fbpx
Laugardagur 10.júní 2023
Fréttir

„Ég hef alltaf talið að að því kæmi að annar hvor flokkurinn myndi svíkja sína kjósendur. Og það er því miður að gerast“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 26. janúar 2020 09:00

Ögmundur Jónasson. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er stund lægða á milli grámyglulegan janúareftirmiðdag er blaðamaður bankar upp á í Vesturbæ Reykjavíkur. Húsráðandi verður þó seint kallaður grámyglulegur. Það er hann Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og formaður BSRB, sem kemur snarlega til dyra og býður blaðamanni inn í hlýjuna. Heimili hans hefur sál, sál sem gjarnan fylgir heimilum þar sem fjölskyldur hafa búið um margra ára bil. Hér hefur verið líf, börn, barnabörn, hlátur, grátur, gleði og sorg. Ögmundur er kominn á eftirlaun. En frá hugsjónum sínum fær hann þó engan frið. Þar brennur eldmóðurinn sem aldrei fyrr og nú hefur Ögmundur farið af stað með fundaröð þar sem ætlunin er að takast á við eitt helsta þrætuepli í pönnukökuboðum á Íslandi síðustu áratugi – kvótann.

Þetta er brot úr stærra viðtali sem birtist í helgarblaði DV

Sjá einnig: „Þetta er ein af skýringunum á hruninu, eða það er ég sannfærður um“

Orkupakkinn

Það eru mun fleiri mál en kvótamálin sem eru Ögmundi hugleikin. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hönd Vinstri grænna og sat þar að auki um árabil á þingi sem kjörinn fulltrúi VG. Hann er hins vegar óánægður með sína gömlu félaga þegar kemur að einu mesta hitamáli síðasta árs, orkupakka þrjú.

„Þetta mál varð mér mikið hryggðarefni. Að ríkisstjórn með VG innanborðs skyldi ekki stöðva það. Ég held að það sé að verða ákveðin afstöðubreyting hjá stjórnmálamönnum á vinstri vængnum, þar sem þeir eru í raun að undirgangast forsendur markaðshyggjunnar. Hugsunin er þá þessi: Nú búum við til sjóð, Auðlindasjóð, og reynum að ná eins miklum arði af auðlindunum og kostur er inn í þennan sjóð. Ef það gengur eftir skiptir minna máli hver það er sem rekur auðlindirnar, hver annast umsýsluna svo lengi sem við fáum nægilegan arð í okkar sameiginlega sjóð.

Svona er hugsað. Ég lít hins vegar svo á að með þessu móti sé verið að byggja inn í kerfið hvata til frekari og frekrar nýtingar á orku og til virkjana, umfram brýna þörf, sem umhverfisverndarsinnar eiga að forðast í lengstu lög. Við eigum að njóta þessara auðæfa, raforkunnar og vatnsins milliliðalaust en ekki með því að deila arði með fjárfestum.“

Heldurðu að arðsemiskröfur ríkisstjórnarinnar séu orðnar of miklar?

„Þessi hugsun um arðsemi og arð, hvort sem er af sjávarauðlindinni eða öðrum auðlindum er rangur vegvísir. Tökum sjávarauðlindina sem dæmi. Hvar hefur ávinningurinn af nýtingu hennar legið? Talsmenn kvótakerfisins segja að sjávarútvegurinn skili meiri arði en nokkurn tímann áður – þetta þýðir á þeirra máli að hægt sé að taka meiri peninga út úr auðlindinni. En mikill arður í vasa fárra er ekki hagkvæmur fyrir þjóðina. Arðurinn eins og ég vil sjá hann er í maganum á þjóðinni. Arðurinn, eða ávinningurinn öllu heldur, er í atvinnustarfsemi sem er rekin í landinu og á að felast í því hvernig þúsundir einstaklinga og fjölskyldna hafa lífsviðurværi sitt og hvernig við í sameiningu nýtum auðlindir okkar til að byggja upp samfélag; með öðrum orðum, ávinningurinn á að birtast í  lífsgæðum okkar allra.“

Stiginn út fyrir flokkakerfi stjórnmálanna

Markaði orkupakkamálið vatnaskil hjá þér, hefur þú sagt skilið við Vinstri græn?

„Ég er vinstrisinnaður sem aldrei fyrr og verð grænni með hverjum deginum, en ég verð varla skilgreindur samkvæmt formúlu stjórnmálaflokks. Það er of þröngt fyrir mig. Ég er stiginn út í grasrótina þar sem ég hey baráttu, sem vissulega er pólitísk og á að gagnast öllum sem berjast fyrir sama málstað. Ég sé þessa baráttu ekki í stofnanalegu samhengi heldur horfi ég til málefna og fagna því sem vel er gert, en gagnrýni það sem ég tel ámælisvert. Ég vil að samfélagið sé vakandi og lýðræðið lifandi. Þá farnast okkur betur.“

Gerði VG mistök þegar flokkurinn hóf stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum?

„Ég var fullur efasemda um það vegna þess að þetta eru flokkar sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir gagnstæðum sjónarmiðum og Sjálfstæðisflokkurinn er, auk þess að vera stjórnmálaflokkur, hagsmunabandalag fjármagnsaflanna sem VG vill alls ekki vera. Ég hef alltaf talið að að því kæmi að annar hvor flokkurinn myndi svíkja sína kjósendur. Og það er því miður að gerast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ný stjórn kosin hjá Hugarafli

Ný stjórn kosin hjá Hugarafli
Fréttir
Í gær

Svipti sig lífi eftir ítrekaðar frávísanir frá gistiskýlinu – Hafnarfjarðarbær neitaði að greiða gistinguna

Svipti sig lífi eftir ítrekaðar frávísanir frá gistiskýlinu – Hafnarfjarðarbær neitaði að greiða gistinguna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján kominn með harðskeyttan lögmann í stríðinu við Endurmenntun HÍ – Svona var atburðarásin þegar hann var rekinn

Kristján kominn með harðskeyttan lögmann í stríðinu við Endurmenntun HÍ – Svona var atburðarásin þegar hann var rekinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hökkuðu sjónvarpsútsendingar á Krím – Sýndu myndir af árásum Úkraínumanna

Hökkuðu sjónvarpsútsendingar á Krím – Sýndu myndir af árásum Úkraínumanna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaði réttarvörslukerfið um fordóma út af löngu gæsluvarðhaldi þegar dómurinn féll – Aftur úrskurðaður í gæsluvarðhald allt fram í desember

Sakaði réttarvörslukerfið um fordóma út af löngu gæsluvarðhaldi þegar dómurinn féll – Aftur úrskurðaður í gæsluvarðhald allt fram í desember
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Staðfest að Modestas sé hinn látni

Staðfest að Modestas sé hinn látni