síðasta COVID, með tölvupósti í júní og síðan aftur með tölvupósti til Fangelsismálastofnunar núna í morgun,“ segir Guðmundur Ingi, en hugmyndir Afstöðu fela í stuttu máli í sér rafrænar lausnir til að mæta þessum takmörkunum. Þar er sú hindrun í vegi að netnotkun fanga er yfirleitt óheimil.

„Við viljum færa fangelsismálin inn  í nútímann, sem þýðir rafrænar lausnir. Allir eru sammála um að það er bæði nútíðin og framtíðin en menn hefur skort kjark til að stíga skrefið. Allir vita að styrking fjölskyldusambanda er allra mikilvægasta úrræðið í endurhæfingu,“ segir Guðmundur Ingi en hann telur að aukið rafrænt samband gæti vegið upp á móti heimsóknarbanni og öðrum takmörkunum.

„Ef við ætlum að efla fjölskyldusambönd fanga, létta álagi af fangavörðum og útskrifa betri menn úr fangelsum þá þurfum við að taka þessa ákvörðun og við þurfum að gera það strax,“ segir Guðmundur en hann segir að þetta sé hægt að gera án þess að veita fullkomið sjálfræði varðandi netnotkun.

„Það hefur ekki komið upp neitt smit í fangelsunum en það var út af þessari algjöru einangrun sem fangar voru settir í – það er hægt að taka þá ákvörðun aftur en fangelsisyfirvöld þurfa að vera undir það búin og það hefur ekki verið tekið illa í okkar hugmyndir núna.“

Guðmundur segist vera í stöðugu sambandi við fangelsismálayfirvöld um þessi mál núna, haldnir voru tveir fundir í dag og annar verður í fyrramálið. Hann er bjartsýnn á góða lausn ef á annað borð kemur til þess að takmarkanir verða langvarandi. En það sé ekki hægt að ganga í gegnum aðra þriggja mánaða einangrun eins og fangar þurftu að lifa með í vor:

„ Það reynir svo mikið á sambönd og fjölskyldutengslin þegar fólk lendir í fangelsi. Við svona einangrun geta þau farið á verri veg og það er ekki það sem samfélagið þarf á að halda. Frá síðasta COVID þekki ég dæmi um lítið barn sem þekkti ekki lengur föður sinn eftir að hafa ekki séð hann í þrjá mánuði og ég veit dæmi um sambandsslit sem urðu vegna þessarar einangrunar. Fangar geta þolað þetta núna í nokkra daga en við getum ekki horft upp á langvarandi lokanir og einangrun aftur án þess að gripið verði til aðgerða til að vega upp á móti.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórsteinn svarar Önnu Kolbrúnu sem óttast um bálfarir – „Ekki verða byggðar margar bálstofur á Íslandi“

Þórsteinn svarar Önnu Kolbrúnu sem óttast um bálfarir – „Ekki verða byggðar margar bálstofur á Íslandi“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Allt sem kom fram í greininni og Kastljósþáttunum er hundrað prósent rétt og ekkert þar sem var búið til eða falsað. Ég get staðfest það“ 

„Allt sem kom fram í greininni og Kastljósþáttunum er hundrað prósent rétt og ekkert þar sem var búið til eða falsað. Ég get staðfest það“