fbpx
Miðvikudagur 21.október 2020
Fréttir

Icelandair sniðgekk 70 flugfreyjur – Sögusagnir um flugumenn Icelandair innan FFÍ

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 13. ágúst 2020 13:03

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir ráðningar Icelandair í flugfreyjustöður undanfarið er orðið ljóst að gengið var fram hjá um 70 flugfreyjum við endurráðningar, að því er heimildarmenn DV herma. Icelandair er sagt horfa fram hjá starfsaldurslista en ákvæði í kjarasamningi segir að leitast skuli við að fylgja starfsaldurslista við ráðningar flugfreyja til félagsins.

Í vor sagði Icelandair upp nánast öllum flugfreyjum sínum og voru aðeins um 40 flugfreyjur eftir hjá félaginu. Í kjölfar þess að flugfreyjur felldu þann 8. júlí kjarasamning sem undirritaður hafði verið í lok júní sagði Icelandair upp öllum flugfreyjum og tilkynnti að félagið hygðist semja við „annað innlent stéttarfélag.“ Hvaða félag það var kom aldrei fram en leiða mátti að því líkur að um hafi verið að ræða annað hvort Íslenska flugstéttarfélagið, sem stofnað var fyrir væntanlegt starfsfólk flugfélagsins Play, eða að stofna nýtt stéttarfélag.

Í sumar tilkynnti svo Icelandair að það hygðist endurráða 170 flugfreyjur. Það hefur nú verið gert og sem fyrr var gengið fram hjá um 70 flugfreyjum sem áttu, samkvæmt starfsaldurslista, að vera ráðnar inn.

Enginn yfir 60 ára og fjarvera frá starfi hindrar endurráðningu

Heimildarmenn DV segja jafnframt enga flugfreyju eldri en 60 ára hafa verið ráðna inn. Það er einkar athyglisvert í ljósi þess að vöntun ákvæðis í undirritaðan kjarasamning er varðar flugfreyjur eldri en 60 ára var ein höfuðástæða þess að samningurinn var felldur í atkvæðagreiðslu félagsmanna FFÍ.

Í kjölfar þess tilkynnt yrði að 170 flugfreyjur yrðu ráðnar inn að nýju fór flugfreyjum að berast tölvupóstar og símtöl frá Icelandair. Samkvæmt heimildarmönnum DV spurðist hratt út hverjar voru ráðnar inn og hverjar ekki. Fljótt var ljóst að ekki yrði farið eftir ákvæði í kjarasamningi um að haga endurráðningum samkvæmt starfsaldurslista. Mikil óánægja spratt út. Þeirri óánægju var svarað með tölvupósti á allar þær sem voru ekki ráðnar til félagsins aftur.

Talsverðrar gremju gætir um þann póst. Þótti hann ópersónulegur og ónærgætinn. Síðar kom annar póstur sem þar sem flugfreyjum sem hlutu ekki endurráðningu var boðið að panta viðtal ef hann eða hún vildi ræða við fulltrúa flugfélagsins.

DV hefur heimildir fyrir því að fjarvera frá starfi, til dæmis vegna launalausrar leyfistöku eða fjölda séróska um starfstíma, hafi vegið þungt í ákvarðanatöku Icelandair og að litið hafi verið langt aftur í tímann í þeim efnum. Í sumum tilfellum mörg ár.

Flugumenn og „neikvætt starfsviðhorf“

Enn fremur hefur DV heimildir fyrir því að konur hafi ekki verið ráðnar inn þrátt fyrir langan starfsaldur vegna þess að þær hafi tekið þátt í umræðum á samfélagsmiðlum um uppsagnir Icelandair á öllum flugfreyjum og ætlanir félagsins að semja við annað stéttarfélag, í kjölfar þess að félagsmenn FFÍ felldu fyrsta kjarasamninginn sem undirritaður var. Var einni sagt að hún hefði „neikvætt starfsviðhorf gagnvart fyrirtækinu.“ Eru þær sem ekki voru ráðnar inn aftur sagðar upplifa sem svo að þær hafi verið skildar eftir af Flugfreyjufélaginu og að Icelandair hafi „komist upp með“ að deyða ákvæðið í kjarasamningi um ráðningar samkvæmt starfsaldurslista.

Enn fremur fór orðrómur af stað í aðdraganda verkfallsboðunar í kjölfar uppsagna og samningsslita Icelandair í júlí að innan raða félagsmanna FFÍ leyndust flugumenn. Voru þær sagðar mynda 18-20 manna hóp flugfreyja sem stóðu með Icelandair í aðgerðum fyrirtækisins gegn FFÍ og var hluti hópsins sagður hafa verið tilbúinn að vinna með Icelandair að því að stofna þetta dularfulla „hitt stéttarfélag,“ sem Bogi talaði um í tilkynningu sinni er varðaði slit viðræðna við FFÍ.

Þegar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sendi svo flugfreyjunum bréf, sem kallað hefur verið „skammarpóstur“ fyrir framgöngu þeirra í kjarabaráttu sinni, svaraði ein þeirra öllum tölvupóstþræðinum með „reply-all“ takkanum: „Takk.“

Færðu fórnir til að halda lífi í FFÍ

Það vakti talsverða undrun þegar Flugfreyjufélagið svaraði uppsögn Icelandair á öllum sínum meðlimum með verkfallsboðun. Á þeim tíma hafði Icelandair tilkynnt að frekari vinnuframlags yrði ekki krafist af flugfreyjum frá og með mánudagsins 20. júlí. Auglýsti flugfélagið þá eftir „öryggisfulltrúum,“ til að sinna þeirra starfi um borð og áttu þannig flugmenn, óbeint, að ganga í störf flugfreyja. Undrunin snéri að því að hvaða bit verkfall hefði þegar öllum hafði þegar verið sagt upp og frekari vinnuframlags ekki krafist á uppsagnarfresti.

Samkvæmt heimildum DV lágu ástæður þar að baki sem hafa ekki komið fram í fjölmiðlum áður. Til dæmis þær að Flugfreyjufélagið hafi ætlað að reyna að nýta sér samstöðu meðal systurfélaga sinna á Norðurlöndunum og hindra að vélar Icelandair fengju afgreiðslu á flugvöllum erlendis.

Raunin varð hins vegar sú að samið var í skyndingu við Icelandair og samningur undirritaður áður en til þess kom að „öryggisfulltrúarnir“ fengju að spreyta sig. Eru stjórn og samninganefnd FFÍ sögð hafa tekið þá ákvörðun að taka ekki slaginn sem hefði líklega dregist fram á næsta ár í dómsölum landsins og þess í stað halda lífi í Flugfreyjufélagi Íslands, sem að öðrum kosti hefði líklega orðið „meðlimalaust félag utan um sumarbústaðaeignir.“

DV leitaði eftir viðbrögðum Icelandair við fréttinni, en ekki höfðu borist svör við birtingu fréttarinnar. Ekki náðist í Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, formanns FFÍ, við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stór jarðskjálfti – Uppfært : Annar skjálfti upp á 4,6 á Richter

Stór jarðskjálfti – Uppfært : Annar skjálfti upp á 4,6 á Richter
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þórólfur og Víðir látnir svara fyrir notkun persónupplýsinga – Þingmaður hefur áhyggjur af óskýrum lögum

Þórólfur og Víðir látnir svara fyrir notkun persónupplýsinga – Þingmaður hefur áhyggjur af óskýrum lögum
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Svipaður fjöldi hjónaskilnaða á þessu ári og því síðasta

Svipaður fjöldi hjónaskilnaða á þessu ári og því síðasta
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Krefja PwC um skýringar á óútskýrðum millifærslum upp á 800 milljónir

Krefja PwC um skýringar á óútskýrðum millifærslum upp á 800 milljónir
Fréttir
Í gær

Margir minnast Guðrúnar – „Hún var andleg fyrirmynd, glaðsinna og einlæg hugsjónakona.“

Margir minnast Guðrúnar – „Hún var andleg fyrirmynd, glaðsinna og einlæg hugsjónakona.“
Fréttir
Í gær

Evrópskir dómstólar dæma „Covid-lokanir“ veitingahúsa ólögmætar – Íslenskir veitingamenn skoða nú rétt sinn

Evrópskir dómstólar dæma „Covid-lokanir“ veitingahúsa ólögmætar – Íslenskir veitingamenn skoða nú rétt sinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hertar sóttvarnareglur taka gildi á þriðjudaginn

Hertar sóttvarnareglur taka gildi á þriðjudaginn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögregla leitar vopnaðs ræningja

Lögregla leitar vopnaðs ræningja
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Færri smit