Spilakassar er sú tegund fjárhættuspila sem flestir spilafíklar ánetjast. Hvorki Rauði krossinn né Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggjast hætta aðkomu sinni að Íslandsspilum sem reka fjölda spilakassa. Formaður SÁÁ telur að rekstri spilakassa verði brátt sjálfhætt því öll spilun sé á leið á netið.
Þetta er hluti af stærri umfjöllun um spilafíkn og rekstur spilakassa í nýjasta DV.
„Spilakassar eru það fjárhættuspil sem er mest ávanabindandi, þrisvar til fjórum sinnum meira ávanabindandi en til að mynda póker og íþróttaveðmál,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.
Spilakassar hér á landi eru reknir af tveimur aðilum; Íslandsspilum og Happdrætti Háskóla Íslands. Íslandsspil eru í eigu Rauða kross Íslands (64%), Slysavarnafélagsins Landsbjargar (26,5%) og SÁÁ (9,5%). Öllum spilakössunum var lokað þann 20. mars vegna COVID-19 en byrjað var að opna kassa aftur snemma í maí. Íslandsspil og HHÍ hafa leyfi til rekstursins frá dómsmálaráðuneytinu.
„Við fengum símtöl frá fjölda aðstandenda og ættingja spilafíkla sem urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar spilakassarnir voru opnaðir aftur. Það var áberandi hversu miklar breytingar urðu á lífi fjölda spilafíkla meðan kassarnir voru lokaður. Ættingjar sögðu þá eyða meiri tíma með fjölskyldunni og vinnuveitendur sögðu spilafíkla bæði mæta betur í vinnuna og biðja síður um að fá launin fyrirfram. Nú dugðu þau bara út mánuðinn þegar ekki var verið að eyða þeim í spilakassana,“ segir Alma.
Tæp 86% svarenda vilja að spilakassar og spilasalir verði lokaðir til frambúðar, samkvæmt niðurstöðu könnunar sem Gallup gerði nýverið fyrir Samtök áhugamanna um spilafíkn, SÁS. Niðurstöður könnunarinnar sýna að flestir nota spilakassa sjaldan og aðiens 0,3% nota þá að staðaldri.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir aðspurð að ekki standi til að hætta aðkomu að rekstri spilakassa. „Þetta er mjög mikilvæg fjáröflun fyrir félagið og sést það vel á því að nú þegar spilakassar voru lokaðir í COVID-faraldrinum með tilheyrandi tekjufalli hjá Íslandsspilum höfum við þurft að grípa til aðgerða meðal annars með fækkun stöðugilda og endurskipulagningu verkefna. Það er afskaplega erfitt enda verkefnin brýn. Það er ekki kappsmál í sjálfu sér fyrir Rauða krossinn að starfrækja spilakassa en hefur verið mikilvæg fjáröflun fyrir félagið og alveg ljóst að það þarf fjármagn til að halda úti starfsemi félagsins,“ segir hún.
Kristín tekur fram að rekstur Íslandsspila byggi á gömlum grunni og Rauði krossinn hafi leitað ýmissa leiða til að styrkja aðra fjáröflun þar sem tekjur af Íslandsspilum hafi farið minnkandi með hverju árinu, til dæmis með Mannvinum Rauða krossins og mánaðarlegum styrktaraðilum. „Ef fram fer sem horfir munu tekjur halda áfram að dragast saman, enda þeir sem taka þátt í spilunum margir hverjir farnir að spila á netinu. Rauði krossinn og aðrir eigendur Íslandsspila hafa um árabil kallað eftir breytingu á lagaumhverfi happdrættismarkaðarins. Hugnast okkur best að fara svokallaða norrænu leið, þar sem eitt fyrirtæki rekur spilakassa, lottó, getraunir og skafmiða. Með þessu móti er hægt að bjóða upp á skráningu þeirra sem spila og spilakort, hægt að setja þak á hversu mikið er hægt að spila. Það er vilji eigenda Íslandsspila að þessi leið verði farin,“ segir Kristín
Ítarlega er fjallað um spilafíkn og spilakassa í nýjasta helgarblaði DV. Þar er einnig rætt við formann Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, formann SÁÁ og íslenskan spilafíkil.