fbpx
Þriðjudagur 14.júlí 2020
Fréttir

Sif kemur Frosta til varnar – „Ekki er allt sem sýnist“

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 30. maí 2020 11:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sif Sigmarsdóttir, einn helsti pistlahöfundur landsins kemur fyrrverandi þingmanni Framsóknarflokksins, Frosta Sigurjónssyni til varnar í nýjasta pistli sínum sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.

Hún byrjar á að ræða heimspeki í pistli sínum og vitnar bæði í Platón og Johns Stuart Mill.

„Ekki verður bundinn endi á vanda ríkisins fyrr en heimspekingar gerast kóngar eða kóngar gerast heimspekingar,“ ritaði gríski heimspekingurinn Platón.

Við höfum lengi búið við þann munað að geta litið á heimspeki sem athvarf stefnulausra ungmenna sem vita ekki hvað þau ætla að verða þegar þau vaxa úr grasi, svo að þau skrá sig til náms í heimspeki við Háskólann, áhyggjufullum foreldrum sínum til kvalræðis. En nú, skyndilega, er heimspeki orðin órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar allra.

Hugmyndir breska heimspekingsins Johns Stuart Mill um frelsi einstaklingsins, liggja til grundvallar lýðræðislegri stjórnskipun. „Ríkinu er aðeins heimilt að skerða afhafnafrelsi samfélagsþegns gegn vilja hans, valdi hann öðrum tjóni með aðgerðum sínum,“ segir í bókinni Frelsið. Hugmyndin hljómar einföld í orði. Á borði er hún þó öllu flóknari.“

Sif minnist þess þegar að Frosti lét þá skoðun sína í ljós að stjórnvöld ættu að grípa til harðari aðgerða vegna COVID-19. Frosti var mikið gagnrýndur fyrir þessa skoðun sína og Sif rifjar upp uppnenfnið sem hann fékk „kóviti“.

„Sóttkvíði. Skjávera. Nálægðartakmörkun. Smitskömm. Fjöldi nýyrða hefur sprottið upp úr kórónaveirufaraldrinum sem nú geisar. Snemma í faraldrinum lét fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins Frosti Sigurjónsson í ljós þá skoðun sína að stjórnvöld ættu að beita harðari aðgerðum til að ráða niðurlögum vírussins og bjarga mannslífum. Sú hugmynd virtist hins vegar hafa náð fótfestu í samfélaginu að á tímum faraldurs væri þörf á samstöðu; fjöldinn ætti að fylkja sér samstíga að baki stjórnvöldum og láta tímabundið af gagnrýni. Frosti var uppnefndur nýyrðinu „kóviti“.

Á sama tíma steig Frosti Sigurjóns þeirra Breta fram. Þótt breskur almenningur væri farinn að ókyrrast þorðu fáir að gagnrýna fumkennd kórónaveiru-viðbrögð ríkisstjórnarinnar, af ótta við ásakanir um lýðskrum. Jeremy Hunt, hæglátur þingmaður Íhaldsflokksins, reið á vaðið. Svitinn perlaði á enni hans þar sem hann horfði í sjónvarpsmyndavél, jafnskelkaður á svipinn og fangi frammi fyrir aftökusveit og óskaði eftir harðari aðgerðum. Líkt og Frosti fékk hann litlar þakkir fyrir.“

Sif segir að það sé gott að fólk treysti á vísindin, en segir þó að sjaldan sé eitthvað visst í þeim.

„Um heim allan keppast ráðamenn við að styðja aðgerðir sínar í baráttunni við COVID-19 fullyrðingum, um að vísindin séu með þeim í liði. Það er gleðiefni að virðing fyrir vísindum gangi nú í endurnýjun lífdaga. Ekki er þó allt sem sýnist.

Frosti Sigurjónsson er enn kallaður „kóviti“. Jeremy Hunt fékk hins vegar uppreist æru. Hvergi hafa fleiri látist vegna COVID-19 í Evrópu en í Bretlandi. Er það viðtekin skoðun að ástæðan sé sú að stjórnvöld brugðust ekki nógu hart við faraldrinum strax í upphafi.

Vísindi tryggja sjaldan algjöra vissu. Það er einmitt óvissan sem varðar hlykkjótta braut vísindanna, vísar okkur veginn að næsta áfangastað, næstu spurningu sem krefst svars. Ráðamenn sem láta eins og aðgerðir þeirra séu einföld niðurstaða reikningsdæmis á borð við 1+1=2, hafa vísindi að skálkaskjóli og okkur hin að fíflum. Því staðreyndin er þessi: Í baráttunni við kórónaveiruna stöndum við frammi fyrir voveiflegu vali. Vali milli mannslífa og hagkerfis, dauðsfalla og skuldsetningar, langlífis eldri borgara og geðheilbrigðis ungs fólks, ferðamannaiðnaðarins og Landspítalans.“

Sif segir að stjórnvöld verði alltaf að hafa aðhald og þá sérstaklega á tímum heimsfaraldurs. Hún segir að ráðamenn þurfi að gerast heimspekingar til að geta tekið ákvarðanir sem séu vísindum óviðkomandi.

„Á viðsjárverðum COVID-tímum þurfa ráðamenn að taka pólitískar ákvarðanir sem eru vísindum óviðkomandi. Til þess þurfa þeir, eins og Platón lagði til, að gerast heimspekingar. En þrátt fyrir fagran einfaldleika heimspekihugmynda á borð við frelsishugmynd Johns Stuart Mill, um að fólki sé frjálst að gera hvað sem það lystir, svo lengi sem það skaði ekki aðra, er málið langtum flóknara. Hvar lýkur rétti kráareigandans til lífsviðurværis og hvar hefst réttur íbúa öldrunarheimilis til öruggs ævikvölds?

Svarið liggur ekki í augum uppi. Eitt er þó alveg ljóst. Aldrei nokkurn tímann er ástæða til að láta af aðhaldi við stjórnvöld. Allra síst á tímum heimsfaraldurs. Spyrjið bara Breta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Ökumaður sofnaði undir stýri og barn féll niður stiga

Ökumaður sofnaði undir stýri og barn féll niður stiga
Fréttir
Í gær

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn