fbpx
Miðvikudagur 27.maí 2020
Fréttir

Margir minnast Gissurar: „Mikill meistari er fallinn frá“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 6. apríl 2020 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gissur Sigurðsson, fréttamaður, lést í gær eftir að hafa glímt við veikindi um nokkurt skeið. Gissur Sigurðsson var landsmennum velkunnugur sem viðkunnalegur fréttaþulur, húmoristi og beittur blaðamaður. Hann skilur eftir sig stórt skarð í fjölmiðlaheiminum. Eftir að fregnir bárust um andlát hans hafa margir deilt fallegum minningarorðum og kveðjum á samfélagsmiðlum og er ljóst að hann hreyfði við mörgum og verður sárt saknað.

Við hittumst síðar á stóru fréttastofunni þarna uppi.

Árni Snævarr, féttamaður og starfsmaður Sameinuðu Þjóðanna minnist vinar síns með hlýju.

„Harmafregn – Gissur Sigurðsson vinur minn er allur. Mér er beinlínis tregt um tungu að hræra. Myndirnar sem koma upp í hugann eru svo margar. Gissur í heimsókn í Kaupmannahöfn og ég er að reyna að fá hann til að hlæja sem mest. Hann hafði ekki gefið sér tíma til að laga framtennurnar eftir að ein eða tvær höfðu sagt skilið við tanngarðinn og ég vildi af tómum skepnuskap láta hann brosa sem mest! Morgunvaktirnar á Bylgjunni – kaffi og sígó – eftir 8 fréttir og nokkar mergjaðar sögur. Þær skemmtilegustu auðvitað ekki prenthæfar. Svo hlýr, svo einstaklega fyndinn, svo næmur á hið smáa sem segir alla söguna. Hvíl í friði vinur. Við hittumst síðar á stóru fréttastofunni þarna uppi. Þangað tl ylja ég mér við minningarnar.“

Heimir Karlsson, þáttastjórnandi í Bítinu á Bylgjunni, minnist kærs samstarfsfélaga:

„Elsku kallinn, vinur minn og snillingur Gissur Sigurðsson er látinn. Gissur er öllum ógleymanlegur sem heyrði í honum á Bylgjunni. Gissur læddist ekki með veggjum. Þú vissir hvar þú hafðir hann. Blessuð sé minning hans og mínar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.“

Guð blessi minningu Gissurar

Hildur Eir Bolladóttir, prestur, minnist Gissurar sem hlýs og mannlegs einstaklings.

„Mikill meistari er fallinn frá, minn eftirlætis fréttaþulur, svo hlýr og mannlegur í framsetningu á fréttum, ískrandi húmor blandinn mikilli samkennd, enginn annar hefði fengið mann til að brosa yfir dagbók lögreglu. Guð blessi minningu Gissurar og umvefji ástvini hans huggun og von.“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, blaðamaður, segist eiga Gissuri margt að þakka.

„Gissuri, mínum kæra vini, á èg svo ótal margt að þakka. Það er ljóst að fjölmiðlar eru ekki samir án hans.“

Fólk treysti Gissuri

Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, segir það sannan heiður að hafa fengið að starfa með Gissuri

„Goðsögn og góður vinur er fallinn frá. Það var sannur heiður að fá að starfa með Gissuri á fréttastofunni. Einstakur öðlingur. Blaðamaður af gamla skólanum sem krafðist svara og lagði ekki á fyrr en hann fékk svörin. Þegar Gissur talaði þá hlustaði fólk, hvort sem var samstarfsfólk, viðmælendur eða hlustendur. Fólk treysti Gissuri.“

Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaður, kveður góðan vin og kollega.

„Gissur Sigurðsson vinur minn látinn. Við Gissur vorum vinnufélagar á mörgum fjölmiðlum og varð vel til vina. Á Ríkisútvarpinu vorum við í sömu deild óformlegri að vísu, sem kölluð var slordeildin. Báðir höfðum við endalausan áhuga á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Húmorinn var aldrei langt undan og Gissur tók því alltaf vel þótt hrekkjalómarnir sem unnu með honum væru sannarlega til alls vísir. Það er mikill missir að vini mínum Gissuri Sigurðssyni. Blessuð sé minning hans.“

Takk fyrir samstarfið

Gunnar Reynir Valþórsson, fréttamaður, þakkar Gissuri fyrir morgunvaktirnar.

Takk fyrir samstarfið í þessi fjölmörgu ár þar sem við stóðum morgunvaktina saman minn kæri. Þegar ég fór að mæta með þér á þessum guðsvolaða tíma var ég ekki viss um að það væri á vetur setjandi að vakna klukkan fimm. Þú sagðir mér strax að þetta væru bestu vaktirnar og það kom á daginn. Þarna vorum við á heimavelli og réðum okkur sjálfir, framan af morgni. Stundum vorum við á öndverðum meiði en það stóð aldrei lengi og var aldrei erft. Þá var það búið og í kjölfarið kom yfirleitt einhver góð saga frá þér (þær voru margar) eða spekúlering um menn eða málefni. Hvíl í friði kæri félagi.

Hugrún Halldórsdóttir, fjölmiðlakona, segir að Gissur hafi verið engum líkur.

„Elsku vinur minn. Það var enginn,  eins og Gissur. Að spjalla við hann um lífið og tilveruna var á við að hlýða á Nóbelsverðlaunarithöfund yfir glaðlofti. Gissuri mun ég aldrei gleyma. Samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina. 

,,Ég les aldrei fréttir Sölvi, ég segi fréttir

Sölvi Tryggvason, fjölmiðlamaður, segir Gissur hafa haft mikil áhrif á líf sitt og mótað hann sem fréttamann. Hann hafi verið meira en vinur, hann hafi verið fyrirmynd.

„Í dag kveðjum við mann sem flokkast í mínum huga undir meistara í öllum skilningi þess orðs. Ég hef lært af frábæru fólki í öllu því sem ég hef gert, en enginn kenndi mér jafn mikið og Gissur Sigurðsson. Hvort sem það var hvernig ætti að skilja aðalatriði frá aukaatriðum, skrifa kjarnyrtan texta eða lesa fréttir í útvarpi og sjónvarpi. En fyrst og síðast hvernig ætti að segja satt og sleppa öllu bulli. Í öllum mínum störfum síðan ég kynntist honum hef ég getað notað verkfærin sem Gissur kenndi mér.

Þegar ég var nýbyrjaður í fjölmiðlum fyrir tæpum 16 árum var ég svo heppinn að fá að vera einn á morgunvöktum með Gissuri í eitt og hálft ár, þar sem við mættum klukkan 5 á morgnana og settumst við skrif, ég með erlendu fréttirnar og hann með innlendu. Klukkan 7 vorum við svo mættir í sitt hvort hornið í húsinu til að lesa fréttir. Ég í morgunfréttum Stöðvar 2 og hann á Bylgjunni. Að því loknu fórum við jafnan aðeins út, þar sem Gissur kveikti sér í sígarettu og við fórum yfir fréttatímann og lífið og tilveruna. Gissur lét mig alltaf vita ef ég var að gera einhverja þvælu og sykurhúðaði það aldrei. Þegar hann hrósaði mér vissi ég að það var verðskuldað.

Ef ég get notað enska orðið ,,Mentor“ um einhvern á mínum starfsferli væri nafn Gissurar efst á blaði. Fyrir ungan Sölva var ómetanlegt að læra af þessum viskubrunni og reynslubolta.

Ég man þegar ég var að spyrja hann ráða um trix til þess að lesa fréttir í ljósvakamiðlum þegar hann sagði mér eftirfarandi:

,,Ég les aldrei fréttir Sölvi, ég segi fréttir. Ég hugsa mér alltaf að ég sé mættur heim til fólks og þegar maður er kominn inn á gólf til fólks verður maður að tala mannamál og vera eðlilegur. Þetta snýst ekki um okkur, þetta snýst um fólkið sem við erum að tala við. „

Gissur var fréttamaður sem alltaf var í faginu til þess að þjónusta almenning. Fólk gat haft alls konar skoðanir á honum, en það var aldrei hægt að saka Gissur um að taka hluti úr samhengi eða vera óheiðarlegur.

Hvíl í friði meistari og megi allar góðar vættir vaka yfir þér“

Dýrðlegur sögumaður, ofboðslega fyndinn, sjarmatröll

Óðinn Jónsson, fjölmiðlamaður og almannatengill kveður Gissur, sögumann, sjarmatröll og húmorista.

„Gamall samstarfsfélagi og vinur, Gissur Sigurðsson er fallinn frá. Ógleymanlegur maður öllum sem kynntust honum. Gissur var einn þeirra sem kenndi manni tökin í fréttamennskunni, sjófróður og næmur, með beittan stíl. Dýrðlegur sögumaður, ofboðslega fyndinn, sjarmatröll. Hlátur hans lifir lengi í minningunni. Takk fyrir allar vaktirnar, Gissur minn, hlýhug þinn og skemmtilegheit. Ég votta ástvinum öllum innilega samúð. Minning um góðan dreng lifir.

Neineineinei stopp stoOPP STOPP!

Aníta Guðlaug Axelsdóttir , framleiðandi, vann náið með Gissuri og telur sig fyrir það heppna.

„Alla virka morgna beið hann óþreyjufullur eftir skriftunni sinni til að aðstoða sig með fréttirnar. Ég fékk af og til skammir frá honum þegar ég lét hann bíða aðeins of lengi, en hann var alltaf fljótur í að fyrirgefa. Við áttum mjög margar eftirminnilegar og fyndnar stundir í þessu litla stúdíói. Við vorum gott teymi sagði hann. Neineineinei stopp stoOPP STOPP!” er mögulega vinsælasta setningin hans í símaviðtölum en það náttúrlega gekk ekki upp að viðmælandinn kom sér ekki bara strax að efninu!!!!! Þar kom ég inn í spilið og nöldraði aðeins í honum að trappa sig aðeins niður, en það var helsta ástæðan að við vorum svolítið gott teymi. Svona yin og yang. Ég tala nú ekki um hvað maður þurfti að vera snöggur upp og niður á mic volume flipanum (þið vitið sem vitið)
Ég tel mig mjög heppna að hafa fengið að vinna með þessum mikla meistara.
Hvíldu í friði.“

 

DV sendir aðstandendum og vinum Gissurar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Hans verður minnst og hans verður saknað. Takk fyrir allt. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Þið eruð bölvaðir plebbar!

Þið eruð bölvaðir plebbar!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Unglingsstúlkur á Suðurnesjum fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús – Morfín og kannabis í hlaupböngsum

Unglingsstúlkur á Suðurnesjum fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús – Morfín og kannabis í hlaupböngsum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Titringur á íslenskum fíkniefnamarkaði – „Verðið hefur tvöfaldast síðan um áramót“

Titringur á íslenskum fíkniefnamarkaði – „Verðið hefur tvöfaldast síðan um áramót“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Matur og drykkur hækka mest í verði

Matur og drykkur hækka mest í verði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Barnavernd líkleg til að grípa inn í ef hætta steðjar að barninu

Barnavernd líkleg til að grípa inn í ef hætta steðjar að barninu