fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Fréttir

Óvissa, einangrun og myrkur í Laugardalnum – „Það kvíða allir fyrir jólunum hérna“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 28. nóvember 2020 09:05

Mynd/Máni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Laugardalnum er hverfi ólíkt öðrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu en það er samsett úr 14 hjólhýsum á tjaldsvæðinu í Laugardalnum, skammt frá sundlauginni. Þar hafa margir búið í langan tíma. Blaðamaður gerði sér ferð í Laugardalinn og ræddi við mann sem hefur búið í hjólhýsi þar í nokkur ár.

„Ég veit ekki hvar ég væri“

Maðurinn sem blaðamaður ræddi við var í kringum fimmtugt og hafði unnið lengi og var orðinn nánast skuldlaus þegar hann fékk hjartaáfall fyrir nokkrum árum. Líf hans breyttist við það til muna. Hann varð óvinnufær með öllu og er í dag öryrki. Hann sá að hann gat ekki haldið húsinu sínu á örorkubótunum og því ákvað hann að kaupa sér hjólhýsi og setjast að í því.

„Ég var heppinn að ég átti pening þegar ég veiktist og gat keypt þetta hjólhýsi. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði verið nýbúinn að kaupa mér íbúð, ég væri bara kominn á ennþá dýpri lista í skuldum og húsnæðislaus,“ segir viðmælandinn.

Óvissan bíður þeirra

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum fyrir fólkið sem býr í hjólhýsunum en síðan Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur, eða ÍTR, tók við rekstrinum á svæðinu hefur það þó orðið betra. Maðurinn sem DV ræddi við hrósar ÍTR í hástert fyrir þeirra aðkomu að svæðinu.

Farfuglaheimilið í Laugardalnum sér alla jafnan um reksturinn á tjaldsvæðinu og leigir svæðið af borginni. ÍTR gerði samkomulag við Farfuglaheimilið um að sjá um svæðið þar til í maí en ekki er vitað hvað mun gerast þegar það samkomulag rennur út. Ekkert nema óvissan bíður því fólksins sem býr í hjólhýsunum.

DV ræddi bæði við Þorstein Jóhannesson, framkvæmdastjóra Farfuglaheimilisins, og Ómar Einarsson, sviðsstjóra ÍTR, en hvorugur þeirra hafði nein svör varðandi framtíð svæðisins. Þorsteinn vildi lítið tjá sig um málið en Ómar sagði að það væri á vegum annarra í borginni að finna lausn á málinu.

„Við vitum ekkert hvað verður, hvert eigum við að fara í maí?“ spyr maðurinn. „Við erum þyrnir í augum annarra tjaldsvæða. Ef það fréttist að við höfum búið í Laugardalnum þá er bara vesen að komast inn á önnur tjaldsvæði því þau halda að þau losni ekki við okkur,“ segir hann.

„Borgin þarf bara að fara að sýna sóma sinn í því að opna svona varanlegt pláss. Það er engin óprýði í þessu, það er engin ölvun eða vesen eða læti hérna eða neitt svoleiðis. Þetta er mjög rólegt og fínt hérna,“ segir hann og undirstrikar að engin neysla sé á svæðinu.

Matur af skornum skammti

Líkt og maðurinn eru flestir sem búa í hjólhýsunum öryrkjar. Örorkubæturnar eru ekki háar og duga varla til framfærslu. Fólkið þarf að borga fyrir veru sína á svæðinu auk gjalds fyrir notkun á þvottavélum og þurrkara.

„Við fáum ekki örorkubætur og förum svo að kaupa okkur hamborgaratilboð,“ segir maðurinn og bendir á að þau, líkt og aðrir, þurfa að borga tryggingar og annan fastan kostnað. Reyndar má ekki vera á svæðinu nema allt sé tryggt. Þegar búið er að borga allt sem þarf að borga þá er lítið eftir af bótunum í mat og annað.

Ef upp kemur óvæntur kostnaður, til dæmis vegna skemmda eða bilana, þá getur það sett stórt strik í reikninginn. Þegar bíllinn hjá manninum bilaði fyrr á árinu tók það verulega á fjárhaginn. „Ég varð náttúrulega að láta laga hann. Það kostaði mig það að ég varð að lifa á…tja, ég keypti mér slatta af skyri og svo drakk ég vatn og kaffi.“

Fljúgandi hálka og myrkur

Hjólhýsin eru upphituð með blásurum og ofnum en þó getur orðið virkilega kalt í þeim þegar illa viðrar. „Þegar það kemur mikið frost hérna þá er skítkalt hjá okkur,“ segir viðmælandinn og bendir á að vegna rakans frá sundlauginni þá er yfirleitt meira frost hjá þeim en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Þá getur maður ekki leyft sér þann lúxus að sofa með opinn gluggann. Þetta er ekki gott fyrir heilsuna en ég myndi frekar vilja búa í þessu heldur en að leigja íbúð og geta ekki átt fyrir mat,“ segir hann.

Þá skapar kuldinn annað vandamál, hálku. Mikil hálka er á svæðinu auk þess sem það er engin almennileg lýsing þar. „Við erum vaðandi hérna í fljúgandi hálku og myrkri. Við skulum átta okkur á einu, burtséð frá þessu úrræði þá er þetta tjaldsvæði Reykjavíkur, höfuðborgar Íslands. Þetta er ábyggilega eini vegurinn á Höfuðborgarsvæðinu sem er ekki malbikaður.“

Fólk einangrast

Þrátt fyrir að veðrið og kostnaðurinn geri fólkinu á svæðinu lífið leitt þá er það ekki eina vandamálið sem það glímir við „Fólk getur einangrast ofboðslega hérna. Það er enginn að koma hingað. Þessi hjálparsamtök, Rauði krossinn, Hjálpræðisherinn, það er enginn að koma hingað og athuga hvernig við höfum það. Þetta getur bara farið illa með fólk og það getur dottið í þunglyndi og hver hefur efni á að fara til sálfræðings?“ spyr maðurinn.

„Þetta hefur alveg slegið fólk niður en það sem maður horfir á er að maður hefur þak yfir höfuðið og getur sofið.“

Þannig verða jólin mín

Jólin eru mörgum erfið og fólkið í hjólhýsunum er engin undantekning á því. „Það kvíða allir fyrir jólunum hérna. Ég segi fyrir mig, ég get ekki horft á nein jól hér nema jú við höfum jólaljós og við höfum hvort annað hérna,“ segir maðurinn sem ætlar sér að eiga malt og appelsín og eina dollu af Mackintosh konfekti um jólin.

„Svo vona ég bara að það verði eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Þannig verða jólin mín. Ég er ekki að fara að fá hamborgarhrygg, bayon skinku eða neitt svoleiðis því ég get ekki eldað þetta, hér er engin eldunaraðstæða. Það er hvergi hægt að setast niður og koma saman. Það er bara súpa á gasinu, þú eldar enga steik hérna,“ segir maðurinn sem þrátt fyrir slæma stöðu sína hugsar um að aðrir hafi það verra en hann sjálfur.

„Ég veit vel að ég get farið til Hjálpræðishersins og fengið mér að borða. En ég tel bara marga vera í verri stöðu en ég. Þau þurfa á hjálpinni að halda og það þarf bara að vera svoleiðis.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

17 ára piltur áfrýjar ekki dómi fyrir að bana Bryndísi Klöru

17 ára piltur áfrýjar ekki dómi fyrir að bana Bryndísi Klöru
Fréttir
Í gær

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“
Fréttir
Í gær

Alvarleg staða á Landspítalanum – Ófaglærðir halda starfseminni gangandi þegar kemur að hjúkrun og umönnun

Alvarleg staða á Landspítalanum – Ófaglærðir halda starfseminni gangandi þegar kemur að hjúkrun og umönnun
Fréttir
Í gær

Hvað hefði brúðkaup Bezos kostað á Íslandi? – „Var mjög rausnarlegur og ég komst upp í 2,7 milljarða“ 

Hvað hefði brúðkaup Bezos kostað á Íslandi? – „Var mjög rausnarlegur og ég komst upp í 2,7 milljarða“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir stjórnarandstöðuna leggja fæð á Ingu Sæland og hindra framfaramál með botnlausu málþófi

Segir stjórnarandstöðuna leggja fæð á Ingu Sæland og hindra framfaramál með botnlausu málþófi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjónvarpsstöðin SÝN opnar upp á gátt fyrir alla landsmenn frá og með 1. ágúst

Sjónvarpsstöðin SÝN opnar upp á gátt fyrir alla landsmenn frá og með 1. ágúst